1357 - The Last Hangman

Siggi ÞorsteinsGamla myndin
er greinilega af Sigurði Þorsteinssyni frá Ljósalandi. Hún er frá Kalla Jóhanns. 

Eru menn aggressívari og orðljótari fyrir framan tölvuna en augliti til auglitis við þann sem hallmæla skal? Já, þannig held ég að því sé varið með marga. Eftir því sem lengra líður og menn verða tölvuvanari lagast þetta að líkindum.

Mér finnst menn ekki vera eins orðljótir og skömmóttir nú eins og var í upphafi hruns. Það er kannski vegna þess að tilfinngarnar eru ekki eins sterkar og þá en líka er það e.t.v. vegna þess að menn eru farnir að venjast þessum miðli svolítið. Netið á þó áreiðanlega eftir að verða enn meira ráðandi afl í lífi manna en nú er.

Málfrelsi er það sem máli skiptir. Ekki það að vera sammála síðasta ræðumanni. Heldur ekki að vera ósammála honum. Helst það að hafa eitthvað að segja sjálfur. Eða a.m.k. að vera trúr sínum tilfinningum. Láta ekki aðra hræra í því sem manni finnst. Jafnvel að finnast bæði Honey Nut Cheerios og venjulegt vera best.

Horfði í gærkvöldi á myndina „The Last Hangman." Það er að mörgu leyti athyglisverð mynd. Hef eiginlega lengi haft morbid áhuga á aftökum. Veit ekki af hverju.

Í eina tíð las ég næstum allt sem ég gat fundið á netinu um aftökur í Bandaríkjunum. Þeir skammast sín nefnilega heil ósköp fyrir þá villimennsku, en geta samt ekki hætt.

Meðal siðaðra þjóða er þessu nánast allsstaðar lokið en Bandaríkjamenn þora ekki að hætta. Sennilega eru þeir hræddir við skyldmenni fórnarlamba og atkvæði þeirra.

Öfgamenn vaða gjarnan uppi í þjóðfélögum sem elska frelsið og hata ríkisafskiptin jafnmikið og Bandaríkjamenn. Blanda af þessu er best. Frelsishatrið er líklega verra. A.m.k. liðu Sovétríkin fyrr undir lok en Bandaríkin.

Ég er með þeim ósköpum gerður að ég ímynda mér að margir þeirra sem á  bloggið mitt kíkja (reglulega eða ekki) séu áhugamenn um Hveragerði liðins tíma eins og ég óneitanlega er.

Einn link uppgötvaði ég fyrir ekki mjög löngu síðan og með því að fara ýmsar leiðir um hann og útfrá honum má fræðast heilmikið um Hveragerði áður fyrr. Hann er kallaður „Listamenn í Hveragerði 1940 -1965" og er hér. Ég sé sjálfan mig svolítið í anda sem miðlara slíkra upplýsinga og mundi gjarnan vilja að þeir sem búa yfir viðbótarupplýsingum um þessi mál geti þess í athugasemdum hjá mér.

Ég fæ nokkuð oft komment á bloggið mitt. Ástæðurnar held ég að séu einkum tvær. Þeir sem oft koma hingað eru orðnir vissir um það að komment (a.m.k. þau jákvæðu) eru vel séð. Hin ástæðan er sú að ég hef lagt mig eftir því að svara kommentum ef ég mögulega get. Kannski er þetta sama ástæðan. Hvað veit ég?

IMG 5460Mörg hús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosalega gaman að sjá Sigga Þorsteins, min gamla vin og félaga á okkar sokkbandsárum.

Alltaf hrókur alls fagnaðar og örlátur, þegar við hinir vorum blánkir.

Enda fannst okkur félögunum alltaf að hann væri greifinn í hópnum.

karl johannsson 11.5.2011 kl. 10:39

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Siggi var talsvert yngri en ég og ekki hafði ég mikið saman við hann að sælda. Finnst samt eins og myndin lýsi honum vel. Hann var alltaf glaður og kátur. A.m.k. er hann þannig í minningunni.

Sæmundur Bjarnason, 11.5.2011 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband