1392 - Karl-tuskan ætlar að reyna að sitja áfram

hv30Gamla myndin.
Þetta er skálinn merkilegi í Reykjadal. Á sínum tíma var vinsælt að gista þar í útilegum.

Nú er ég búinn að inntaka mitt eiturlyf, sem er einn bolli af kaffi, og óðum að vakna til lífsins. Áður fyrr var það kaffi og sígaretta sem kom manni í gang að morgni, en nú læt ég kaffið duga. Sé að ég er kominn nokkuð hátt á vinsældalista Moggabloggsins eða í 29. sæti. Þar hef ég verið áður. Svo vill til að ég komst þangað fyrir tæpu ári og skrifað það hjá mér. Stóri munurinn er sá, að nú þarf ég bara 1566 heimsóknir til þess en hef fengið 2610 þá. Moggablogginu er semsagt að hraka. Kannski mér líka, þó ég voni að svo sé ekki.

Þó Kalli Matt. (sem ég man aðallega eftir sem syni Matthíasar í Gíslabæ) segi „við“ (án gæsalappa að vísu) þá kannast ég ekki við að hafa étið gull. Sumir gangast upp við að éta þann málm. Finnst það bæði merkilegt og sniðugt. Engan hef ég þó heyrt halda því fram að það sé næringarríkt. Við konan mín og ég keyptum okkur að vísu bæði flatskjá og bíl en finnst samt einsog Hrunið sé ekki okkur að kenna.

Á útvarpi Sögu var stuðningsmaður Gaddafis að tala áðan. Undanlegur er sá kokteill af vinstri og hægri sjónarmiðum sem þar er framreiddur. Arnþrúður og Pétur eru fremur hægrisinnuð en þó fyrst og fremst tækifærissinnuð. Þau gagnrýna flest sem hreyfist en stjórnmálalega líkar þeim best við frjálslynda flokkinn og framsókn.

Svo virðist sem við sitjum uppi með biskup og ríkisstjórn sem hafa það helst til síns ágætis að skárra sé erfitt að finna. Ekki er það gæfulegt. En við það verður að una. Eigum við ekki bara að reyna að gera gott úr þessu. Kannski kemur sumarið bráðum og við getum gleymt öllu nema grillinu.

Svo illa sem ég tala ævinlega um fésbókina þá get ég ekki án hennar verið. Þar er gott að fylgjast með öllu mögulegu, blaða í myndaalbúmum og þ.h. Samkvæmt nýjustu fréttum er Facebook-notendum að fækka sumsstaðar. Annarsstaðar heldur þeim vafalaust áfram að fjölga. Tölvulæsi er sífellt að verða almennara. Að vera án slíks er talsverð fötlun, alveg eins og það er veruleg fötlun að þurfa endilega að fylgjast með boltaleikjum í sjónvarpinu. Það er eins gott að sá tími er liðinn sem manni fannst að maður þyrfti að fylgjast með öllu sem fram fór þar. Nú hangir fólk lon og don á netinu í staðinn.

Skeleggur varðhundur Samfylkingarinnar er Friðrik Þór Guðmundsson. Nú finnst honum við hæfi að verja Árna Pál Árnason. Ráðlegg mönnum að lesa Eyjubloggið hans. Ingibjörg Sólrún virðist vera að undirbúa og vinna að endurkomu sinni. Megi slíkt aldrei verða. Einhverjir virðast álíta það afar fréttnæmt ef hún er eitthvað að fésbókast.

Get ekki leynt því að hefðbundin fréttamennska eins og hún er stunduð af þingmönnum og blaðamönnum nýtur lítils trausts hjá mér. Hálftími hálfvitanna á Alþingi er auðvitað ekkert annað en blaðamennska af lélegustu tegund. Áhorfendur held ég að meti það líka þannig og kannski einnig þeir þingmenn sem yfirleitt þegja. Erlend fréttastarfsemi er sömuleiðis oft vafasöm. T.d. er CNN núna að reyna að grafa undan WikiLeaks. Veit ekki hvar það endar en lítið hefur heyrst frá WikiLeaks að undanförnu.

Gagnrýnin á ríkisstjórnina er nokkuð óvægin um þessar mundir. Flestir eru þó hættir að tala um að hún geri ekki neitt. Nú er henni aðallega legið á hálsi fyrir að hafa helst viljað semja í Icesave-málinu og að hafa sótt um aðild að ESB. Sumir gagnrýna hana einkum fyrir að hafa staðið fyrir stjórnlagaþingskosningunum, en þó held ég að fylgi við stjórnlagaráðið sé talsvert og fari vaxandi.

