3.5.2011 | 02:39
1349 - ESB og þjóðarvitund Íslendinga
Gamla myndin.
Enn leita ég í smiðju Kalla Jóhanns. Hann sendi mér þessa mynd. Hún er frá balli sem haldið hefur verið að Hótel Hveragerði um 1960 býst ég við. Jóna Sigurðardóttir og Theodór Kjartansson dansa þarna fremst á myndinni. Þekkja nokkrir fleiri?
Hún situr talsvert í mér sú mynd sem Eiríkur Bergmann dró upp af okkur Íslendingum í þætti Egils Helgasonar síðastliðinn sunnudag.
Sú mynd að fullveldið og sjálfstæðið sé mikilvægast fyrir okkur Íslendinga og við séum á flestan hátt mjög sérstakir og vel gerðir er hægt að segja að sé ríkjandi umræðuhefð hér á landi. Árangri í stjórnmálum er ekki hægt að ná nema ganga þessari hefð á hönd. Á þessu hefur verið hamrað frá því snemma á nítjándu öld. Það er varla fyrr en nú síðustu áratugina sem alvarlegir brestir hafa komið í þessa heimsmynd.
Háskólamenn hafa í vaxandi mæli bent á að aðrar þjóðir standi okkur oft og einatt miklu framar og Danir hafi síður en svo kúgað okkur og féflett á niðurlægingarskeiði okkar. Sumum finnst þetta niðurlægingarskeið hafa staðið allt frá því að við lögðum niður þjóðveldið á seinni hluta þrettándu aldar og til þess að við hlutum sjálfstæði í byrjun þeirrar tuttugustu.
Setja með öðrum orðum samasemmerki á milli þess að við ráðum sjálf öllum eða allflestum okkar málum og að hér gangi hlutirnir vel og velmegun sé mikil. Svo er þó alls ekki. Það voru innlendir aðilar sem héldu aftur af öllum framförum hér í aldaraðir. Mér er í fersku minni hve mikil reiði greip um sig í þjóðfélginu þegar sjónvarpsþættirnir sem nefndust Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" voru sýndir hér.
Sannleikanum verður hver sárreiðastur er spakmæli sem sannaðist þá eftirminnilega. Auðvitað gerði Baldur sá Hermannsson sem þessa þætti setti saman of mikið úr hlutunum. Með því olli hann svo heifarlegum viðbrögðum að mér brá. Mér ofbauð líka sú sögufölsun og heilaþvottur sem átti sér stað hér á Íslandi þegar þorskastríðin stóðu sem hæst.
Nú vilja samningamenn ESB fara að ræða alvarlega við okkur Íslendinga um aðildina að ESB sem við höfum sótt um. Ef umræðuhefðin hér á Íslandi breytist ekki þeim mun meira er hætt við að nei-sinnar muni ná undirtökunum í kosningum um aðild.
Sú trú virðist útbreidd að okkur vegni best ef við stöndum sem mest á eigin fótum. Fullveldið og sjálfstæðið sé það sem umfram allt beri að vernda. Líklegast er að sú skoðun verði ofaná einfaldlega vegna þess að búið er að ala á henni síðan löngu fyrir sjálfstæðið sem fékkst 1918. Semsagt í meira en hundrað ár. Sú skoðun sem þannig hefur síast inní íslenska þjóðarvitund verður ekki numin í burtu í einu vetfangi. Engu máli skiptir hvort hún er réttmæt eða ekki.
Þó Bandaríkskir hermenn losi okkur smám sama við óværu á borð við Ósama bin Laden og Saddam Hússein (jafnvel Gaddafi bráðlega) er ekki þar með sagt að heimsvaldastefna Bandaríkjastjórnar verði vinsælli meðal hinna sigruðu. Á margan hátt líkist Bandaríska heimsveldið æ meira hinu Rómverska. Slík heimsveldi líða á endanum undir lok en ekki er víst að það Bandaríska geri það fljótlega.
Davíðar þessa heims reyna vitanlega eftir mætti að hafa áhrif á stefnu heimsveldisins en ekki er við því að búast að ímyndaðir hagsmunir örríkis eins og þess íslenska hafi áhrif á stefnu risaveldisins. Þess vegna hvarflaði það áreiðanlega aldrei að bandarískum ráðamönnum að hafa hér her lengur en það þjónaði hagsmunum þeirra sjálfra.
Hér sýnist mér Tinna vera að undirbúa ólöglegan biskupsleik.
Athugasemdir
Heyrðu með fullveldið og ESB. Já fullveldið er okkur mikilvægt. Hvað gerum við er við höfum ekki þessa þjóð til að þrátta um hin og þessi málefni. Þetta er bara partur af lífinu en auðvita hefir verið óvenjumikið út af hruninu og ekki síst vegna ESB falsumumsóknarinnar. Við yrðum fljótt eins fangar í fangelsi sem hafa ekkert að segja. Ráða ekki sínum ferðum og þessháttar.
Valdimar Samúelsson, 3.5.2011 kl. 10:30
Ég er ekki endilega að tala um fullveldið og sjálfstæðið sem slíkt. Heldur þá bannhelgi sem virðist hvíla á því að tala um það á rangan hátt. Það er búið að innprenta okkur ákveðin viðhorf til svo margs að frelsi okkar til orða og athafna er ákaflega skert. T.d. fer því víðsfjarri að lífskjör okkar Íslendinga séu svo slæm sem af er látið.
Sæmundur Bjarnason, 3.5.2011 kl. 11:50
Alveg sammála þér, Sæmundur skólabróðir. Það ætlar ekki að ganga vel að losna við innrætingu Hriflu-Jónasar. Það er stóralvarlegt mál hve margir hafa verið heilaþvegnir af lestri arfavitlausra þjóðernisofstækisbóka karlsins sem voru kallaðir Íslandssag.
Ellismellur 3.5.2011 kl. 21:22
Já, Ellismellur ég þurfti á sínum tíma að lesa og læra Íslandssögurembuna hans Jónasar. Sagnfræðingar nútímans hafa samt breytt talsvert sýn minni á söguna.
Sæmundur Bjarnason, 3.5.2011 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.