1337 - Rafritið

aflraunGamla myndin
er sennilega frá sömu skólaskemmtun og ég birti hljómsveitarmyndina frá um daginn. Ég veit ekki hver þetta er sem er svona rosalega sterkur.

Mér finnst líklegt að ég hasist fljótt upp á því að birta gamlar myndir á hverjum degi. Samt fer það nú eftir því hvað ég verð duglegur við að skanna og þess háttar. Raðaði myndum dálítið í dag og setti myndir sem voru í albúminu sem heitir „Óflokkað" í önnur albúm. Mest fór auðvitað í albúmið „Ýmislegt - búið að birta".

Sem minnir mig á söguna sem er alveg sönn og fjallar um það að einhverju sinni var Hafdís að hjálpa okkur að taka til og settum við ýmsa pappíra í viðeigandi kassa sem merktir voru vel og vandlega. Hún þurfti svo nokkru seinna á einhverjum pappírum að halda og ég fann þá auðvitað í kassanum sem var merktur „Ýmislegt og fleira".

Morgunblaðsmenn ráku á sínum tíma Sigmund eftir að hann hafði teiknað lengi fyrir þá. Sá sem teiknar fyrir þá núna hneykslar marga heyrist mér. Tvær myndir kannast ég við að hafa séð eftir hann. Á annarri þeirra er Siv Friðleifsdóttir víst að falbjóða eitthvað. Blíðu sína sýnist sumum. Hin myndin virðist eiga að vera af Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími Sigfússyni í gervum Hitlers og Mussolinis. Mér finnst ástæðulaust að hneykslast á þessum myndum en um smekk þeirra sem ákveða hvaða myndir skuli birta má endalaust deila. Líka er athugunarefni hver græðir á birtingu mynda sem þessara.

Frá því í júlí 1993 og þar til í júní 1996 stóð ég að útgáfu tímaritsins „Rafritið". Alls komu út af því blaði ein 16 tölublöð og er þau að finna á vefsetri Netútgáfunnar sem segja má að tekið hafi við af Rafritinu því efni þangað settum við upp á árunum 1997 til 2001. Hafdís Rósa html-aði t.d. allt Rafritið.

Eftirfarandi er úr því ágæta riti:

Íslendingar fá ókeypis aðgang að Inernetinu.

Íslendingum mun opnast ókeypis aðgangur að gagnanetinu Internet frá og með 25. nóvember n.k. Gagnanetið sem er kostað af bandarísku ríkisstjórninni hefur 15 milljónir notenda víða um heim og fjölgar þeim um eina milljón á mánuði.

Allir helstu háskólar í veröldinni ásamt milljónum fyrirtækja og einstaklinga eru tengdir Internet gagnanetinu. Þeir aðilar sem fá aðgang að netinu geta miðlað upplýsingum sín á milli í því sér að kostnaðarlausu. til viðbótar opnast aðgangur að þúsundum gagnagrunna þar sem t.d. má fá upplýsingar frá verðbréfamörkuðum, vísindaleg gögn eða upplýsingar um íþróttaviðburði. Með Internet er upplýsingum miðlað um allan heim í þeim tilgangi að auka framleiðni og skapa meiri skilning milli þjóða.

Samkvæmt upplýsingum International Internet Association hafa verið takmarkanir á gagnaflutningslínum til Íslands og erfiðleikar á tengingum. Hafa einungis rannsóknarstofnanir og fyrirtæki haft efni á að greiða fyrir aðgang að gagnanetinu. Markmið Internet er hins vegar að opna sem flestum aðgang að upplýsingum og hugmyndum án tillits til stöðu eða efnahags. Þetta markmið hefur nú náðst fram hér á landi og hefur Internet tilkynnt að fjármunir hafi fengist til að opna öllum Íslendingum ókeypis aðgagng að gagnanetinu frá 25. nóvember. Allir sem hafa yfir að ráða módaldi geta fengið aðgang með því að hringja í tiltekið númer í Washington. Notendur þurfa aðeins að skrá sig og óska eftir aðgagngsnúmeri. Hægt er að óska eftir númerinu með því að senda fax í nr. (202)387-5446 eða hringja í síma (202)387-5445. Nokkur töf kanna þó að verða á afgreiðslu þar sem búist er við miklum fjölda beiðna um lykilorð, segir í frétt frá Internet.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 28. október 1993.

Já, þetta er furðufréttin úr Mogganum. Hún vakti talsverð viðbrögð á ráðstefnunni ismennt.almenn á Íslenska Menntanetinu og einhver skrifaði þar að hann hefði talað við blaðamanninn sem skrifaði greinina og sá hefði lofað leiðréttingu og ítarlegri umfjöllun. Mér vitanlega hefur sú leiðrétting ekki birst ennþá.

Ég er nú enginn sérfræðingur í málefnum Internets, en veit þó að hagstæðara er að tengjast því í gegnum Íslenska Menntanetið en að hringja í eitthvert númer í Washington!!

Annars er geysilega mikið að gerast í málefnum Internet um þessar mundir. Fjölgun notenda er gífurleg um allan heim og æ erfiðara verður að halda viðskiptahagsmunum og auglýsingamennsku frá netinu, en frá fornu fari hefur verið amast við slíku.

Fyrir nokkrum mánuðum póstaði ég á ismennt.almenn langa grein um Internet sem kom frá Associated Press og fyrir fáeinum vikum var forsíðugreinin í Newsweek um Internet.

Starfsemi þessa furðulega fyrirbæris sem Internet vissulega er vekur æ meiri athygli meðal almennings og ég hef reyslu fyrir því að margir halda mann beinlínis ljúga þegar verið er að lýsa þeim möguleikum sem netið býr yfir og hve lítill kostnaður fylgir því í raun að nýta sér þá.

Mín skoðun er að Internet muni halda áfram að vaxa næstu ár og innan skamms muni viðskiptaaðilar smám saman leggja það undir sig. Það þarf þó alls ekki að þýða nein endalok þeirrar starfsemi sem nú fer þar fram en áreiðanlega mun margt breytast. Það verður gaman að fylgjast með þeirri byltingu sem stóraukin og sífellt almennari notkun Internets eða annarra hliðstæðra alþjóðlegra tölvukerfa á eftir að valda á mörgum sviðum á næstu árum.

IMG 5178Já, þetta er rusl. Bölvað rusl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki ný bóla að Morgunblaðið falsi staðreyndir.
Það er annars gaman að líta til baka. Þetta hefur veroið ör þróun.
Hvernig verður framtíðin? Tölvur að færast að hluta í símana?

Guðmundur Bjarnason 21.4.2011 kl. 09:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Guðmundur. Ég hef einmitt verið að glugga svolítið í gömul Rafrit. Það er margt stórfyndið þar. Einhverntíma fer maður að lesa gömul blogg.

Sæmundur Bjarnason, 21.4.2011 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband