1352 - Myndir og fleira

kiddiGamla myndin.
Hér er Kiddi Antons í öllum herklæðum. Myndina tók ég sennilega árið 1957 og það er barnaskólinn sem er í baksýn.

Eins og flestir sem lesa bloggið mitt hafa eflaust tekið eftir þá leiðist mér fésbókin skelfilega. Mest hugsa ég að það sé vegna frekjunnar í henni. Allan fjandann vill hún vita og er sífellt að spyrja um leyfi til að gera þetta eða hitt. (Samþykki aldrei neitt) Svo skil ég hana ósköp illa. Fatta ekki einusinni hvernig einföldustu aðgerðir koma út. Það getur verið að fleiri séu líkir mér að þessu leyti því flest þarna virðist vera afskaplega tilviljanakennt. Þar að auki virðist hún dreifa vírusum alveg villivekk.

Gallinn við mína bloggstarfsemi er að fréttbloggsáráttan er aldrei langt undan. Mér finnst að bæði Bin Laden og Bangsi Bangsason séu að trufla mig núna. Gaddafi hefur að vísu næstum þagnað en það er sennilega blessuðum fréttamiðlunum að þakka. Svo er meira að segja verið að reyna að vekja áhuga minn á kjaraviðræðum og jafnvel pólitík. Svei því öllu saman.

Þegar ég skoða gamlar myndir sé ég að ævi mín hefur verið ansi kaflaskipt. Eftir að náminu lauk við Miðskólann í Hveragerði var ég í litlu sambandi við skólafélaga mína þar. Þá var líka ekkert blogg og engin fésbók. Hvað sem segja má um þessi nútímafyrirbrigði þá auðvelda þau mjög öll samskipti. Síðan rofnuðu samskiptin við alla (eða flesta) sem ég hafði kynnst á Bifröst. Svo hætti ég að heyra nokkuð frá þeim sem ég kynntist á Snæfellsnesi, svo í Borgarnesi o.s.frv. Líklega er þetta bara eðlilegt og ber engan vott um að ég sé eitthvað skrýtinn.

Fékk eitt sinn ljósmyndadellu þegar ég var unglingur. Þessvegna er dálítið einkennilegt að ég skuli ekki eiga fleiri myndir frá þessum tíma. Man að ég keypti mér græjur til að geta framkallað og kopierað sjálfur. Paterson var tegundin og ég keypti þetta dót hjá Hans Petersen. Meira að segja stækkara líka seinna meir og vel getur verið að ég eigi einhvers staðar í drasli eitthvað frá þessum tíma.

Eins og sjá má af athugasemdum með síðasta eða næstsíðasta bloggi mínu eru sumir (sem ekki eru Moggabloggarar) í vandræðum með að athugasemdast hjá yfirstéttinni. Þetta er ekki nógu gott og þyrfti að athuga betur. Sumir komast reyndar yfir þessa fötlun með tímanum en samt sem áður er þetta vandamál.

Sumir (jafnvel Moggabloggarar líka) nærast nefnilega á því að fá sem flestar athugasemdir. Auðvitað er ég ekki svona, en samt...

Betra er að setja vísurnar sínar í blogg en týna þeim alveg. Sérstaklega ef manni finnst þær sæmilegar.

Bældur er bíllaus maður
og brotið hans sjálfsálit.
Aldrei hann gerist glaður
því gamanið hans er strit.

Þetta vísukorn setti ég saman í morgun af engu sérstöku tilefni. Spakmælið „Blindur er bóklaus maður" kom bara til mín svona óforvarendis og ég sneri því svolítið á haus og prjónaði við það.

IMG 5410Vorboði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Best að líta á Facebook sem nútímaljóð: "A Poem should not mean /  but be". Borgar sig ekki að reyna að skilja FB. Bara nota hana. Og aldrei aldrei aldrei að smella á neina "sniðuga" könnun eða álíka link frá FB-vinum!

Í og með er ég að athuga hvort ég fæ nýja táknmynd með nýrri IP-tölu :) En færslan er fín og ég er mjög hrifin af gömlu myndunum sem þú ert að birta nú um stundir, sem og öllum æviminningum (held ég hafi nefnt það áður). Og svo bara almennt og yfirleitt áreynslulausum og yfirlætislausum bloggstíl.

Harpa Hreinsdóttir 6.5.2011 kl. 12:01

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Harpa. Ég sé ekki betur en þú sért komin með þína eigin táknmynd hérna. Verst að hún skuli vera blá. Við það verður samt að una. Þetta er greinilega sama myndin og síðast. Hef bara aldrei spekúlerað í þessu fyrr. Nú fer ég semsagt að gera það. Man að Ólafur Gíslason er alltaf grænn. Eða það minnir mig.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2011 kl. 15:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Meinti víst að Ólafur Sveinsson er alltaf grængulur. Annars er þetta merkilegt. Sennilega sérstakt rannsóknarefni.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2011 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband