1403 - Sunnudagsblogg

9a 001Gamla myndin.
Þetta er greinilega Bifrastarmynd en þó skömm sé frá að segja þá er ég ekki viss um nöfnin á þessum konum. Hinrika minnir mig að sú til vinstri heiti og Hugrún Einarsdóttir er lengst til hægri á myndinni.

Venjulega byrja ég á mínu daglega bloggi fljótlega eftir að ég vakna. Stundum er ég alveg heltekin af þeirri hugmynd að ég muni ekki hafa neitt til að blogga um þann daginn. Auðvitað rætist svo venjulega úr þessu og mér tekst að skrifa eitthvað. Þó segi ég ekki svo mikið um mitt „dagligdags“ líf í þessu bloggi. Hef samt tekið eftir því að flesta daga gerist eitthvað sögulegt, þó manni finnist eftirá að ekkert hafi gerst. Æ, nú er ég byrjaður að rövla. Best að hætta í smástund.

Ég gæti svosem reynt að segja eitthvað gáfulegt um kvótann eða evruna. (Kvótinn er til að ergja almenning og evran er til að hafa í sérstöku veski) Af nógu er að taka. Ekki síst þegar maður þykist vera eins mikill besservisser og ég. Svo skrifa ég stundum hjá mér ýmislegt sem mér dettur í hug, en gleymi stundum hvers vegna ég gerði það.

T.d. hefur mér einhvern tíma um daginn dottið í hug að skrifa hjá mér: „Árni Páll Árnason trúir á bankastjóra og annan óþjóðalýð.“ Ekki veit ég af hverju ég hef skrifað þetta. Árni Páll er ekkert verri en aðrir. Að vísu vefst honum stundum dálítið tunga um höfuð í sjónvarpsviðtölum, en það er ekkert sérstaklega erfitt að finna út hvað hann vildi sagt hafa.

Margir sem um fjármál fjalla segja að hagkerfi heimsins byggist á því að þeir sem fá lánað fé greiði það aftur. Sú er hugsun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ESB, helstu iðnríkja heimsins o.s.frv. Lengja megi lánstímann og breyta kjörum, ef hjá því verði ekki komist en umfram allt verði greiðslum haldið áfram. Allt verði áfram að vera á forsendum lánveitendanna. Þannig er þróunarríkjunum haldið niðri og almenningi í iðnvæddu löndunum.

Í rauninni er ekkert sem segir að þetta álit sé rétt. Jú, kapítalisminn reyndist betur til margra hluta fallinn en sá kommúnismi sem rekinn var í Rússlandi og víðar, en sósíalisminn eins og hann var (og er) rekinn t.d. á Norðurlöndunum og víða í Norður-Evrópu hefur ekki verið hrakinn á sama hátt og kommúnisminn í Rússlandi.

Vissulega er ég þarna farinn að tala um hluti sem snerta grunnskoðanir margra í stjórnmálum og sækja sér oft kraft einmitt í mikil eða lítil ríkisafskipti. Þess vegna finnst mér fyllilega réttmætt að tala um vinstri og hægri stjórnmálastefnur. Menn reyna svo að sjálfsögðu að útmála það sem þeim er illa við á sem verstan hátt og fella hin ýmsu mál að sínum grunnskoðunum eftir því sem mögulegt er.

Öfgastefnur hvers konar eiga oft greiða leið að hjörtum manna við erfiðar aðstæður. Erfiðleikar á Vesturlöndum hafa að sjálfsögðu aukist við fjármálahrun það sem orðið hefur á síðustu árum. Öfgastefnur, „populismi“ og almenn neikvæðni fer vaxandi.

Merkilegt er hve margir virðast álíta að afstaða til mála sé fyrst og fremst nokkurs konar vinsældakeppni. Nú er því haldið fram og hampað mjög að meirihluti þjóðarinnar vilji sýkna Geir Haarde. Í því máli finnst mér sekt eða sýkna skipta meira máli og treysti landsdómi betur til niðurstöðu í því máli en stjórnmálaflokkum og hávaða í fjölmiðlum. Auðvitað skiptir afstaða almennings máli en hún sveiflast til og er háð mörgum atriðum s.s. tíma, stjórnmálaástandi, orðun spurninga og fjölmiðlaumfjöllun.

Líka virðast margir halda að ein mynd segi alltaf meira en þúsund orð og þúsund myndir þar af leiðandi jafnan meira en milljón orð. Svo er þó alls ekki. En vissulega getur ein mynd ef hún er góð sagt margt og gefið annað í skyn. En texti getur líka haft sinn sjarma. Með orðum er hægt að segja frá sama hlutnum á þúsund mismunandi vegu.

Eins og mig grunaði er bloggið hjá mér að verða fulllangt. Bókaumfjöllun öll bíður því betri tíma

IMG 5810Litfögur blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að þessum gömlu Bifrastarmyndir hjá þér, og fínar myndirnar af kennurunum. -- Skömm að þekkja ekki stúlkurnar fyrir víst. Hygg þú hafir rétt fyrir þér um þær sem þú nefnir, en sú í miðið -- gæti hún heitað Þóra? Einhvern veginn finnst mér það.

Sigurður Hreiðar, 27.6.2011 kl. 13:34

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Sigurður. Þetta eru áreiðanlega Hinrika Halldórsdóttir, Þóra Karlsdóttir og Hugrún Einarsdóttir.

Sæmundur Bjarnason, 28.6.2011 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband