1353 - Stöð 2

SiggÞ IsidorHerm BiggiTraust LappiGamla myndin.
Hér eru þeir Sigurður Þorsteinsson, Ísidór Hermannsson og Birgir Traustason ásamt hundinum Lappa sem Birgir átti. Þessi mynd er frá Kalla Jóhanns.

Einhverju sinni þegar ég vann á Stöð 2 fórum við í dagskrárdeildinni eina dagstund í sumarbústaðinn hans Ragnars í Smára og dvöldum þar. Þessi bústaður er í Þrastaskógi við Álftavatn og trjágróðurinn þar er með ólíkindum gróskumikill. Bústaðurinn er líka gamall og virðulegur. Þar var ágætt að vera og ég var með myndavél með mér. Rakst í gær á myndirnar sem ég tók þar. Sumar eru ágætar og ég er að hugsa um að láta nokkrar hér. Því skyldi ég ekki setja nokkrar milligamlar myndir á mitt Moggablogg. Það getur vel verið að ég setji fleiri myndir hingað upp seinna. Einkum ef ég get skrifað eitthvað um þær.

132Þessi mynd er af Elvu Gísla. Auðvitað var það mest fyrir hennar tilverknað sem okkur bauðst að fara í þennan sumarbústað.

128Hér eru svo Guðrún Snæbjörnsdóttir og Lovísa Óladóttir.

129Þetta er Hildur Guðnadóttir.

130Hér er mynd af Goða Sveinssyni sem var dagskrárstjóri á þessum tíma.

131Þetta er Páll Baldvin Baldvinsson aðstoðardagskrárstjóri.

Ekki veit ég hvort framhald verður á þessum sið. Ég meina að setja myndir í miðjuna á blogginu. Það er líklega ekkert sniðugt og svo blöskra mér daglegar skannanir. Sennilega hefur mér líka einhvern tíma þótt mikið að skrifa daglega blogg.

Mörður Árnason kallaði nokkra sjálfstæðisþingmenn grátkonur og fékk bágt fyrir. Mér þykir hann hafa komist vel að orði enda er Mörður einhver besti íslenskumaðurinn á þingi. Það er sannkölluð hörmung að heyra hvernig sumir þingmenn tala. Bæði vitlaust og illa. Hugga mig ævinlega við að útilokað sé að mennirnir séu svona ómögulegir í öllu. Eitthvað hljóti þeir að geta. Veit samt ekki með grátkonurnar.

Ef ekki má kalla Gulla mútuþega á bloggi má þá kalla Þorgerði Katrínu íhaldsbelju? Það gerði Þráinn Bertelsson á fésbókinni. Kannski er annað dómsmál í uppsiglingu þarna. Það er eiginlega sama hvort Þráinn verður kærður fyrir ærumeiðingar eða ekki það verður athyglisvert að fylgjast með framhaldinu.

Mér hættir til að fá nokkurskonar exem ofanvert á fingurna. Fyrir nokkrum árum fann ég uppá því að bera daglega á hendurnar á mér bæði Ibaril eða Elocon krem (ósköp lítið) og svo Atrix. Þetta hefur dugað mér ágætlega til að halda þessu í skefjum. Hef síðan ekki þorað annað en nota bæði þessi krem daglega. Vel getur verið að ég hafi með þessu fundið ágæta blöndu en líka getur verið að þetta sé tóm tilviljun og kremin (jafnvel öll) vitagagnslaus. Líka getur hugsast að einhverjum komi vel að vita af þessu.

Ég get ekki gert að því þó „úranauðgun" (þ.e.a.s að úran sé auðgað) sé skrifað nákvæmlega eins og „úra nauðgun". Samt má snúa útúr þessu á ýmsan hátt og finna fleiri dæmi um svona lagað. Ég nenni því bara ekki.

Það er meiri blessuð blíðan úti núna. Vel getur samt verið að þetta sé bara gluggaveður og hálfkalt. En fallegt er veðrið að sjá. Trén hamast líka við að taka við sér.

IMG 5432Svo má saga timbur að passi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á Kiðafelli, í Kjós, voru allar beljurnar íhaldsbeljur. Enda í eign íhaldsmanna.

Ólafur Sveinsson 7.5.2011 kl. 01:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú, er kannski bara jákvætt að vera íhaldsbelja?

Sæmundur Bjarnason, 7.5.2011 kl. 07:31

3 identicon

Ég veit ekki hvað þjálfara FH finnst.

Ólafur Sveinsson 7.5.2011 kl. 10:17

4 Smámynd: Óli minn

Þorgerður má vel við una. Beljur eru vísar, góðar og sniðugar skepnur sem gera mikið gagn. Það er því ekkert að því að vera líkt við belju. Hins vegar er afar móðgandi fyrir beljur að vera kenndar við Sjálfstæðisflokkinn. Þráinn ætti því að biðja beljur landsins afsökunar.

Óli minn, 7.5.2011 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband