Ellefta blogg

Því hefur verið mikið á lofti haldið að lýðræði á landinu eflist með bloggbylgjunni sem nú gengur yfir. Ég er ekki svo viss um að hinn skrifandi lýður ráði svo miklu. Það er skipulag það sem komist hefur á varðandi valdstjórnina og lagagerðina sem mestu ræður um lýðræðið. Stjórnmálamenn ráða þar mestu og ef til vill er það ekki óeðlilegt. Mér finnst aftur á móti óeðlilegt að Alþingismenn séu að skipta sér að stjórnarskrá lýðveldisins. Margt í henni snýr einkum að starfsskilyrðum þeirra og þeir eru allra manna verst fallnir til að fjalla um það. En hver á þá að fjalla um stjórnarskrána? Kannski væri raunhæfast að kalla til stjórnlagaþing. Og hverjir ættu þá að sitja á því? Ekki veit ég það og eflaust verð ég ekki spurður. Ýmislegt er þó hægt að láta sér detta í hug í því sambandi.

Ég minntist á bloggbylgjuna hér rétt áðan. Ekki veit ég hvort henni er að linna en mér finnst hún að mörgu leyti hafa risið hærra nú að undanförnu en verið hefur. Hún er samt alls ekki nýtilkomin og ég hef fylgst með bloggskrifum a.m.k. síðan laust fyrir síðustu aldamót. Skribentar á því sviði koma og fara og þó margir byrji og það jafnvel með miklum hvelli þá hafa þeir lengst af verið næstum jafnmargir sem hætta. Ég hef hingað til ekki skrifað blogg sjálfur þó ég hafi að sjálfsögðu ýmislegt að segja eins og flestir.

Ég hef mikinn áhuga á réttritun og þykist skrifa nokkuð í samræmi við viðurkennda staðla í því efni, þó ég sé vitanlega ekki óskeikull í þeim efnum. Ég er líka eflaust  fordómafullur gagnvart þeim málum og má mjög gæta mín að líta ekki niður á þá sem eru í vandræðum með slíkt. Með netvæðingunni jókst mjög sá fjöldi manna sem skrifaði opinberlega. Mjög margir þeirra eru illa skrifandi og er það auðvitað að vonum. Mér finnst þó áberandi hve málkennd og réttritun hefur hrakað í opinberum fjölmiðlum. Kannski er það einkum vegna þess að miklu fleiri skrifa í þá en áður var, en samt er þetta óttalega pirrandi á stundum. Einn er sá maður sem stendur ágætlega vaktina varðandi réttritun og skýra hugsun í fjölmiðlum og lætur fjölmiðlamenn gjarnan heyra það þegar vitleysan í þeim gengur úr hófi. Þetta er Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari á Akureyri. (gúgla það, því ég held að hann sé ekki á Moggablogginu þó margir séu þar - kann ekki að linka sjálfur)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband