1342 - Um Hriflu-Jónas og fleiri

egoglilliGamla myndin.
Þetta sýnist mér vera ég sjálfur ásamt Ingvari Christiansen. Af hverju ég held fyrir augun veit ég ekki.

Við nánari athugun á myndinni frá í gær sýnist mér að sá sem er að horfa á Sigga Þorsteins og Árna Helgason skylmast sé hugsanlega hvorki Mári Mikk né Jón bensín heldur geti verið um Sigga Jóns (bróður Ásgeirs) að ræða.

Merkilegar myndir sem Heiðdís Gunnarsdóttir setti á fésbókina í dag. Búinn að skoða þær vel og vandlega. Kalli Jóhanns skrifaði mér líka bréf á fésbókinni en ég er búinn að vera svolítið í sambandi við hann þar. Ég hef aftur á móti komið mér upp þeim sið að mjatla út þeim myndum sem ég á (sem eru hvorki margar né merkilegar) með því að setja þær smám saman á Moggabloggið mitt. Það má líka skoða þær þar, án þess að láta bloggið flækjast fyrir sér, eftir að ég er búinn að flytja þær úr „óflokkaða" albúminu.

Þó ég sé mesti rati við alla matargerð hef ég alveg skoðun á því hvað mér þykir gott. Af einhverjum ástæðum finnst mér gott (eða gotterí) ekkert séstaklega gott. Allsekki vont samt og sykur allur alveg ágætur. Sennilega hefur verið alin upp í mér sykurfíkn þegar ég var lítill. Man að ég var sífellt að fá mér sykurmola þegar ég var krakki. Þar kom mér málfræðikunnáttan vel því ég sagði jafnan: „Mamma, má ég fá mola?" og svarið var oftast já og þá tók ég auðvitað tvo eða fleiri.

Mér þótti sá reykti fiskur (aðallega ýsa) sem á boðstólum var í mínu ungdæmi frekar vondur. Aftur á móti þótti mér svokallaður sjólax (reyktur ufsi - held ég) alveg ágætur ofan á brauð. Best var að hann væri alveg löðrandi í matarolíu. Fetaostur þekktist ekki þá (bara 30 og 45 prósent ostur) en núna þykir mér hann eiginlega bestur osta. Sennilega er það vegna olíunnar.

Lengi má bollaleggja um mat og matargerð en það er ekki minn tebolli ef svo má segja. Þrátt fyrir allt sykurátið er það ekki fyrr en nú á síðustu árum sem ég hef komið mér upp almennilegri ístru.

Man vel eftir bók Hriflu-Jónasar um knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson. Það var áður en Albert fór að skipta sér af stjórnmálum og þótti einkennilegt að þekktasti stjórnmálamaður landsins væri að skrifa bók um frægasta íþróttamanninn. En svona var Jónas. Sískrifandi og þekkti alla. Albert hafði líka gengið í Samvinnuskólann hjá honum.

Hef ekki lesið ævisögu Jónasar sem er í þremur bindum og eftir Guðjón Friðriksson. Ýmislegt hef ég samt lesið um hann. Guðjón hefur einkum þurft að hemja sig því nóg hefur hann haft af efni. Guðjón er frægastur núlifandi ævisagnaritara hér á landi en ég man líka vel eftir bókum Gylfa Gröndal. Þær voru mjög góðar.

Þegar Almannavarnir Íslands voru upphaflega stofnaðar var eitt af þeirra fyrstu verkum að byggja veglega geymsluskemmu og koma þar fyrir ýmsum björgunarbúnaði svo sem teppum og ýmsu fleiru í stórum stíl. Svo kom rigning og í þeim vatnavöxtum sem þá urðu fór vegurinn heimað skemmunni í sundur svo enginn komst þangað nema fuglinn fljúgandi. Þetta þótti sumum sniðugt.

Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri er yfirleitt fremur orðljótur á sínu bloggi og fullyrðingasamur. Ekki er þó vafi að oft ratast kjöftugum satt á munn. Því fer samt fjarri að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Pólitískt séð er hann þó vinstri mönnum mjög þarfur vegna þess að hann fær talsverða athygli. Skrifar mikið á sitt blogg. Næstum eingöngu um pólitík, nýtur fornar frægðar og er duglegur að koma sér á framfæri. Hatur hans á öllu sem Bandarískt er virðist vera næstum sjúklegt og skrif hans eru ævinlega á neikvæðum nótum.

Les stundum blogg Páls Vilhjálmssonar sem mótvægi gegn söngnum í Jónasi. Páll reynir að jónasast eins og hann getur en talar úr talsvert annarri skúffu en hann. Páll þrífst á hrósi Davíðs Oddssonar og er á flestan hátt miklu meiri áróðursmaður en blaðamaður sem hann þó þykist vera.

Svo einkennilegt sem það er tala nei-sinnar meira en andstæðingar þeirra um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem þeir sigruðu eftirminnilega í. Ég greiddi jáinu atkvæði mitt en er ekkert sérlega áfjáður í að halda áfram að ræða Icesave. Nóg annað er til að tala um. Eins og margir fleiri hef ég talsverðar áhyggjur af ríkisstjórninni. Þó Jóhanna og Steingrímur láti drýgindalega hljóta þau að vera áhyggjufull þessa dagana. LÍÚ-mennirnir hafa þó látið afhjúpa sig eftirminnilega. Svo eftirminnilega að það gæti vel hjálpað ríkisstjórninni til að lifa talsverðan tíma ennþá.

IMG 5201Mosavaxinn steinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kom einu sinni í geymsluna hjá almannavörnum, var að fara með slatta af skóflum þangað. Man sérstaklega eftir að þar voru staflar af líkkistum í geymslu þar.

Benni 26.4.2011 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband