10.6.2011 | 00:09
1387 - Lára Stefánsdóttir
Hér er búið að pína Bjössa greyið í einhvern alltof stóran jakka. (Ætli hann sé ekki af mér.)
Það er enginn vafi í mínum huga að í meginatriðum hefur uppbyggingin eftir hrunið hér gengið nokkuð vel. Samt hafa þeir hátt sem gagnrýna ríkisstjórnina fyrir ýmislegt. Augljóslega hefði mátt gera margt öðruvísi en gert hefur verið. Samt er það svo að lífið er óðum að færast í eðlilegt horf hér á landi. Stóra málið sem nú er unnið að er stjórnarskrármálið. Fáist það afgreitt og verði lagt fyrir þjóðina er góð von til þess að hlutirnir færist meira og minna í eðlilegt horf. Óvíst er þó hvernig næstu kosningar fara og hvenær þær verða. Áhugi fólks á stjórnmálum hefur aukist mikið og vonandi á siðferði allt eftir að lagast og spilling að minnka.
Gjaldeyrishöftin eru þó af hinu illa. Höft allskonar voru hér lengur við líði en víðast annarsstaðar eftir síðustu heimsstyrjöld og reyndust afar illa. Færa má rök að því að þau hafi spillt þjóðinni og haft lamandi áhrif á siðferði allt. Ef gjaldeyrishöftin verða lengur við líði nú en bráðnauðsynlegt er, má búast við að þau skekki allt verðmætamat almennings og hafi slæm áhrif á flestum sviðum. Frelsi með hæfilegum takmörkunum hefur reynst best hér í heimi. Kall tímans er um aukna samvinnu milli þjóða. Þessvegna er það sem fylgi við ESB fer vaxandi.
Nýlega fékk ég boð um að mæta á fund á Hilton Reykjavík Nordica. Ég velti nafninu ekki mikið fyrir mér fyrr en ég var kominn áleiðis á fundinn eftir Kringlumýrarbrautinni. Fyrst í stað var ég að hugsa um Turninn sem oft er nefndur Grand Hótel en mundi svo eftir Hótel Esju. Fór þangað og það reyndist rétt hjá mér að það hótel er búið að fá nýtt nafn eins og mörg önnur fyrirtæki og þar var fundurinn.
Í hrunkreppunni sem legið hefur eins og mara yfir landinu undanfarin misseri hafa heilmiklar framkvæmdir átt sér stað við það sem einu sinni hét Hótel Loftleiðir. Nú á að opna það fyrirbæri fljótlega og auðvitað á það að fá nýtt nafn. Hotel Natura skilst mér að það eigi að heita.
Hlustaði í morgun á útvarp (sem ég geri ekki mjög oft) og heyrði þar hluta af viðtali við Láru Stefánsdóttur skólastjóra við nýja menntaskólann á Tröllaskaga (sem er í Ólafsfirði). Man vel eftir þegar ég hitti hana fyrst. Þá stjórnaði hún reykjavíkurútibúi íslenska menntanetsins. Ég var þá einn af fáum notendum þess utan skólakerfisins. Man að Gústi (Gústav Gústavsson) fór með mér og ég var alveg hissa á því að stjórnandi menntanetsins hér fyrir sunnan skyldi vera ung og fögur stúlka. Hún hafði gott vit á öllu sem þarna fór fram og leysti með brosi á vör úr öllum spurningum okkar Gústa.
Seinna tók ég svo eins konar viðtal við hana með hjálp tölvutækninnar og birti í Rafritinu. En það er bara hluti af sagnfræði núorðið og að engu hafandi. Þó held ég að Lára muni e.t.v. eftir því.
Mér finnst talið um kanadiska dollarann í stað íslensku krónunnar svo mikill brandari að ég veit ekki hvort ég á að minnast á það hér. Ég hef nánast ekkert vit á æðri hagfræði en þeir sem leggja nafn sitt við svona vitleysu eru hugsanlega verri en ég í þeim málum. Auðvitað er hægt að taka upp hvaða mynt sem er. Hvernig bindingunni verður háttað ræður samt mestu um það hvernig til tekst. Verði hlutum þannig fyrir komið að auðveldlega sé hægt að snúa aftur til krónunnar er ekkert á móti því að prófa. Fáar myntir eru verri en krónan.
Það er oft gaman og fróðlegt að fylgjast með Eyjubloggi Jakobs Bjarnar um fréttir af fésbókinni. Annars er Eyjan að mörgu leyti að vaxa mér yfir höfuð ekki síður en fésbókin. Finn ekki bloggið þar núorðið og skil tölvumál af öllu tagi alltaf verr og verr. Er hugsanlegt að ég sé að eldast?
Fésbókin er flókin mjög,
finnst þar Lilló enginn.
En Hildur Helga er ekki rög
og heldur fast í drenginn.
Athugasemdir
Eiginlega er ég alveg sammála þér með upptöku Kanadadollars, það er arfavitlaus hugmynd þótt ekki væri af öðru en því að í efnahagslegu samhengi er engin tenging milli Íslands og Kanada. Við lifum hinsvegar og hrærumst í Evrópska hagkerfinu, ef svo mætti segja, seljum þangað flest það sem við flytjum út og kaupum þaðan flest það sem við flytjum inn. - Eitt er það, sem veldur mér ugg, en það er sérsköttun lífeyrissjóða, eins og nú er í bígerð og verður væntanlega gert. Í fyrsta lagi eykur það muninn milli lífeyrissjóða opinberra starfsmanna og hinna almennu, því ríkið (þ.e.a.s. við skattgreiðendur) ábyrgist að lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna skerðist ekki. Í öðru lagi óttast ég að sá skattur verði viðvarandi, því ekki man ég til þess að "tímabundinn" eða "sérstakur" skattur, sem lagður hafi verið á, hafi nokkru sinni verið afnuminn. Í hæsta lagi hefur verið skipt um nafn á þeim. Þetta sé því skerðing til frambúðar og til þess ætluð að auka enn á mismuninn milli þeirra opinberru og hinna. Það er mjög í tísku hjá BSRB að citera í mismun á launum hjá þeim annarsvegar og hins "almenna markaðar" hinsvegar. Ósköp sjaldan krefst nokkur maður þess að þvílíkum fullyrðingum sé fundinn staður, efalítið má einhversstaðar finna mun ef hægt er að finna sambærileg störf - eðli starfa hinna opinberu er nú þannig, að samanburður er óvíða fyrir hendi - en almennt séð eru laun alls almennings síst hærri en hinna opinberu. Svo má eyða löngu máli í fyrirfram skattlagningu séreignasjóðanna, með því að taka staðgreiðsluna núna strax. Það er varasamt af mörgum ástæðum, m.a. þeirri, að meðan skattur einstaklinganna hefur ekki verið greiddur, eru peningarnir á ávöxtun. Til viðbótar - og það skiptir enn meira máli - getur enginn sagt fyrirfram um það að hve miklu leyti persónuafsláttur nýtist einstaklingunum til greiðslu staðgreiðsluskatts einmitt af séreignasparnaðinum. Því finnst mér ástæða til þess að hvetja yngra fólk til að leggja ekki fé inn á séreignasparnað undir merkjum lífeyrissjóða af einhverju tagi. Ríkið virðist alltaf finna leiðir til að ná því fé með skattlagningu. Þótt fólk missi við það mótframlag atvinnurekandans, er það og verður lægri fjárhæð en staðgreiðsluskatturinn, sem skv. þessum aðferðum verður alltaf greiddur að fullu af séreignasparnaði, þ.e. persónuafsláttur nýtist aldrei. Það má hafa um þetta fleiri orð, en læt þetta duga að sinni.
Ellismellur 10.6.2011 kl. 11:14
Takk, Ellismellur. Ég hef ekki mikið vit á lífeyrissjóðsmálum þó ég hafi eins og aðrir séð þann mikla mun á eftirlaunum þeirra sem verið hafa opinberir starfsmenn og hinna. Það er alltaf verið að tala um að minnka eigi þennan mismun. Sammála þér um það að ríkið sér um sína og hirðir jafnan það sem það vill. Aldraðir liggja oft vel við höggi. Vafasamt er líka fyrir okkur sem nálgumst ellilaunaaldurinn að vera síkvartandi. Á margan hátt má dæma hvert þjóðfélag eftir því hvernig það meðhöndlar þá öldruðu í samfélaginu.
Sæmundur Bjarnason, 10.6.2011 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.