1402 - Óréttlæti

009Gamla myndin.
Þetta er Snorri Þorsteinsson frá Hvassafelli sem kenndi lengi á Bifröst bæði íslensku, ensku og fleira.

Kannski verður eitthvað minna um skrif hjá mér í dag en vanalega. Veðrið er líka svo gott að það er asnalegt að vera að blogga núna. Eitthvað var ég samt búinn að taka til af myndum sem ég þarf að koma að og ekki vil ég láta falla niður dag.

Ranglætið er mikið sem fólgið er í því að fólk sem fengið hefur veðleyfi hjá ættingjum eða öðrum til íbúðarkaupa fær þess vegna ekki niðurfellingu samkvæmt 110% reglunni. Með þessu er einfaldlega verið að hegna fólki fyrir ráðdeild og ábyrgð í fjármálum. Þessi niðurfelling getur hæglega numið þónokkrum milljónum króna á hverja einstaka íbúð eða einbýlishús og marga munar um það fé, þó þeim sem mestu hafa stolið finnist það ekki há upphæð. Ef um marga er að ræða, eins og mér finnst fyllsta ástæða til að ætla, munar fjármálastofnanirnar einnig um þessar niðurfellingar þó ríkar séu. Lögin eru samt svona og stuðla þannig beinlínis að óréttlæti.

Fór á bókasafnið í morgun og það fyrsta sem ég sá þar var litprentað eintak af Sögu Akraness (annað bindi) eftir Gunnlaug Haraldsson. Það er sagt fjalla um átjándu öld. Um nítjándu og tuttugustu öld hlýtur þá að þurfa a.m.k. þrjú bindi og jafnvel fleiri. Af því ég loftaði bókinni tók ég hana að láni. (En stór er hún og þung.) Kannski skrifa ég um þessa merku og frægu bók þegar ég er búinn að jafna mig. En ég þarf víst að fletta henni pínulítið fyrst. Er ekki byrjaður á því ennþá.

Svo bíða ellefu bindi af Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans (miklu minni) eftir mér á borðshorninu. Nei, þetta blogg á ekki að breytast í safn af bókadómum. Enda er ég ekki fær um slíkt.

Bækur eru nú samt sú andlega fæða sem ég hef þrifist hvað best á í marga áratugi. Núorðið skilst mér að þær þyki gamaldags mjög. Þó er mikið gefið út af bókum og vel þess virði að skreppa á bókasafnið. Þar verða yfirleitt fyrst fyrir mér nýlegar bækur og oft kemst ég ekki lengra.

Nú eru það ljósmyndir og kvikmyndir sem blíva. (Helst fótóshoppaðar og lagfærðar.) Bækur eru úrelt þing. Texti allur á í besta falli heima í einhverjum skúmaskotum á netinu. Ég kann samt best við mig í þeim skúmaskotum.

IMG 5809Hér hefur ýmislegt gengið á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heppinn varstu að fá annað bindið - það er nefnilega miklu léttara! Hið fyrra er 4,4 kg en ég gæti trúað að þetta annað bindi slefaði rétt yfir þrjú kílóin (bað ekki um vigtun á bóksafninu). Raunar hef ég ekki opnað það en reikna með að umfjöllun í því bindi sé eitthvað skárri en í hinu fyrra þótt ekki væri nema fyrir það að hægt er að púsla saman úr nokkuð mörgum útgefnum áreiðanlegum sagnfræðiritum og þarf ekki að reiða sig eins mikið á wikkuna ;)

En þú lest þessa bók ekki uppi í rúmi undir svefninn ;)

Harpa Hreinsdóttir 25.6.2011 kl. 11:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eiginlega hugsa ég að þetta sé mjög borðskraut. Er búinn að opna hana aðeins og sum kortin virka ansi falleg og fróðleg. Sýnist bókin annars vera nokkurs konar samsuða úr Söguatlasinum og Öldinni okkar, nema bara miklu stærri.

Sæmundur Bjarnason, 25.6.2011 kl. 12:50

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mjög gott borðskraun hef ég sennilega ætlað að segja. Var fyrst að taka eftir því núna að eitthvað vantaði í þessa athugasemd mína.

Sæmundur Bjarnason, 26.6.2011 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband