1363 - Bíttu í brallið á þér

bjossi 3Gamla myndin.
Hér er Bjössi með teikniprik. Kannski hefur einhver annar teiknað myndina t.d. Ingibjörg. 

Þú ert að mörgu leyti summan af því sem þú hefur gert um ævina. Aðrir hafa litla hugmynd um hvað þú getur. Hugsa mest um sjálfa sig eins og eðlilegt er. Þess vegna þarftu að auglýsa þig. Vekja athygli annarra á því hvað þú getur gert vel. Tækifærin koma yfirleitt ekki af sjálfu sér. Það þarf jafnvel að leita að þeim.

Kannski er ég af fyrstu kynslóðinni á Íslandi sem að miklum meirihluta ólst upp í þéttbýli. Fásinnið sem eldra fólk en við þurfti sumt að alast upp við er ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Kannski finnst ungdómnum í dag að við sem nú erum að eldast höfum alist upp í fásinni miklu. Ekki fannst mér það. Alltaf var eitthvað að gerast. Veröld fullorðna fólksins var hinsvegar ekkert sérstök í okkar augum svo við bjuggum okkur bara til okkar eigin.

Allskyns orðaleikir og vitleysa er yndi barna á vissum aldrei. Sumt af því man maður alla tíð. Einhverntíma var það í skólaferðalagi sem við söngluðum: „Teygir hún og togar á sér tyggjóið." Að sjálfsögðu meintum við ekki neitt sérstakt með þessu. Eða réttara sagt hver og einn gat lagt þá merkingu í þetta sem honum sýndist. Þannig var um margt af því sem við krakkarnir tuldruðum fyrir munni okkar.

Í skólaferðalaginu sem áður er getið hlýddi Gunnar Benediktsson á þetta söngl í okkur og Heiðdís dóttir hans var ein af þeim sem þátt tók í þessu. Gunnari hnykkti við, sá ég, en lét kyrrt liggja. Hefur sjálfsagt dottið eitthvað ósæmilegt í hug. „Bíttu í brallið á þér." (tvöfalda ellið er raddað eins og í sögninni að bralla) sögðum við krakkarnir líka oft án þess að meina eitthvað sérstakt með því.

„Þú veist ekki hundaskít um það." (Hundaskítur var reyndar talsvert notað orð sem allsherjar blótsyrði) „Hver og hver og vill."Pant vera fyrstur." „Viltu vera memmér?" (ekki var þá búið að stytta memmér í memm) Eru orðatiltæki sem samstundis koma upp í hugann. Sumu man maður vel eftir þegar maður heyrir það, fyrr ekki.

IMG 5478Svo þarna á Kisa heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einn vinsæll orðaleikurinn: Hart og stinnt,loðið og lint,liggur á milli fóta,bæði karlmenn og kvennmenn þess njóta.

Ólafur Sveinsson 17.5.2011 kl. 17:58

2 identicon

Lausnarorðið er: Kýrjúgur

Ólafur Sveinsson 17.5.2011 kl. 20:55

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einmitt. Og mér dettur náttúrulega í hug gátuvísan góðkunna:

Tíu toga fjóra
tvö eru höfuðin á.
Rassinn upp og rassinn niður
rófan aftan á.

Sæmundur Bjarnason, 17.5.2011 kl. 21:19

4 identicon

Segðu okkur frá Gunnari. Ég á nokkrar bækur eftir hann. Hann var mikill Sturlungu grúskari.
Ábyggilega frábær kennari. Hann hefur náð að koma einhverju viti í strákinn?

Ólafur Sveinsson 17.5.2011 kl. 23:21

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Gunnar Benediktsson er eftirminnilegur kennari. Heiðdís dóttir hans er fésbókarvinur minn. Hún býr á Selfossi núna. Kannski reyni ég að rifja upp fleira um hann. Held samt að ég hafi skrifað um hann fyrr.

Sæmundur Bjarnason, 18.5.2011 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband