7.6.2011 | 00:19
1384 - Borgarnes
Mér gengur ekkert að koma frá mér gömlum myndum. Hér eru einar ellefu Borgarnesmyndir sem ekki eru mjög gamlar. Nánari grein er gerð fyrir þeim í næstu málsgrein.
Fyrir nokkru sendi ég Ásþóri Ragnarssyni í Borgarnesi möppu með filmum sem orðið höfðu innlyksa hjá mér þegar Borgarblaðið lagði upp laupana um 1986. Hann ætlaði að koma filmunum, sem voru þónokkuð margar til Skjalasafns Borgarness og er annaðhvort búinn að því eða gerir það fljótlega. Núna áðan fann ég hjá mér nokkrar Borgarblaðsmyndir sem búið hafði verið að skanna. Ellefu af þeim eru hér fyrir ofan. Vel getur verið að einhverjir sem þetta blogg sjá þekki ýmsa á þessum myndum. Gott væri uppá framtíðina að upplýsingum um það væri annað hvort komið til mín eða Skjalasafnsins í Borgarnesi. Á mörgum myndanna úr filmusafni Borgarblaðsins væri áreiðanlega ástæða til að koma til skila upplýsingum um af hverjum þær eru.
Hafa bloggarar áhrif? Já, þeir hafa áhrif. En fyrst og fremst hafa þeir áhrif á fjölmiðlana með því að gefa þeim sem skrifa fyrir þá hugmyndir til að vinna úr. Fyrir tilstilli þeirra hefur umræða um ýmis málefni orðið opnari og skilvirkari en hún var oftast áður. Sumir bloggarar eru svo vinsælir að þeir hafa bein áhrif, en þeir eru ekki margir. Það er greinilega orðið meðal mikilvægustu starfa hvers blaða- og fréttamanns að skanna helstu blogg og vera fljótur að því.
Það er annars einn helsti ljóður á íslensku fjölmiðlafólki, fyrir utan hvað það er oft illa að sér um suma hluti, hvað það er fljótt að öllu. Kröfurnar eru miklar sem gerðar eru til þess. Stundum rís það ekki undir þeim og fljótfærnin verður að fótakefli.
Í dag er ég á milli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Björns Bjarnasonar á vinsældalista Moggabloggsins og kann ágætlega við það.
prestur, sem gaf til baka,
næturvörður, sem vakti,
þegar hann átti að vaka,
og lögregla, sem var til taks,
þegar til átti að taka.
Einu sinni var
fagmaður, sem vildi enga eftirvinnu vinna
og sagði, að kaup sitt mætti vera minna.
Einu sinni var
stjórnmálamaður, sem sagði satt,
og abstraktmálari, sem fór flatt;
hann kallaði mynd sína: Maður með hatt",
og myndin var af manni með hatt.
Einu sinni var
hundraðkallinn rauður
eignalaus maður snauður,
og dauður maður dauður...
Þetta fann ég á tímarit.is. Benedikt Axelsson hefur einhverntíma sent þetta til Dagblaðsins Vísis og þar hefur það verið birt. Ekki held ég að Benedikt hafi samið þetta, en vísurnar eru góðar og til að minna á þær er mynd fyrir ofan þær af hundraðkalli sem er að vísu blár. Ástæðan er sú að ég man ekki eftir rauðum hundraðkalli, en þeim bláa man ég vel eftir og fimmhundruðkallinum sem var brúnn og jafnstór hundraðkallinum. Aðrir seðlar voru minni, bæði pappírslega og verðmætislega séð.
Á sama hátt og vinstri menn óttast að Hrunið skelli á okkur aftur með endurnýjuðum krafti verði hægri mönnum afhentir stjórnartaumarnir að nýju, óttast hægri menn að verið sé að færa þjóðfélagið smátt og smátt í áttina til algerrar forsjárhyggju. Hvorttveggja er tóm vitleysa. Það er miðjumoðið sem bjargar okkur og er eina von okkar. Öfgastefnur bæði til hægri og vinstri er auðvelt að færa í sannfærandi búning með fögrum orðum og hæfilegum ýkjum, en sannleikurinn er sá að almenningur er betur gefinn en svo að hann gangi slíkum stefnum á hönd.
Athugasemdir
Hvers vegna miðju„moð“? Moð var það sem gripir skildu eftir; vildu ekki af heyinu. Moði var stundum fleygt til hesta sem gátu snapað sér eitthvað úr því -- moðað úr því. Í sjálfu sér er „moð“ nánast samheiti fyrir úrgang.
Sigurður Hreiðar, 7.6.2011 kl. 11:21
Moð í mínum huga þýðir miklu fremur samtíningur og molar en endilega úrgangur. Svo hef ég heldur ekkert fundið það upp að nota þetta orð um stjórnmálaleg efni. Skilningur fólks á merkingu ákveðinna orða getur oft verið misjafn.
Sæmundur Bjarnason, 7.6.2011 kl. 12:00
Hefur Íslensk orðabók ekkert um málið að segja?
Sigurður Hreiðar, 7.6.2011 kl. 15:57
Hef ég alltaf vitað að þú varst vinsæll, en nú hlýtur þú að vera alsæll, eins og kæfa í samloku á milli Hannesar Hólmsteins og Björns Bjarnasonar. Sæmundar Langloka? Slær bæði út Hlölla og Subway. Svo er hægt að gera ótuktarlega athugasemd hjá þér, en ekki hjá HHG og BB.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 7.6.2011 kl. 18:13
Jú, Sigurður ég held að þetta með það sem eftir varð af heyi sé alveg rétt hjá þér og Orðabók menningarsjóðs staðfestir það. Hef ekki gáð í aðrar orðabækur og finnst ekki rétt að treysta þeim 100 % þó gott sé að fletta upp í þeim ef maður er í vafa.
Sæmundur Bjarnason, 7.6.2011 kl. 19:02
Takk Villi. Ótuktarleg komment eru mínar ær og kýr. Tók eftir því áðan að Stjórnlagaráð (eða formaður þess) tekur orðið komment fram yfir athugasemd.
Sæmundur Bjarnason, 7.6.2011 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.