1367 - Skyldublogg

siggilalliGamla myndin.
Sé ekki betur en þetta séu Siggi í Fagrahvammi og Lárus Kristjánsson. Sennilega höfum við verið í gönguferð þegar þessi mynd var tekin. Hún er að vísu pínulítið óskýr en ekki sem verst samt.

Nokkur hópur fólks, sem hugsanlega eru í um 3 til 4 hundruð manns (næstum áreiðanlega samt ekki færri en svona tvöhundruð), les eða kíkir á bloggið mitt nokkuð reglulega. Hvernig þessi hópur er samsettur veit ég lítið um en örugglega er ekki eingöngu um að ræða ættingja og skólafélaga, þó margir séu það eflaust. Hversvegna þetta fólk er að kíkja á bloggið mitt veit ég ekki, en geri mér í hugarlund að það sé vegna þess að því líkar sæmilega vel að lesa það sem ég skrifa þó auðvitað sé það enganveginn sammála öllu sem ég festi á blað.

Þó ég viti lítið um þennan hóp veit ég að svona 30 til 50 af honum eru ekki verulega handgengnir tölvum. Flestir virðast skoða bloggið mitt seinni part dags eða snemma kvölds. Ég gæti líklega að einhverju leyti komist að því hvaðan þetta fólk kemur (þ.e.a.s. frá hvaða IP-tölum það nálgast mitt blogg) en hef ekki mikinn áhuga á því. Langflestir koma eflaust frá Íslandi en þó ekki allir.

Mér finnst ég vera á einhvern óútskýranlegan hátt skuldbundinn þessum hópi. Skuldbundinn til að skrifa oft og einkum á þann hátt sem mér er eiginlegastur. Þ.e.a.s. vaða úr einu í annað og skrifa svolítið öðruvísi en flestir aðrir. (Eins og gamalmenni sæmir, mundu einhverjir segja) Líka þarf það sem skrifað er að fljóta sæmilega sem ég kalla. Þ.e.a.s. það þarf að vera án áberandi hnökra og að sem mestu leyti án möguleika á misskilningi. Til þess þarf að lesa sæmilega yfir. Það er engin von til þess að maður skrifi langt mál í fyrstu tilraun án þess að einhverjir hnökrar séu á því.

Horfði á landsleik í knattspyrnu í sjónvarpinu í gærkvöldi  og hafði gaman af. Þetta var landsleikur í kvennafótbolta við landslið Búlgaríu. Íslendingar unnu 6:0. Samt var talað um að íslenska liðið hefði ekki leikið neitt sérstaklega vel og mér fannst eiginlega að menn hefðu viljað meira. Þetta sýnir ágætlega stöðu kvennafótboltans á Íslandi. Verst að það verða líklega ekki jólin í þessu efni endalaust.

Sagt er að bæði Birgitta Jónsdóttir og Birna Þórðardóttir hafi verið á snobbsamkomunni sem markaði opnun tónlistarhússins Hörpunnar. Ekki er ég hissa á því. Þeim hefur sjálfsagt verið boðið og enginn hefði grætt neitt á því þó þær hefðu ekki mætt. Þó menn eins og ég hafi einhverja ánægju af þvi að kalla þær snobbhænsni fyrir vikið er ekki þar með sagt að nein ástæða hafi verið til að neita að mæta. Alveg væri ég hugsanlega til með að þiggja boð á eitthvað sem mig langaði að sjá gegn því að vera kallaður snobbhænsni.

Sagt er að ESB íhugi plastpokabann eða a.m.k. að setja á þá mengunarskatt. Mér líst ágætlega á það. Plastpokarnir sem notaðir eru hér í verslunum eru bæði afskaplega ónýtir og alltof stórir. Þar að auki eru þeir áreiðanlega margfalt dýrari en þeir þyrftu að vera. Verslanir hækka þá í verði að vild og segja að sala þeirra sé í þágu góðs málefnis. Sem er mestanpart lygi. Kannski skila samt sumar verslanir gróðanum af pokasölunni eftir dúk og disk þegar búið er að hafa hann lengi í veltunni.

Út er komin bókin um Akranes sem Harpa Hreinsdóttir hefur verið að blogga um að undanförnu og gagnrýna. Bæjarstjórinn gumar af því hve ódýr bókin hafi verið. Ekki er ég viss um að allir séu því samþykkir. Hugsanlega hefði hann ekki átt að tala um verðið. Það gæti orðið honum dýrt spaug.

IMG 5502Speglun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gerir bæjarstjórnin ekki nákvæma greinargerð um kostnað við gerð bókarinnar, síðustu 15 árin?

Ólafur Sveinsson 23.5.2011 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband