2.5.2011 | 00:08
1348 - Snjór og aftur snjór
Gamla myndin.
Hér kemur strax fyrsta myndin frá Kalla Jóhanns (sjá seinna í blogginu). Á þessari mynd eru þeir Birgir Helgason og Skúli Magnússon. Góð mynd.
Jæja, nú er allt komið á kaf í snjó. Ég sem hélt að loksins væri sumarið að koma. Fyrsti maí er reyndar um allt land en sumarið víst ekki.
Það eru handónýt rök að segja að fangar verði of sterkir á því að hafa aðgang að lóðum til lyftinga. Stjórn fangelsismála verður að reyna að finna einhver skárri rök en þau. Fangelsismálastjóri varð sér til eftirtektarverðrar minnkunnar með því að halda fram opinberlega annarri eins fjarstæðu.
Ég hef oft verið að andskotast út í fésbókina. Hún er samt ekki alslæm. Fyrir utan allt hitt finnst mér hún duga ágætlega til að vekja athygli á málum sem maður er hálfbúinn að gleyma. Það breytir því ekki að mér finnst hún misnotuð af mörgum og margt í henni vera fjarskalega lítils virði. Hún er greinilega mikið notuð líka til að birta myndir. Mér finnst hún ekki henta mér sérlega vel. Kannski er ég langorðari en þar tíðkast. Mér finnst ég samt ekki langorður. Það er líka erfitt að endurskoða og lagfæra það sem skrifað er ef sífellt er verið að skrifa nokkur orð.
Karl Eggert Jóhannsson sendi mér nokkrar myndir (9) frá Hveragerði í gamla daga. Við að skoða þær vakna ýmsar spurningar. Líklega mylgra ég þeim smám saman á bloggið mitt og kannski þurfa sumar af spurningunum að fylgja með. Látið ykkur hlakka til. Á þessum myndum eru t.d. Siggi Þorsteins, Mummi Bjarna, Kiddi Antons, Skúli Magg, Siggi Jóns, Teddi Kjartans, Jóna Sigga Árna, Ísidór Hermannsson, Venni og að sjálfsögðu Kalli sjálfur.
Það eru alltaf hinir og þessir að boða til mótmæla á Austurvelli vegna ýmissa málefna. Áhrif þess gjörnings að boða til mótmælastöðu við Alþingishúsið fara síminnkandi. Þessi aðferð hefur verið misnotið. Eitthvað ögn frumlegra þarf að sjá dagsins ljós. Annars held ég að núverandi ríkisstjórn sé vinsælli en þeir vilja vera láta sem hæst hafa.
Hef verið að birta talsvert af gömlum myndum hér á mínu bloggi undanfarið. Ljósmyndadellu meðfram öllum hinum dellunum hef ég lengi verið með. Tók eitthvað af myndum í Hveragerði í gamla daga. Þær eru þó miklu færri en ætla mætti. Svo fór ég á Bifröst og tók eitthvað af myndum þar. Tók mikið af myndum þegar við áttum heima á Snæfellsnesi, talsvert í Borgarnesi líka minnir mig.
Hef sennilega tekið fremur lítið af myndum eftir að við fluttum til Reykjavíkur 1986 fyrr en þá síðustu árin. Fékk stafræna myndavél í jólagjöf árið 2007 og hef síðan tekið talsvert af myndum. Mannamyndir og dýramyndir hafa þó lent svolítið utangarðs hjá mér enda óhemju vandasamar ef vel á að vera. Landslagsmyndir reyndar líka.
Margir jesúsa sig heil ósköp yfir því að konur og börn skuli notuð í sjálfsmorðsárásum. Það er samt ekki mjög skrítið. Árásir af þessu tagi eru baráttuaðferð sem oft er gripið til. Í fersku minni flestra eru kamikaze flugmennirnir Japönsku. Þetta er aðferð í stríði sem sá veikari beitir ef honum finnst hann fara halloka og ekki eiga á öðru völ. Bretar og Bandaríkjamenn mundu beita þessu sjálfir ef þeir teldu sig þurfa. Heilaþvotturinn sem til þarf væri þeim ekki erfiður.
Eiríkur Bergmann var í silfri Egils í dag að segja frá nýrri bók eftir sig. Mér fannst það sem hann sagði vera afbrigði af því sem oft er sagt. Allir menn eru hvað pólitík snertir í grunninn annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar (og framsóknarmenn eða kratar ef svo vill verkast). Ef menn afneita með öllu ríkjandi orðræðuhefð, sem á Íslandi snýst um fullveldið og vonda útlendinga, þá þurfa þeir að vara sig. Það er erfitt að ná langt í pólitík á Íslandi nema láta orðræðuhefðina og sérstöðu landsins vísa sér veginn. Það er alls ekkert skrítið að hörðustu þjóðrembumenn skuli ýmist vera lengst til hægri eða lengst til vinstri í ýmsum öðrum málum.
Jú, ég hef heyrt að það gangi hálfilla hjá Viðskiptablaðinu.
Athugasemdir
Ég er ósammála þér um að það séu ekki rök fyrir því að taka lyftingatæki af föngum á Litla-Hrauni (þarna kom óvart t fyrir g í „föngum“ -- skrýtið!) að þeir megi ekki verða of sterkir eftir dvölina þar. Einmitt eftir hana hafa þeir gengið helmassaðir beint í handrukkunarstörf eftir dvölina og misþyrmt fólki enn meira í krafti krafta sinna. Annars heyrðist mér meginrökin vera sú að þeir notuðu þessar græjur til þess að berja hver á öðrum meðan þeir voru enn í grjótinu -- og það út af fyrir sig eru kannski næg rök líka.
Sigurður Hreiðar, 2.5.2011 kl. 18:36
Mér finnst afskaplega órökvíst að banna föngum að lyfta lóðum. Ætti þá ekki alveg eins að banna þeim að læra. Þekkingu er auðvelt að misnota. Séu þeir að grýta lóðum í hvern annan eru það önnur rök en ég heyrði fyrst. Hvað með þá sem gjarnan vildu lyfta lóðum en ætluðu ekki að gerast handrukkarar? Hvers vegna ekki fyrir lögregluna að snúa sér að handrukkuninni sjálfri?
Sæmundur Bjarnason, 2.5.2011 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.