21.6.2011 | 00:13
1398 - Fimmhundruðkallinn
Gamla myndin. Hér eru pabbi og Bjössi fyrir utan húsið að Hveramörk 6. Þetta útsýni upp að bakaríi og verkstæðinu hans Aage kannast ég mjög vel við.
Finnst 17. júni tilstandið fráhrindandi mjög. Jóns Sigurðssonar tilbeiðslan er beinlínis orðin afkáraleg. Fór ekkert út til að horfa á hátíðarhöldin á þjóðhátíðardaginn. Það er samt auðvitað ekkert á móti því að lyfta sér þá aðeins upp frá brauðstritinu. Eðlilegt að fólk langi til þess.
Marktæk stjórnmálaumræða er öll meira og minna að færast yfir á netið og það er ekkert athugavert við það. Umræðan um annað er samt oft ansi léttvæg. Hin menntaða umræða er þó oft á svo hlægilegu plani að ekki er hægt að taka hana alvarlega. Baggalútsgrínið hefur þann galla að vera bara grín. Sjálfur reyni ég að þræða einhvern milliveg milli alvöru og gríns. Þá er oft stutt yfir í kaldhæðnina hefur mér fundist. Reyni þó að forðast hana líka.
Já, ég viðurkenni alveg að mig hefur dagað uppi hér á Moggablogginu. Spurning hversu vel ég á heima hér innanum alla ESB-andstæðingana og íhalds-seggina. Reyni þó að halda mínu striki. Veit bara ekki almennilega hvar það strik er.
Ég hef fylgst með bloggi áratugum saman. Eitt sinn var uppáhaldsbloggarinn minn Ágúst Borgþór Sverrisson. Hef fjarlægst hann svolítið með árunum. Hann virðist halda að fátt skipti máli annað en smásögur. Það getur vel verið að hann hafi réttara fyrir sér en ég í því efni. Mér leiðast þær. Þó hann bloggaði oft skemmtilega þá reyndi hann jafnan að gera lítið úr blogginu. Vildi frekar stunda það sem hann áleit vera alvöru-skrif. En hvað eru alvöru-skrif? Mér finnst það alveg eins geta verið blogg eins og hvað annað.
Smásögur og skáldsögur eru oft endemis bull. Það er þó alveg hægt að láta svoleiðis ná tökum á sér. Maður sér samt oftast eftir tímanum sem fór í að gefa sig þessu á vald, svona eftirá séð. Íslendingar virðast einkum lesa krimma nútildags. Það er skiljanlegt því auk predikunartilburðanna er þar oft um að ræða eitthvað fræðandi og skemmtilegt efni. Verst að ekki er nærri alltaf hægt að taka það alvarlega sem skrifað er. Staðreyndir og þessháttar smámunir fara stundum forgörðum við að þjóna því sem kallað er æðri tilgangur.
Einn af kostum skáldsögunnar (og krimmanna) er hve auðvelt er að koma ýmsu að sem erfitt er að skrifa um á annan hátt. Ef það er eitt sem ég hef lært á áralöngu bloggi þá er það að eftir því sem maður bloggar lengur og meira því auðveldara er að skrifa um það sem maður hélt alltaf að erfitt væri að skrifa um.
Stundum sérhæfa rithöfundar sig í tímabilum. Dettur þá strax í hug Vilborg Davíðsdóttir. Man að þegar hún vann uppá Stöð 2 prentaði ég út fyrir hana fyrsta uppkastið af því sem seinna kallaðist Korka ef ég man rétt. Sennilega virkar það tímabil sem hún hefur valið sér ágætlega á mig. Ég er t.d. núna að lesa Eldfórnina. Hana fékk ég á bókasafninu um daginn og er búinn að festast svo rækilega í henni að ég býst við að ég lesi hana alla. Fyrir nokkrum árum sá ég í Bókatíðindum eða einhverju þessháttar riti að bækur Vilborgar voru flokkaðar sem unglingabækur. Fyrir hennar hönd (og unglinganna) móðgaðist ég stórlega. Mér finnst bækurnar hennar bara einfaldlega ágætar.
Heyrðist Stefán Jón Hafstein vera í einhverju populistaviðtali á útvarpi Sögu áðan en það var víst ekki hann. Hann er í einskonar útlegð í Afríku en spá mín er sú að hann snúi til Íslands aftur í tæka tíð fyrir næstu kosningar til að reyna að koma höndum yfir stjórn Samfylkingarinnar. Eins og aðrir hlýtur hann að sjá forystuleysið blasa við á þeim bæ.
Áhyggjur manna af gríska harmleiknum fara vaxandi. Kannski er svarta hagkerfið að ríða Grikkjum að fullu.
Athugasemdir
Hvers vegna heitir færslan Fimmhundruðkallinn? Ég gat ekki séð að þú minntist nokkurn tímann á fimmhundruðkall.
Theódór Norðkvist, 21.6.2011 kl. 02:02
Var Bjössi að fá fimmhundruð kall frá pabba?
Ólafur Sveinsson 21.6.2011 kl. 06:40
Það er mynd af Jóni Sigurðssyni á fimmhundruðkallinum.
Sæmundur Bjarnason, 21.6.2011 kl. 07:38
Ég var fjarverandi í nokkra daga (vona að þið hafið ekki saknað mín), og sá þá hvað ég hafði misst af miklu. Góð blogg eins og Sæmi7 veita manni ótrúlega sælu.
Nú hringir dyrabjallann einmitt þegar ...
Jæja þá bara seinna.
Guðmundur Bjarnason 21.6.2011 kl. 14:59
Skrítið, ég var áðan staddur á nánast sama stað ag myndin er tekin frá.
Óli minn, 21.6.2011 kl. 21:14
Hvaða mynd, Óli minn. Myndin af bílnum er tekið í Auðbrekkunni niður við Nýbýlaveg. Hin er tekin í Hveragerði.
Sæmundur Bjarnason, 21.6.2011 kl. 22:26
Þetta er furðurleg færsla, Sæmundur, a.m.k. hvað mig varðar. Það er eins og hún hafi verið skrifuð fyrir fimm árum. Að ég hafi ekki áhuga á neinu öðru en smásöguim en fulldjúpt í árinni tekið. En þú ert fínn kall og takk fyrir lesturinn og áhugann.
ábs 22.6.2011 kl. 10:09
Takk Ágúst. Ekki átti ég von á að þú læsir bloggið mitt. Hef sennilega fylgst meira með ferli þínum en ég hefði gert ef ég hefði ekki unnið með þér uppi á Stöð 2. Það er ábyggilega ekki auðvelt að skrifa smásögur í dag (eða fyrir 5 árum) Eftirspurnina og áhugann vantar. Íslendingar (og margir aðrir) vilja helst lesa krimma. Mér finnst þeir oft illa skrifaðir og leiðinlegir.
Sæmundur Bjarnason, 22.6.2011 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.