1409 - Að kjósa "rétt"

IMG 0018Gamla myndin.
Hér er gömul loftmynd af Hveragerði. Þó ýmsar byggingar hafi bæst við og möl verið sett á skólatúnið síðan ég ólst upp þarna er gatnakerfið mjög svipað og þá var. Á þessu svæði hélt maður sig yfirleitt.

Margir virðast hafa hasast upp á að blogga sífellt og endalaust. Kannski eru það einkum Moggabloggarar. Hvað veit ég? Sumir sem hættu þegar Davíð byrjaði sem ritstjóri á Morgunblaðinu, hafa lítið sést síðan. Það hentar áreiðanlega sumum að fésbókast bara eins og ég kalla það. Halda þannig sambandi með tölvutækninni við tiltölulega fáa en eru samt alveg opnir fyrir frekari samskiptum við þá sem það vilja. Nenna ekki að vera að setja saman einhverjar blogg-greinar. Skrifa bara samstundis á fésbókina það sem þeim dettur í hug í það og það skiptið. Skiljanlegt mjög.

Svo eru aðrir, einsog ég, sem sífellt þurfa að láta ljós sitt skína og eru fastir í blogginu. Mér finnst þetta afar hentugt og ekki hindra mig á neinn hátt. Eiginlega er alveg ágætt að nota bloggið og fésbókina jöfnum höndum. Svolítið kann það að virðast ruglandi,  en þá er bara að taka því. Lífið sjálft er þannig. Flókið og ruglandi. Maður er sífellt að reyna að höndla stóra sannleikann en hann virðist alltaf sleppa.

Rifjaðist upp fyrir mér þegar ég birti myndina af gömlu slökkvistöðinni í gær að ég hef líklega ekki verið mjög gamall þegar verið var að taka hana í notkun. Man að verið var að tengja rafmagnið þar og það var Guðjón Pálsson rafvirki sem það gerði. Hann fékk lánaða vinnuvettlinga hjá mér og klifraði upp í staurinn sem var hinum megin við götuna. Af einhverjum ástæðum var ég óhemju stoltur af að hafa lánað honum vettlingana. Eins og ég hefði gert það kleift að taka slökkvistöðina í gangið.

Ætlaði víst að skrifa eitthvað um Exeter-dóminn en get það eiginlega ekki. Það er engin lausn á neinu að setja sig upp á móti dómstólum. Við höfum einu sinni (þegjandi) sætt okkur við að dómstólar skeri úr ágreiningsmálum. Ekki er víst að þetta sé lokaorðið í viðkomandi máli og ef útrásardólgarnir ná aftur völdum í þjóðfélaginu þá er það vegna þess að við viljum það í rauninni. Ef kosningar til valdastofnana í þjóðfélaginu (Alþingis) endurspegla ekki óánægju fólks, þá er hún einfaldlega ómark. Meirhlutinn á að ráða og ræður með því að kjósa „rétt“ í Alþingiskosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum.

IMG 5900Mávur að hvíla sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flókið og ruglandi. Maður er sífellt að reyna að höndla stóra sannleikann en hann virðist alltaf sleppa. Þannig er lífið.

Stjörnubjart? Sumir sem hættu þegar Davíð byrjaði sem ritstjóri á Morgunblaðinu, hafa lítið sést síðan. Það hentar áreiðanlega sumum að fésbókast bara eins og ég kalla það. Halda þannig sambandi með tölvutækninni við tiltölulega fáa en eru samt alveg opnir fyrir frekari samskiptum við þá sem það vilja

Ólafur Sveinsson 2.7.2011 kl. 00:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Störnubjart? Stjörnubjart? Hvað getur það þýtt í þessu tilfelli? Hux, hux. Nei, ég næ þessu ekki.

Sæmundur Bjarnason, 2.7.2011 kl. 08:32

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

fallegur er hann sílamávurinn

Óskar Þorkelsson, 2.7.2011 kl. 09:09

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en frekjan er oft óskapleg. Andagreyin fá bara ekki neitt. Mávarnir ná brauðinu jafnvel áður en það kemst niður að vatninu.

Sæmundur Bjarnason, 2.7.2011 kl. 10:12

5 Smámynd: Vendetta

Brauð er ekki andafuglamatur. Það ætti að ráðleggja fólki að gefa öndunum og gæsunum á Tjörninni ekki brauð, jafnvel þótt það sé skemmtilegt fyrir krakkana, því að það eyðileggur meltingarvegi þeirra og orsakar mengun, sem smám saman drepur allt dýralíf í vatninu (þmt. síli).

Mávagerið við Tjörnina hefur aldrei verið eins mikið og nú. Og það er m.a. út af allri þessari bölvaðri brauðgjöf.

Vendetta, 2.7.2011 kl. 14:29

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hey,  Vendetta. Hver var að tala um Tjörnina? Enginn sem ég kannast við nema þú. Það er óþarfi að æsa sig þó einhver minnist á brauð. En sennilega hefur þú svosem rétt fyrir þér. En það eru til fleiri staðir en Tjörnin og margskonar brauð.  

Sæmundur Bjarnason, 2.7.2011 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband