4.7.2011 | 00:07
1411 - Geir Haarde, skordýr og fleira
Gamla myndin.
Þessi mynd er ofan af Reykjum. Húsið á myndinni var aldrei kallað annað en byggingin. Ætli bíllinn þarna sé ekki Pobedan hans Axels Magnússonar.
Finnst alltaf þegar ég er nýbúinn að setja upp blogg að nú hljóti ég að hafa lítið um að skrifa næsta dag. Merkilegt hvað úr því rætist samt oftast nær. Minningar frá Hveragerði í gamla daga eru þó sífellt að verða fyrirferðarminni. Enda engin furða. Það minnkar oftast sem af er tekið. Ég hugsa samt sífellt meira um þá daga. Líklega er það merki um að ég sé farinn að gamlast. Fréttir dagsins vekja oft ekki mikinn áhuga hjá mér. Íþróttafréttir allra síst. Það er af sem áður var. Einu sinni þóttu mér slíkar fréttir afar spennandi.
Fyrir mörgum árum eða áratugum las ég um svarta atvinnustarfsemi í Grikklandi. Fyrir skrifstofumenn væri nauðsynlegt að eiga nokkra jakka. Til siðs væri að mæta á einn vinnustað (og setja jakkann sinn á stólbak) og fara síðan á næsta vinnustað. Algengt væri að menn sinntu störfum á 3 4 stöðum en viðurkenndu auðvitað aðeins eitt starf fyrir skattinum. Minnir að ég hafi eitthvað minnst á svarta atvinnustarfsemi í Grikklandi þegar ég ræddi um vandræðin þar um daginn. Hugsanlegt er líka að ríkisvaldið þar sé mjög veikt.
Nú hrósar Geir Haarde sér af aðgerðarleysinu. Lætur sem það sé sérstakt happ fyrir Íslendinga að bankarnir hafi farið á hausinn. Þessu á fólk víst að trúa. Rétt er hinsvegar hjá Geir að hætt er við að starfsemi landsdómsins verði alltof pólitísk. Mér finnst samt að ekki eigi að reka þetta mál í fjölmiðlum og á bloggi. Landsdómur ætti að vera einfær um það.
Skordýr hafa átt fremur erfitt uppdráttar í vor vegna kulda og ótíðar segir aðalskordýraálitsgjafi blaðanna. Sama er mér. Fannst samt með meira móti af hunangsflugudrottningum í vor. Geitungarnir mega missa sig enda finnst mér loðnu hlussurnar næstum vinalegar samanborið við þá.
Hugsa stundum um það hvort ég hafi einhver skoðanamyndandi áhrif á þá sem lesa bloggið mitt að staðaldri. Ef svo er held ég að þau áhrif séu mjög óbein og víst er að sú er ekki ástæðan fyrir því að ég held þessu áfram. Miklu fremur finnst mér hægt að líta á þetta sem einskonar blaðamennsku og æfingu í því að koma hugsunum sínum í orð.
Blaðamennskusamlíkingin er ekki svo galin. Kannski er aðalmunurinn sá að blaðamaðurinn fær oftast einhver ákveðin verkefni og þarf að flýta sér. Ég get skrifað um það sem mér sýnist og verið eins lengi að því eins og ég vil. Hann fær líka borgað fyrir það sem hann gerir en ég ekki.
Af hverju í ósköpunum er ég þá að þessu? Veit það ekki. Þó ég sé greinilega ekki að þessu peningann vegna þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því að ég held þessu áfram. Og það meira að segja í miðju óvinalandinu.
Dagskipunin til þeirra sem Moggann hafa í heiðri er nefnilega sú að þeir eigi að vera á móti ESB. Annað sé óþjóðlegt. Hvernig sjálfstæðismenn flestir hafa spyrt sig saman í þessu máli við þá sem lengst eru til hægri og til vinstri í þjóðmálum er mér illskiljanlegt. Pólitík öll er það í rauninni líka og á kannski að vera það.
Já, skógarkerfillinn er mesta skaðræði. Ætlaði um daginn að ná mér í rabbarbara þar sem ég hef áður farið en hann hafði lagt svæðið undir sig og var illviðráðanlegur. Í samanburði við lúpínuna er vel hægt að hata skógarkerfilinn. Hann bíður eftir að aðrar jurtir búi til jarðveg og þar að auki getur hann orðið svo hár að erfitt er að fara um svæði sem hann hefur lagt undir sig. Lúpínan er þar að auki fallegri á litinn. Læt svo útrætt um þennan andskota.
Björn Bjarnason lifir enn í sínum kaldastríðsheimi. Samkvæmt fréttum um grein sem hann á að hafa skrifað telur hann það álíka skammsýni hjá Bandaríkjamönnum að hafa kallað heim herlið sitt héðan og hjá núverandi ríkisstjórn að hafa sótt um aðild að ESB. Þrátt fyrir þekkingu sína er ekki annað að sjá en Birni sé fyrirmunað að horfa fram á veginn. Brottför bandaríska herliðsins er staðreynd og umsóknin um ESB-aðild einnig. Vel getur verið að eitt af hlutverkum hersins hafi verið að koma í veg fyrir aðild okkar að ESB. Samt er það ekki fyrir afglöp Bush og félaga sem Íslendingar sóttu um aðild að ESB. Það gerðist bara af því að tími var til kominn.
Nei, þetta er ekkert hættulegt. Hann er bara að baða sig.
Athugasemdir
Björn karlinn Bjarna sér enga framtíð án hermangs, ef ekki hér þá annarstaðar. Ekki öfundsvert hlutskipti það.
Hvað sem skógarkerflinum líður þá verður bölvuð lúpínan aðal óvinurinn næstu áratugina, hennar "ágæti" er illa misskilið.
Gríska jakkatrixið er ekki síður Íslenskt, hver kannast ekki einmitt við þau svör í símann að "hann sé örugglega við, þó hann svari ekki í augnablikinu, því jakkinn hans sé á stólbakinu"?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 4.7.2011 kl. 00:44
menn sem hatast út í lúpínuna er menn sem líkar auðn og melar..
Gríska "kerfið" er ákaflega íslenskt. Íslendingar hafa löngum stærst sig af löngum vinnudögum og leggja það að jafnaði við dugnað.. þetta er mikill miskilningur því meðal íslendingur afkastar minna á 12 tímum en meðal nojarinn gerir á 8 tímum.. já eða bandaríkjamenn ef út í það er farið.
BB er og verður fífl
Óskar Þorkelsson, 4.7.2011 kl. 07:11
Í lúpínustríðinu mikla stend ég með lúpínunni. Svo einfalt er það. Man vel að ég sá fyrst breiður af henni í Skorradalnum fyrir margt löngu.
Svört atvinnustarfsemi er bara þannig að flestir tapa á endanum. Það er samt erfitt að standast þann skammtíma ávinning sem hún gefur yfirleitt.
Sæmundur Bjarnason, 4.7.2011 kl. 08:13
BB "orðin" snarvitlaus, elliin alveg að taka hann; Bráðum fer hann að tala um sín yngri ár, árin sem pabbi hans drap hann og dansaði á gröf hans, allt vegna samsæris sovétríkjanna og bónuss.
;)
doctore 4.7.2011 kl. 09:23
Ég held að þín skoðanamyndandi áhrif Sæmundur, séu fyrst og fremst fólginn í þeirri ró og yfirvegun sem textinn skilur eftir. Það eru í raun engin smá áhrif.
Með kveðju, Sveinn R. Pálsson.
Sveinn R. Pálsson, 4.7.2011 kl. 09:23
Takk Sveinn. Þetta með róna og yfirvegunina er kannski rétt hjá þér. Legg sjaldan áherslu á að koma því frá mér sem mér dettur fyrst í hug. Þessvegna fésbókarfóbían. Les textann hjá mér jafnan yfir eða reyni það a.m.k.
Sæmundur Bjarnason, 4.7.2011 kl. 09:45
Ef þú átt góða mynd af Póbedu, (Axels eða annarra), þætti mér vænt um að fá eintak. Ég er enn að safna myndum úr samgöngusögunni, þó ég fari mér að mestu hægt með það, og er enn að áskotnast álitlegar myndir og forvitnilegar. Vantar Póbedu (helst prófíl, eða ská á hornið framan á) og líka elstu gerðina af Moskvits, þennan úr Opelsstönsunum. Reyndar fleiri gerðir, en mér finnst slæmt að eiga ekki þessa tvo úr bílasögunni.
Allar svona myndir vel þegnar. Ef þær eru sendar mér í tölvuformi þurfa þær að vera í góðri upplausn til að vera marktækar.
Annars: Sammála þér um loðnu hlussurnar annars vegar og lúpínuna hins vegar. Kerfillinn er stórvarasamur og fer miskunnarlaust í meira að segja ræktað land. Ég óttast að ekki verið tekið til alvöru varna gegn honum í tæka tíð. Lúpínan er blessun.
Sigurður Hreiðar, 4.7.2011 kl. 11:52
Man ekki eftir að eiga góða mynd af Póbedu. Eins og það voru algengir bílar í eina tíð. Man eftir mynd af Ölfusárbrú og þá voru 3 Póbedur á brúnni í einu. Þá var einu sinni ekki algengt að margir bílar væru á brúnni í einu. Var að fá á bókasafninu Sögu Selfoss II frá 1930 til 1960. Bók sú er eftir Guðmund Kristinsson. Örugglega margt fróðlegt þar. Átti nefnilega einu sinni heima á Selfossi.
Sæmundur Bjarnason, 4.7.2011 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.