23.5.2011 | 00:13
1369 - Skáksaga
Gamla myndin.
Hér er Bjössi að leika sér að kubbum á gólfinu í ganginum.
Ég hef eiginlega alla tíð gengið með rithöfundargrillur í kollinum. Líklega er það meðfram þessvegna sem ég er svona endingargóður við að blogga. Nokkrum sinnum hef ég gert tilhlaup til að skrifa eitthvað markvert en lítið hefur orðið úr því. Nýlega fann ég á USB-lykli hjá mér eitthvað sem eflaust hefur á sínum tíma átt að verða smásaga. Þetta er algjör uppspuni og þónokkurra ára gamalt. Ég hef séð að þetta þyrfti töluverðrar lagfæringar við ef það ætti að verða eitthvað markvert. Er samt að hugsa um að henda því á bloggið svo ég sé laus við það.
Þetta er óralangt og ekkert fyrir aftan það þannig að þeir sem hingað þvælast geta farið strax ef þeim líst ekki á að pæla í gegnum þetta:
Jósteinn flýtti sér í skáksalinn. Allt virtist vera tilbúið fyrir þetta tímamótaeinvígi. Þónokkrir áhorfendur voru mættir og þeim mundi fjölga þegar skákin hæfist. Undanfari einvígisins hafði verið eins og ljúfur draumur.
Eiginlega hafði þetta allt saman hafist fyrir um það bil þremur árum, fannst honum. Hann hafði að vísu alltaf haft gaman af að tefla og satt að segja náð nokkuð langt. En hann fann það með sjálfum sér að hann var staðnaður. Orðinn 28 ára gamall og hafði eiginlega ekki bætt neinu við sig síðustu árin. Hann var þó með bestu skákmönnum landsins og tefldi oft á mótum erlendis. Hafði fengið titil alþjóðlegs meistara rúmlega 22 ára, en ekki unnið neitt markvert síðan. Ekki vildi stórmeistaraáfanginn koma, sama hvað hann lagði sig fram. Sama hvað hann stúderaði mikið og reyndi að bæta sig.
Það var síðan fyrir um það bil þremur árum sem hann dreymdi drauminn undarlega. Honum þótti sem hann vaknaði í rúmi sínu og færi út í bíl og æki á fyrirfram ákveðinn stað. Þessi staður var skammt frá Þrengslaveginum á leiðinni til Þorlákshafnar. Farið var útaf veginum til hægri og ekinn smáspölur í átt að Geitafelli. Þar í gömlum og aflögðum malargryfjum bak við Sandfellið stóð silfurskínandi geimfar.
Hann var eiginlega alveg viss um þetta þó þessar slóðir væru honum ókunnar. Honum fannst að hann færi bara út í bílinn og æki af stað. Einhver innri rödd sagði honum ávallt hvert hann skyldi halda. Ekki hefði honum dottið í hug að aka af sjálfsdáðum útaf Þrengslaveginum á þeim stað sem innri röddin sagði honum að gera það.
Þó hann væri viss um hvað gerðist í draumnum allar götur þangað til hann sá geimfarið var framhaldið hulið móðu og óljósum minningum. Fyrst fannst honum hann greina einhverjar verur skammt frá geimfarinu en síðan var eins og allt yrði svart.
Það næsta sem hann vissi var að hann vaknaði í rúmi sínu dauðþreyttur og með höfuðverk. Hann vissi að hann þurfti ekki að gera neitt sérstakt þennan dag svo hann lét það eftir sér að lúra svolítið frameftir. Þegar hann svo fór á fætur þegar næstum var komið hádegi leið honum miklu betur. Hann afréð því að aðhafast ekki neitt.
Það var uppúr þessu sem Jósteinn varð var við miklar framfarir í skákkunnáttu sinni. Skömmu eftir drauminn undarlega hófst Haustmót Taflfélagsins og Jósteinn var þar meðal þátttakenda. Fyrir sín fyrri afrek og stigafjölda átti hann rétt á að tefla í efsta flokki. Þar átti hann að vísu ekki mikla möguleika á að verða meðal þeirra efstu. Hann þekkti alla skákmennina sem þátt tóku í mótinu og vissi vel að nokkrir þeirra voru mun betri en hann sjálfur.
Jósteinn hugsaði oft um drauminn undarlega og ferðalagið sem hann fór í honum. Hvað ef þetta væri nú ekki draumur eftir allt saman? Einhverjar utanaðkomandi verur hefðu lokkað hann til sín og gert á honum einhvers konar aðgerð?
Honum kom helst til hugar að einhverskonar skákvél hefði verið plantað í hausinn á sér. Hvernig svo sem það hefði átt að gerast. Hann hafði ekki fundið neina missmíði á höfðinu á sér eftir drauminn undarlega. Hann hafði heldur ekki neina sérstaka ástæðu til að efast um að þetta hefði verið draumur. Líklega hefði hann samt getað komist að raun um hvort hann hefði í raun og veru farið upp að Sandfelli með því að athuga hve mikið bensín var á bílnum. En það hafði hann ekki gert svo hann vissi svosem ekki með neinni vissu hvort þetta var draumur eða ekki.
Úrslit skáka á haustmótinu höfðu verið einkennileg. Jósteinn hafði unnið hverja einustu skák og eiginlega aldrei komist í taphættu. Það var undarlegt hve andstæðingar hanns höfðu teflt veikt. Það fannst Jósteini að minnsta kosti.
Mánuðirnir sem í hönd fóru voru mistri huldir í huga Jósteins. Hvert mótið rak annað og alltaf hafði hann unnið hverja einustu skák. Jósteini fannst hann ekkert tefla neitt sérstaklega vel. Eða að minnsta kosti ekkert betur en vanalega. Það voru bara andstæðingarnir sem tefldu eins og bavíanar.
Forystumenn skáklífsins í landinu tóku að sjálfsögðu eftir þeim gríðarlegu framförum sem Jósteinn sýndi og gerðu það sem þeir gátu til að útvega honum boð á lokuð mót erlendis. Það gekk ekki vel til að byrja með, en þegar hann fór að tefla á allsterkum opnum mótum og vinna hverja einustu skák fóru mótshaldarar að taka eftir honum.
Skákstig Jósteins hækkuðu auðvitað jafnt og þétt á þessum tíma og eftir árið var hann kominn vel yfir 2650 stig. Enginn Íslendingur hafði komist hærra á stigum og boð á vel skipuð lokuð mót erlendis streymdu nú að.
Einn var sá maður sem fylgdist öðrum betur með framförum Jósteins. Það var 16 ára strákur í Denver í Bandaríkjunum, Josh Sikorsky að nafni. Hann var undrabarn í skák og hafði lært mannganginn þegar hann var þriggja ára og stöðugt teflt síðan og með æ betri árangri. Undanfarin ár hafði hann haft sérstakan þjálfara sem sagði honum til um hvernig hagstæðast væri að nota tímann. Á hvaða hliðar skákarinnar hann þyrfti einkum að leggja áherslu og svo framvegis.
Josh stefndi að sjálfsögðu á heimsmeistaratililinn og í Jósteini sá hann mögulegan andstæðing sinn.
Öfugt við Josh hafði Jósteinn ekki hlotið markvissa skákþjálfun en samt náð nokkuð langt. Með markvissri og hnitmiðaðri þjálfun hefði hann eflaust náð lengra á yngri árum.
Allt hafði þetta breyst að undanförnu. Skáksigrar Jósteins höfðu vakið mikla athygli. Alþjóðaskáksambandið sá sér leik á borði og fékk Jóstein til að lofa því að tefla ekki einvígi um heimsmeistaratitilinn nema með samþykki sambandsins. Það var ekki erfitt fyrir Jóstein að taka ákvörðum í því máli. Hann átti að fá talsverða fjárupphæð fyrir það eitt að lofa þessu. Hann gerði sér svosem engar vonir um að verða besti skákmaður heimsins. Peningaupphæðin var miklu betri en sú veika von að einhvern tíma myndi hann tefla um heimsmeistaratitilinn.
Alþjóðasambandinu tókst að gera svipaðan samning við Josh Sikorsky og eftir dálítinn tíma kom í ljós að þetta var mjög hagstætt fyrir sambandið því þetta reyndust þegar til koma vera sterkustu skákmenn heimsins. Þeir sigruðu á hverju mótinu á fætur öðru og eftir einvígi við sterkustu skákmenn heimsins stóðu þeir tveir eftir uppi taplausir og nú var komið að einvígi þeirra. Einvígi aldarinnar sögðu sumir og víst var það að eitt vesælt skákeinvígi hafði aldrei vakið aðra eins athygli fjölmiðla. Einvígi þeirra Fischers og Spasskys í Reykjavík 1972 bliknaði við hliðina á þessu.
Blöðin höfðu skrifað mikið um þetta væntanlega einvígi og fréttaþættir voru gerðir um málið í sjónvarpsstöðum um allan heim. Enginn vissi þó með vissu hvar eða hvenær þetta einvígi átti að fara fram.
Það er að segja áður en Alþjóðaskáksambandið tilkynnti að einvígið ætti að fara fram fyrir lok ársins 2012 og halda átti það í Reykjavík til minningar um hið fræga einvígi sem hér fór fram árið 1972.
Undanfarið ár hafði Jósteinn að mestu látið af taflmennsku. Yfirburðir hans yfir aðra íslenska skákmenn voru svo miklir að varla tók því fyrir hann að taka þátt í innlendum mótum. Boð á skákmót erlendis höfðu þó borist reglulega en hann hafði ekki sinnt þeim. Vinnuveitandi hans hafði haldið áfram að greiða honum laun þó hann væri stöðugt að flækjast á skámótum.
Jósteini fannst sem honum bæri skylda til að stunda sína vinnu og fór því að nýju að mæta reglulega í vinnuna og neita að taka þátt í skákmótum jafnvel þó gull og grænir skógar væru í boði.
Heimsmeistarakeppnin var í ólestri eins og oft áður og Alþjóðaskáksambandið sá í Jósteini möguleika á því að ná aftur völdum á þessum virðingarmikla titli og fulltrúum sambandsins tókst að telja Josh Carpenter á að taka þátt í móti til að finna andstæðing fyrir Jóstein sem ekki hafði enn tapað skák á alþjóðlegum vettvangi síðustu árin. Jósteinn lét sér fátt um finnast en samþykkti þó að tefla einvígi við sigurvegara mótsins.
Þetta einvígi var nú var að hefjast. Vel mætti rekja aðdraganda þess miklu nánar og það verður án efa gert á öðrum vettvangi.
Þeir Jósteinn og Josh tókust í hendur, yfirdómari einvígisins kom að borðinu til þeirra og sagði þeim að nú gæti einvigið hafist. Forseti landsins kom einnig að borðinu og lék fyrsta leikinn með hvítu mönnum Jósteins. Hann lék kóngspeðinu fram um tvo reiti. Josh lék sínu kóngspeði einnig fram um tvo reiti og skákin sem svo lengi hafði verið beðið eftir var nú loksins hafin.
Jósteinn ákvað að sækja og tefldi því byrjun sem leyfði það. Fljótlega tókst honum að snúa á Josh og eftirleikurinn var fremur auðveldur. Jósteinn þurfti ekki að vanda sig ýkja mikið til að koma vinningnum í hús.
Í næstu skák hafði Jósteinn svart. Ekki háði það honum mikið og honum tókst að jafna taflið án teljandi erfiðleika. Þegar Josh sá frammá að ekki voru líkur á að honum tækist að snúa á Jóstein tók hann það til bragðs að þráleika. Jósteinn var ekkert óhress með það og fljótlega var jafntefli samið.
Í þriðju skákinni hafði Jósteinn aftur hvítt og í þetta sinn gekk honum erfiðlega að komast nokkuð áleiðis í skákinni. Josh gætti sín vandlega og fyrr en varði var hann sjálfur kominn í sókn. Jósteini tókst þó að verjast án erfiðleika og eftir fjörutíu leiki blasti það við að hvorugur gat komist neitt áleiðis án þess að leggja sig í mikla hættu. Jafntefli var því samið.
Amli Kuk stóð upp frá skrifborðinu og sagði við Mislu Do ritara sinn.
Hvernig var það eiginlega með strákinn frá Jörðinni sem við settum skákvélina í? Höfum við ekkert heyrt frá honum?"
Misla blaðaði í einhverjum skjölum á borðshorninu hjá sér og sagði:
Jú, mér skilst að honum gangi bara vel. Hann er að byrja á heimsmeistaraeinvígi núna og virðist ekki gera sér mikla grein fyrir málinu sjálfur. Þó er ekki útilokað að einhverjar minningar séu á flökti um upphafið sjálft og ferðina að geimfarinu okkar. Hann hefur samt ekkert ákveðið við að styðjast því það hefur verið athugað að hann gerði engar tilraunir til að kanna málið."
Æ, mér leiðist þessi sífelldi feluleikur. En það hefur víst verið ákveðið að svona eigi þetta að vera."
Já, því er haldið fram að margir Jarðarbúar væru alveg nógu þroskaðir til að skilja um hvað málið snýst. En þeir eiga víst skilið að fá að rekast á takmarkanirnar sjálfir." Sagði Misla hugsandi.
Til hvers erum við eiginlega að rannsaka þetta? Við vitum ósköp vel að smíði skákvéla er ekkert sérlega erfið og þó vesalings Jarðarbúarnir eigi í mestu erfiðleikum með þetta og skákiðkun sé talsvert algeng þá er það lítil áskorun fyrir okkur að vera miklu betri en þeir." Bætti hún við.
Já, mér skilst að verið sé að rannsaka fyrst og fremst hvernig hægt sé að örva fólk þarna til að vinna að þeim markmiðum sem okkur eru hugleikin. Það var ákveðið að skákin væri ágæt til slíks og gæti vel hentað til að sjá hvort hægt er að láta verur þarna vinna fyrir okkur án þess að gera sér grein fyrir því og án þess að vekja mikla tortryggni annarra. Þetta er samt dálítið áhættusamt, því við viljum ekki að þeir verði varir við okkur."
Já, strákurinn verður eflaust heimsmeistari en hvernig skyldi hann höndla það? Verst ef hann segir eitthvað sem kemur okkur illa.
Jósteinn fékk glýju í augun af öllum ljósblossunum. Honum leið vel með þá hugmynd að vera orðinn heimsmeistari í skák. Honum fannst hann eiginlega ekki vera verðugur. Hann hafði ekki lagt eins hart að sér og hann hafði oft heyrt að gera þyrfti til að ná langt á einhverju sviði.
Hvað viltu segja við þjóðina nú þegar þú ert búinn að vinna þann æðsta titil sem hægt er að vinna á þínu sviði?"
Fréttamaðurinn þrýsti mikrafóni að vitum Jósteins þegar hann hafði sagt þetta.
Hmm. Ég get eiginlega ekki sagt neitt. Ég er varla búinn að átta mig á þessu."
En hvernig er þér innanbrjósts?"
Það er einhver tómleikatilfinning sem gagntekur mig. Og þreyta. Mikil þreyta."
Það er nú varla erfitt að sitja bara og færa einhverja trékalla!"
Jú, það er alveg skelfilegt erfiði að einbeita sér svona lengi í einu. Ef þú hefur aldrei gert neitt þessu líka er ekki von að þú skiljir það."
En hvernig stendur á því að þú ert allt í einu orðinn svona góður í skák? Þú ert búinn að fást við þetta nokkuð lengi án þess að komast í hóp þeirra allra bestu."
Já, ég skil það ekki almennilega sjálfur. Fyrir nokkrum árum varð það bara skyndilega mun auðveldara fyrir mig að sjá fyrir mér hvað þetta snýst allt um. Ég sé yfirleitt sterkasta leikinn furðufljótt, en þarf samt að ganga úr skugga um að allt sé rétt."
Jósteinn gafst upp á því að tala við fréttamennina og ruddi sér leið í gegnum hópinn. Þeir leyfðu honum að fara. Létu sér nægja að taka nokkrar myndir af honum og sneru sér að öðru. Skák var ekki fjölmiðlavænsta íþróttin og þó Íslendingar hefðu núna fyrst eignast alvöru heimsmeistara var fótboltinn eiginlega miklu meira spennandi.
Jósteinn fleygði sér upp í rúm þegar hann kom heim. Hann var úrvinda. Það voru engar ýkjur þegar hann sagðist vera þreyttur. Hann fór að hugsa um skákina og hinn skyndilega frama sinn á því sviði. Var hugsanlegt að hann væri einfaldlega að tefla fyrir einhverja aðra. Það var alveg undarlegt hve fljótur hann var að sjá afleiðingar hvers einasta leiks í huganum og sjá í hendi sér mótleikinn. Hann gat varla hafa orðið svona snjall allt í einu.
Honum fannst eins og vendipunkturinn væri draumurinn um Sandfellið og gryfjurnar þar. Gat það verið að geimverurnar hefðu verið raunverulegar og plantað í hann einhverri skákvél? Ekki gat gengið að fara að tala um slíkt núna. Hann var orðinn heimsmeistari og svo sannarlega ætlaði hann að njóta þess.
Á blaðamannafundinum töluðu allir mjög fjálglega um vesalings Jóstein. Honum fannst þetta óskaplega leiðinleg samkoma og reyndi að segja sem minnst sjálfur. Það var samt nauðsynlegt að sækja svona samkomur því ekki varð hjá því komist að auglýsa sig.
Þegar félagar hans við háborðið höfðu lokið sér af og hann sagt fáein orð var komið að spurningunum. Jósteini fannst flestar þeirra frekar óspennandi en almennt var reynt að leysa sem best úr þeim spurningum sem fréttamannsgreyin fundu upp á að spyrja. Mest fjölluðu þær um hvernig honum liði með að vera orðinn heimsmeistari. Hvort hann ætlaði að tefla mikið í framtíðinni og þar fram eftir götunum.
Jósteini flaug í hug að hann gæti leikið sér að því að ná athygli þeirra óskiptri með því að segja þeim frá geimfarinu og grunsemdum sínum, en honum datt það auðvitað ekki í hug í alvörunni.
Þegar Jósteinn lýsti því yfir að hann mundi alveg örugglega tefla svona eitt einvígi á ári um heimsmeistaratitilinn varð einn blaðamaðurinn til þess að minna hann á að Bobby Fischer hefði einmitt sagt þetta sama þegar hann varð heimsmeistari án þess að það yrði mikið úr því.
Já, ég þekki það allt. Ekki er víst að ég sé eins og hann að þessu leyti en auðvitað veit ég ekkert með vissu hvað framtíðin muni bera í skauti sér."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.