1394 - Plankablogg

img 0028Gamla myndin.
Á sínum tíma var sundlaugin í Laugaskarði eina 50 metra sundlaug landsins. Þangað komu því stundum bestu sundmenn á landinu til æfinga. Ég var þá unglingur að prófa mig áfram með ljósmyndun og tók meðal annars þessa mynd af Pétri Kristjánssyni sem lengi hafði verið einn besti sundmaður landsins og Guðmundi Gíslasyni sem þá var ungur og upprennandi sundmaður.

bifrost 001Ég hef líka verið beðinn um að pósta hér gamlar myndir frá Bifröst. Þær eru alveg orðnar nógu gamlar til að kallast „gamlar“. Eitthvað á ég af slíku. Fann t.d. eina fótboltamynd frá Bifrastarárunum. Hér má sjá ef talið er frá vinstri: Ögmund Einarsson, Gunnlaug Sigvaldason, Sigurjón Guðbjörnsson, Gunnar Hallgrímsson og Sæmund Bjarnason.

Þetta er ekkert þjóðhátíðarblogg. Frekar mætti kalla það plankablogg. Mér finnst þetta allt hafa byrjað með því að einhver ástrali plankaði sig til dauða. Svo plankaði Sigmar sig í Kastljósinu og Guðni Ágústsson á stól, (ekki mjög frumlegt) þá var það sem Björn S. Lárusson plankaði sig á kústskafti (sneri myndinni). Nú er röðin komin að mér og ég plankaði í einrúmi (enginn til frásagnar). Síðasttalda aðferðin er langbest. Ég hef að vísu ekki prófað hinar en þær eru áreiðanlega ekki auðveldari.

Í gær var ég skammaður í athugasemdakerfinu fyrir að ráðast á biskupinn. Ég hef alla tíð verið lítið hallur undir kirkjuleg yfirvöld. Talið presta í mesta lagi vera ósköp venjulegt fólk. Að ríkið sé að skipta sér af því hvernig fólk iðkar sína trú finnst mér óhæfa hin mesta. Auðvitað veit ég að trúin hefur hjálpað mörgum til að sætta sig við hlutskipti sitt í lífinu og átt sinn þátt í menningu þjóðarinnar. En í æðstu stöður þjóðkirkjunnar hafa stundum safnast þeir sem lítið vilja fyrir lífinu hafa, annað en að níðast á náunganum.

Mér finnst ég ekki hafa komið neitt illa fram við Karl biskup og þeir sem svo hugsa gera líklega allt of mikið úr mínu bloggi. Í því eru mínar hugsanir eingöngu og ekki annarra. Aðrir geta síðan ef þeir vilja komið sínum skoðunum á framfæri í athugasemdunum ef þær stangast á við mínar. Nú eða sleppt því bara eins og einfaldast er og flestir gera.

Athugasemd Sigurbjörns Gíslasonar fagna ég þó mjög. Það er alltof sjaldan sem ég fæ gagnrýni af þessu tagi á mín skrif. Í þessu tiltekna máli er ég samt þeirrar skoðunar að rétt sé að láta ekki við það sitja að biðjast fyrirgefningar (sem þó er engin fyrirgefningarbón) heldur þurfi kirkjan á því að halda að hreinsa til í sínum ranni.

Nú er ég að verða búinn með bókina um Steinólf í Ytra-Fagranesi. Ekki er víst að ég klári hana. Satt að segja verður hún lakari eftir því sem lengra dregur. Seinni hluti hennar allur er nokkurskonar safn af anekdótum sem sögumaður hefur sagt höfundi. Engin tilraun er gerð til að tengja þær saman. Satt að segja fær maður á tilfinninguna að báðir færi nokkuð í stílinn eins og sagt er eða ýki frásögnina. Slíku er maður þó svo vanur að ástæðulaust er að kippa sér upp við það. Lakara er að höfundur fyrnir mál sitt sem mest hann má og velur anekdóturnar stundum fremur illa að mínu áliti og jafnvel með það eitt að markmiði að koma einstökum vel fyrndum málblómum að.

Stjórnlagaráð það sem nú er að fást við að koma saman drögum að stjórnarskrá er einhver merkasta tilraun til slíks sem gerð hefur verið á Íslandi. Ekki er ég viss um að margir fylgist með störfum þess á netinu en þegar þar að kemur og endanlegur texti nýrrar stjórnarskrár verður gerður opinber fara fjölmiðlar og stjórnmálamenn ugglaust að rífa hann í sig lið fyrir lið. Kjósendur á landinu fá þó vonandi að segja álit sitt á honum áður en alþingismenn fara að krukka í hann. Satt að segja hef ég þá trú á núverandi stjórnvöldum að þau muni reyna að stuðla að því að kjósendur geti það sem fyrst.

IMG 5780Með hjólið við höndina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sundlaugin í Reykjanesi í ísafjarðardjúpi er elsta 50 metra laug landsins svo ég viti til :) http://www.rnes.is/sundlaug.php skv mínum heimildum er laugin í djúpi um 100 ára gömul þessi árin..

bestu kveðjur úr austurvegi ;)

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 08:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta kann að vera rétt hjá þér. Ég hefði þó haldið að Sundlaugin í Reykjanesi væri ekki 50 metra löng. A.m.k var það umtalað í mínu ungdæmi að sundlaugin í Laugaskarði væri eina löglega 50 metra keppnislaug landsins.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 09:15

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það gæti vel verið að laugin í Laugaskarði sé sú eina löglega en Reykjanesslaugin er líklegast sú elsta sem er 50 metrar.

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 09:21

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er búinn að skoða myndina sem þú vísaðir á og sé að þetta með sundlaugina í Reykjanesi er líkast til alveg rétt. En af því mér þykir svo gaman að þrasa þá dettur mér í hug að hún hafi ekki verið 50 metra löng í öll þau 100 ár sem þú segir að hún hafi verið til. Sjálfum finnst mér auðvitað laugin í Laugaskarði vera miklu merkilegri!!

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 09:30

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta er auðvitað tilefni til þess að grafa smá .. gúggli er helv góður í það :)

Sundlaug í Reykjanesi í 185 ár

Sundlaug hefur verið í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í 185 ár og nú er nýbúið að gera upp fimmtíu metra langa laug sem þjónað hefur í 85 ár. Sundkennsla hafði farið fram í Reykjanesi í um hundrað ár áður en núverandi laug var byggð. Í þessari náttúruparadís er rekið myndalegt hótel sem opið er allt árið sem rúmar um 120 manns í uppábúnum rúmum. „Það er að ganga vel hjá okkur og vinsældir hótlesins aukast ár frá ári. Svo er mikið af fólki sem kemur og gistir á tjaldstæðinu hjá okkur og né er verið að taka í notkun nýja aðstöðu fyrir þá sem vilja gista á eigin vegum hérna. Nýja tjaldsvæðið mun rúma 60-80 tjöld og hátt í fimmtíu húsvagna og hjólhýsi með rafmagni og því sem til þarf.“ segir Jón Heiðar Guðjónsson hótelstjóri í Reykjanesi í samtali við Dagblaðið.

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=135268

skv þessu er hún búin að vera 50 metrar í 85 ár árið 2009 sem sagt í 87 ár núna.. það er talsverð saga á bak við þessa merku laug svona þegar maður fer að skoða þetta nánar.

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 17:40

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki get ég lagt orð í belg um aldur núverandi laugar í Reykjanesi. Skal spyrja Pál fv. skólastjóra þar um þegar færi gefst ef ég man. En fyrir daga hennar var laug gerð af torfi og grjóti uppi á múlanum ofan við þar sem skólahúsið stendur nú. Kann vera að aldur laugar í Reykjanesi sé einhvern veginn hrærður saman úr þessum tveimur.

En -- Óskar -- ertu viss um að öll rúmin í Hótel Reykjanesi séu sparibúin? Meinarðu ekki bara að þau séu uppbúin -- þ.e. gesturinn komi að rúmi sínu þegar búið er að búa um?

 En ert þú ekki uppábúinn í tilefni dagsins?

Sigurður Hreiðar, 17.6.2011 kl. 18:22

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þú ert að vitna í úrtak úr greininni frá BB Sigurður, ekki mín orð ;)

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 18:31

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held ennþá með sundlauginni í Laugaskarði og leggst kannski í gúgl ef ég má vera að. Það var Lárus J. Rist sem stóð fyrir byggingu laugarinnar upphaflega. Kannski er notkunartími laugarinnar í Reykjanesi ekki eins samfelldur og hótelið auglýsir. Mér finnst samanburðinn vanta. Þetta er áhugavert mál.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 18:58

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

bætist í sarpinn..

"Í nýjasta tölublaði Grapevine er fjallað um Reykjanes við Ísafjarðardjúp. Þar er Reykjanesi helst talið til frægðar sundlaugin sem byggð var árið 1925 í stærð ólympíulaugar og fyllt er með náttúrulega heitu vatni."

http://flateyri.is/article.php?catID=3&id=1548

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 19:06

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég hef oft farið í þessa laug og er hún ekki klædd að innan með flísum eða máluð með blárri sundlaugamálningu, heldur er bara ber steinsteypan :) þarna flýtur um þörungagróður mikill og grænn og er sundlauginn mjög misheit, frá því að vera heit eða heitari en heitustu pottar sundlauga reykjavíkur (næst byggingunni) yfir í frekar kalda sundlaug að vestanverðu ( fjærst skólabyggingunni) dýpið er frá rúmum meter upp í tæpa 3 ef ég man rétt.. mín ætt er frá Reykjafirði við Reykjanes svo þarna var ég á hverju sumri fram eftir aldri..

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 19:10

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hér er þetta líklega nelgt niður..

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=38469

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 19:39

12 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fyrirgefðu, Óskar. En auglýsingar um hótel með sparibúin rúm hafa iðulega pirrað mig og ég áttaði mig ekki á að þetta var bein tilvitnun hjá þér. -- Ég hugg að þú hafir nokkuð til þíns máls Sæmundur, um notkunartíma laugarinnar og hversu samfelldur hann kann að hafa verið og ætla að reyna að muna að spyrja Pál Aðalsteins um þetta þegar fundum okkur ber saman.

Sigurður Hreiðar, 17.6.2011 kl. 19:45

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á kynningarsíðu frá NAT norðurferðir um Reyki í Ölfusi segir meðal annars:

Sundlaugin í Laugarskarði er í landi Reykja. Lárus Rist stóð í fararbroddi ungmennafélagsins við gerð hennar. Hún var tekin í notkun 1938 og var lengi vel eina 50 m Langa sundlaugin í landinu.

Ég gúglaði "Lárus Rist". Líka má gúgla Lárus J. Rist og fá ýmsan fróðleik um hann.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 20:30

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég sé því hvergi haldið fram fullum fetum að sundlaugin í Reykjanesi sé gerð 1920 og eitthvað í 50 metra lengd og hafi verið það síðan. Ekkert er talað um lengd laugarinnar í metrum í greininni í Grapevine.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 21:14

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

olympiulaug er alltaf 50 metrar að lengd

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 22:15

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kannski stafar þetta af því að einhver sem var að spekúlera í lengd sundlauga hefur ekki talið Reykjaneslaug vera sundlaug. Hvað veit ég? Þetta er verkefni fyrir sagnfræðinga að skera úr. Hef heyrt að sundlaugin í Laugaskarði hafi fyrst ekki verið nema 25 metrar. Ég man samt ekki eftir henni öðru vísi en 50 m á lengd. Þeir sem ekki treystu sér til að synda svo langt fóru bara útað keðju. Hún var í miðri lauginni. 

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 22:31

17 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mamma var í sveit þarna (í reykjafirði) þegar hún var 4 ára til 15 ára aldurs.. hún heldur því fram að laugin hafi alla hennar tíð verið svona löng.. hún er 42 módel..

Óskar Þorkelsson, 17.6.2011 kl. 22:33

18 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það dugar ekki nema til jafnteflis, Óskar því ég er líka 42 módel. Þetta er kannski klassískt dæmi um hvernig jafnan er farið með það sem afskekkt er. Annars finnst mér þetta vera farið að skipta heilmiklu máli. Vonum bara að einhver súpergáfaður komi og skeri úr um þetta. Ég veðja enn á Laugarskarð.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2011 kl. 23:28

19 Smámynd: Óskar Þorkelsson

he he já.. ég mun hringja í mömmu ef ég finn ekkert bitastætt á netinu um þessa merku laug um upprunan og aldur..

Óskar Þorkelsson, 18.6.2011 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband