24.6.2011 | 00:05
1401 - Bloggfésið
Bifrastarmynd. Hér er Hróar Björnsson kennari eitthvað að leiðbeina þeim Margréti Sigvaldadóttur og Hugrúnu Einarsdóttur. Myndin gæti verið tekin í gönguferð á Baulu.
Það er allsekkert samband á milli þess að lifa fjölbreyttu og litríku lífi og að blogga mikið og oft. Best sannast það á mér. Erfitt er að hugsa sér litlausara og fábreyttara líf en það sem ég lifi. Samt tekst mér að blogga eins og enginn sé morgundagurinn á hverjum einasta degi. Leysi jafnvel helstu vandamál heimsins með annarri hendinni fyrir hádegi!!
Þrátt fyrir það er einsog fremur fáir (jæja, mjög margir mundu sumir segja) hafi uppgötvað þetta úrvalsblogg. Þeim fer þó fjölgandi fremur en hitt, svo það er best að vanda sig svolítið.
Tryggð mín við Moggabloggið er komin út yfir allan þjófabálk. Er ég svo mikill ræfill að ég geti ekki losað mig frá Davíð frænda? Eða er ég svo mikill íhaldsseggur að ég geti ekki rifið mig uppúr því forardíki pólitískra fordóma sem hér ræður ríkjum? (Hmm ríður rækjum??)
Mér finnst ég ekkert vera að sökkva og það er kannski vísbending um að ég komist ekki burtu að ég sé fastur í ESB-óvild þeirri sem hér er í hávegum höfð. Er ég kannski eini Moggabloggarinn sem styð aðild að því hræðilega og kommúníska bandalagi? Já, það er allt útlit fyrir að ESB muni skipta þjóðinni í tvennt eins og Miðnesheiðarherinn gerði á sínum tíma.
Jafnvel Davíð Oddsson og Jón Valur Jensson hafa ekki getað fengið mig ofan af ESB-stuðningi og er þá langt gengið. Eins og þeir leggja sig fram. Mér finnst eins og ég sé unglingur á mótþróaskeiði og þeir séu foreldrar mínir að reyna að beina mér á rétta braut. Svo virðist stuðningur við LÍÚ vera partur af trúarjátningunni hér og því á ég erfitt með að kyngja.
En svona er þetta. Þar sem klárinn er kvaldastur þar líður honum best. Læt ég svo útrætt um Moggabloggið að sinni.
Merki eru um að fésbókaræðið renni af mörgum þegar frá líður. Ég þykist betri en aðrir með því að hafa barist gegn æðinu (vindmyllunum) frá upphafi. En hvað skyldi taka við? Fésbókin er einkum það sem hún er vegna þess að það eru svo margir sem eru aktívir þar. Mér finnst bara atívisminn þar vera miklu fáfengilegri en bloggið. Það (bloggið) á betur við mig og ég get ekki hætt að blogga.
Mér finnst að mörgu leyti eins og ég sé að semja væna blaðagrein í hvert skipti (einkum á morgnana) sem ég sest niður til að blogga. Ég er bara svo fljótur að því að til vandræða horfir. Það er helst að myndastússið tefji eitthvað fyrir mér. Ekki get ég lengt bloggin mín úr hófi. Mér finnst einmitt þessi hæfilega lengd - ein vélrituð blaðsíða eða svo - vera aðalsmerki mitt sem bloggara. Reyni samt að hafa svolítið pláss í lokin fyrir dægurmálin. (Ef ég skyldi hafa einhverja skoðun á þeim.)
Ég hef lesið talsvert af íslenskum krimmum og þeir eru flestir frekar leiðinlegir. Yrsa er þar engin undantekning í mínum huga. Plottin hjá Viktori Arnari eru oft listilega gerð og Arnaldur kann þetta allt og gerir oftast vel en er þó dálítið mistækur. Annars er þetta bara mitt álit og sölutölur sýna allt annað. Því er þó ekki að neita að krimmarnir eru í tísku núna alveg einsog þjóðlegur fróðleikur og ævisögur voru það einu sinni. Endurminningar útrásarvíkinga verða það kannski einhverntíma.
Ellefu bindi á ég af Árbók Nemendsambands Samvinnuskólans. Veit ekki til að fleiri hafi komið út. Sigurður Hreiðar var ritstjóri fyrstu þriggja bindanna en síðan tók Guðmundur Reynir Óskar Jóhannsson bekkjarbróðir minn við. Líklega er það þess vegna sem ég á þetta merka rit. Hef samt afar sjaldan litið í þessar bækur en sé núna að þar er ýmsar upplýsingar að finna. Vitna kannski í það frekar á næstunni.
Athugasemdir
ég lækaði
Óskar Þorkelsson, 24.6.2011 kl. 13:44
Takk. Var einmitt að spekúlera í því.
Sæmundur Bjarnason, 24.6.2011 kl. 16:01
Verð að kannast við að nota gömlu NSS-árbækurnar nokkuð oft. Hefur þó dregið úr því í seinni tíð.
Ellismellur 24.6.2011 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.