27.6.2011 | 00:06
1404 - Blóm í bæ
Hér eru í setustofunni í Samvinnuskólanum að Bifröst þeir Jón Alfreðsson, Tryggvi Eymundsson og Guðmundur Reynir Óskar Jóhannsson.
Barnaníð er ofarlega í hugum fólks þessa dagana. Viss fjöldi fólks leggur slíkt fyrir sig. Engin furða er að slíkt fólk reyni að koma sér í störf sem tengjast börnum. Sök kirkjunnar er ekki sú trú sem boðuð er, heldur hvernig staðið er að barnastarfi innan hennar. Ef upp koma mál af þessu tagi hjá kirkjunni þarf að taka á þeim með festu og ákveðni.
Mér finnst kirkjan og fólk sem innan hennar starfar einkum hafa brugðist að tvennu leyti á þessum vígstöðvum. Athugun og eftirlit með þeim sem þar vinna að barnastarfi hefur löngum verið stórlega ábótavant, bæði hér á Íslandi og annarsstaðar. Ekki hefur heldur verið tekið með nærri því nægri ákveði á málum sem upp hafa komið heldur reynt með öllum hætti að sópa þeim undir teppið og fela þau. Trúin sjálf og boðun hennar er svo algjört sérmál.
Almennt skólastarf virðist alls ekki hafa verið eins útsett fyrir svona lagað og kirkjulegt starf með börnum sem og upptökuheimili og munaðarleysingjahæli af öllum toga. Einkum hefur verið ráðist að þeim börnum sem lakastar varnir hafa og er slíkt fyrirlitlegra en orð fá lýst.
Um þessar mundir er ég að lesa bók sem nefnd er Lindargötustrákurinn. Ekki er með neinu móti hægt að sjá hvenær þessi bók er gefin út eða samin. Aftarlega í henni sá ég reyndar ártalið 2008 svo líklega er hún gefin út eftir Hrun. Höfundur er Albert Jensen. Með afar innfjálgum hætti er fyrsti hluti bókarinnar helgaður lýsingum á ýmiss konar strákapörum hér í Reykavík sem höfundurinn var gjarnan höfuðpaurinn í. Bókin er sundurlaus og próförk illa lesin en samt er hún áhugaverð. Nýlegar sjálfsævisögur eru fáar á íslensku og oft ekki vel samdar. Ég er þó ekki nógu langt kominn með þessa til að úttala mig frekar um hana.
Fór í gær (laugardag) á einhverskonar garðyrkjusýningu í Hveragerði og þar var margt að sjá og margt um manninn. Á eftir var ég í veislu hjá Bjössa bróðir og smakkaði í fyrsta sinn kjöt sem steikt var jafnóðum á steini sem á borðinu var. Þetta er ágæt uppfinning því annars er oft hætta á því að kjöt af grilli sé farið að kólna um það bil er yfir lýkur.
Einhversstaðar á netinu sá ég nýlega þær veiðar dásamaðar þar sem sami laxinn er veiddur hvað eftir annað. Viðbrögð voru einhver við þeim skrifum, flest jákvæð. Mér finnst betra en slíkt háttalag að menn veiði sér til matar, jafnvel þó þeir þurfi alls ekki á þeim mat að halda. Að sleppa laxi til þess eins að hægt sé að kvelja hann aftur og aftur finnst mér ógáfulegt mjög. Veiðimenn sem það gera hljóta að ganga út frá því að laxinn hugsi eins og þeir og hafi gaman af því að vera veiddur. Hræddur er ég um að svo sé ekki.
Meðan fréttir birtast af grjótkasti álfa finnst mér lítil ástæða fyrir fjölmiðlamenn að kvarta undan fréttaleysi. Þó sprengingar rmisfarist við Bolungarvík eins og mig minnir að sagt hafi verið í sjónvarpinu finnst mér óþarfi að kenna álfum um það, jafnvel þó sjáandi sé á svæðinu. Ég ætla helst ekki að taka jafnmikla áhættu og DocterE en mér finnst hótanir um áframhaldandi grjótkast á Vestfjörðum verulega ógeðfelldar.
Athugasemdir
Öldungis er ég sammála þér um fiskapíninginn!
Sigurður Hreiðar, 27.6.2011 kl. 08:33
Samt láta margir eins og þetta sé afar jákvætt. Líklega veldur þetta því að oftar er bitið á hjá veiðimönnjum og þá er væntanlega hægt að herja meiri peninga útúr þeim, en mér finnst ekki að það eigi að vera eini mælikvarðinn.
Sæmundur Bjarnason, 27.6.2011 kl. 10:16
Upprunalega held ég að þetta hafi átt að fjölga klakfiskum í ánum og etv. hefur það að einhverju leyti gengið eftir. Þetta var ekki byrjað þegar ég var veiðivörður í Norðurá en umræðan var komin í gang og sumir veiðimenn farnir að haga sér eftir henni. En það var til að geta gortað af því en ekki af því það væri skylda eins og manni heyrist nú.
Sigurður Hreiðar, 27.6.2011 kl. 13:23
Ja, hérna. Mikið asskoti var gaman að sjá þessa mynd af þeim góðu félögum og aldavinum mínum, Jóni andskota og Tryggva G. GRÓS, "pennaeiganda" þekkti ég af einhverjum ástæðum lítið og hef alveg misst sjónar á honum á lífsgöngunni.
Ellismellur 27.6.2011 kl. 15:24
Já Ellismellur og Sigurður. Ég hef eiginlega engu við þetta að bæta. Skrifa eiginlega bara hérna til að sýnast og til að þið sjáið að ég les alltaf athugasemdirnar sem koma.
Sæmundur Bjarnason, 27.6.2011 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.