Ég ætlaði víst að fjölyrða eitthvað um Geir Haarde. Landsdómurinn sem slíkur er vafasamur. Það er alltof billegt að vísa bara á að Bjarni Benediktsson hafi á sínum tíma (1963) lagt hann til. Það er bara sagnfræði því tímarnir voru allt aðrir þá. Að ákæra Geir einan er líka vafasamt. Þó er það svo að oft hefur verið hamrað á því að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald. Samkvæmt því hlýtur forsætisráðherra að bera ábyrgð á stjórnarstefnunni sem slíkri, en ekki einstakir ráðherrar, sem bera bara ábyrgð á sínum málaflokkum. Þess utan er engin hefð fyrir því að sök minnki við það að aðrir séu einnig undir hana seldir.

Kannski er það bara til marks um þá tíma sem við lifum á en ég kann heldur illa við að Norðmenn séu að senda hingað menn til að fá Íslendinga til að ganga í norska herinn. Ég er á móti öllum hernaðarumsvifum. Andstæðingar ESB hér á Íslandi eru t.d. búnir að stofna Evrópuher og telja hættu á að Íslendingar fari sé að voða þar. Mér finnst norski herinn engu betri, en auðvitað bjóða þeir þeim gull og græna skóga sem vilja koma þangað.

IMG 5770Steinn og steinar. (Eða bara Steinn Steinarr.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kaffi er eina eitrið mitt líka, hættur að reykja, komnir 6 mánuðir og bara hið besta mál.
Komin ~3 ár síðan ég drakk áfengi síðast, ég veit ekki hvað gerðist, mig hætti skyndilega að langa í öl, algerlega óundirbúið :P

Kalli og kirkjan, algerlega óviðbúnir; Þarna er komin vörn fyrir okkur öll, ef þú er nappaður við yfirhylmingar á nauðgunum.. úps ég var óviðbúinn þessu og vanbúinn að auki. Praise the Lard; Ugga Bugga Amen

Disclaimer
Það er ekki nein hætta á að ég nýti mér þessa vörn ;)

DoctorE 15.6.2011 kl. 10:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þú ert fyndinn DoctorE: Praise the Lard; Ugga Bugga Amen. Finnst mér verulega gott. Mér finnst nauðsynlegt að blogga um margt fleira en trúmál. Gallinn er aðallega sá að það er svo margt sem mig langar að blogga um.

Sæmundur Bjarnason, 15.6.2011 kl. 11:44

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Af hverju Karl tuskan? Af hverju þurfa svona góðir menn eins og þú að grípa til niðurlægjandi orða til að hafa e-n undir eins og tam. biskupinn? Er hans vandi ekki nægur fyrir? Eigum við að hengja hann í næsta tré eins og sums staðar tíðkast? Ég held að viðunandi niðurstaða fáist í þessum málum án þess að talað sé niður til bræðra okkar. Mestu skiptir að koma í veg fyrir að þeir atburðir gerist aftur, sem hér eru viðfangið.

Það gerist með samlindi en ekki sundurlindi og þaðan af síður hefnigirni.

Sigurbjörn Sveinsson, 15.6.2011 kl. 21:43

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki mundir þú, Sigurbjörn, fara eftir því þó ég mundi vilja ráða því hvernig þú kæmist að orði um þau mál sem mér sýndist. Annars er orðaleikur fólginn í að nota þetta orð sem þú tiltekur. Þar að auki blandast margt saman við þetta annað en persóna biskupsins. Karl biskup hefur ekki sýnt þeim konum mikið samlyndi sem leitað hafa til hans og annarra. Þú getur álitið að það sé af einhverri hefnigirni sem ég nota orð sem þér líkar ekki, en svo er samt ekki. Karl Sigurbjörnsson hefur ekki gert mér neitt.

Sæmundur Bjarnason, 15.6.2011 kl. 22:49

5 identicon

Karl hefur verið óspar á yfirlýsingum, að trúleysið sé svo hræðilega hræðilegt siðferðislega; Hjónaband samkynhneigðra sorphauga eitthvað...

Það er í góðu lagi að segja Karl tuska eða whatever; Say it like it is

DoctorE 15.6.2011 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband