1288 - Kjöt í pottinn

Það kom fram í athugasemdum við blogg mitt um daginn að ekki kannast allir lesendur við leikinn „kjöt í pottinn" og kom það mér á óvart. Þessi leikur var mjög algengur og mikið stundaður þegar ég var að alast upp. 

Leikurinn hófst með því að dreginn var hringur á jörðina með spýtu og var það potturinn. Hringurinn þurfti að vera nógu stór til að rúma alla sem tóku þátt í leiknum. Síðan þurfti að velja einhverja úr hópnum til að „vera hann" og veiða í pottinn. Þeir þurftu yfirleitt að vera sæmilega fljótir að hlaupa. Ekki þýddi annað en hafa þá sem „voru hann" tvo eða fleiri ef þátttakendur voru margir. Allir þeir sem ekki „voru hann" voru semsagt „úti".

Leikurinn byrjaði með því að þeir sem voru hann klukkuðu þá sem auðveldast var að ná. Urðu þeir þá að kjöti og máttu við svo búið fara í pottinn og hírast þar. Þeir sem úti voru áttu síðan að gæta þess að vera ekki klukkaðir og reyna jafnframt að frelsa þá sem komnir voru í pottinn.

Hvað er að vera klukkaður? Kynni einhver að spyrja. Venjulega var það að ná einhverjum á hlaupum, koma við hann og segja „klukk". Ég er ekki frá því að átt hafi í þessum leik, þegar einhver náðist og var klukkaður, að segja „kjöt í pott". En því var samt alls ekki stranglega framfylgt.

Frelsun úr pottinum fór þannig fram að einhver sem úti var reyndi að slá á hendi einhvers í pottinum en þeir voru auðvitað með útréttar hendur og ólmir í að láta frelsa sig. Tækist það var sá hinn sami frjáls og kominn aftur í útiliðið. Slíkt var samt hættulegt því pottsins var gætt.

Leiknum lauk síðan með því að þeir sem voru hann tókst að ná öllum í pottinn sinn eða ekki. Gætu þeir það ekki gáfust þeir einfaldlega upp og aðrir tóku við.

Sto var einfaldlega þannig að bolta var hent eitthvert og kallað „upp fyrir ??? (einhverjum í leiknum) Þegar boltinn var gripinn átti að segja „sto" og áttu þá allir að stoppa þar sem þeir voru staddir og ef sá sem var með boltann gat hent í einhvern fékk sá hinn sami mínusstig en annars sá sem henti. Líka var hægt að henda boltanum eitthvert og segja: „upp fyrir ???" og hlaupa svo í burtu. Bandalög voru oft mynduð og segja mátti „upp á þína". Ef það var samþykkt var boltanum hent til þess sem hafði sagt það og þegar hann greip sagði hann sto en áhættan var þess sem upphaflega hafði boltann.

„Yfir" var þannig að tvö lið voru mynduð og stóðu sitt hvoru megin við hús og síðan var bolta hent yfir. Reglur voru fjölbreyttar og ítarlegar og fór oft mikill tími í að rífast um þær.

Lýsi „yfir" kannski betur seinna og hugsanlega fleiri leikjum.

Ég trúi á upprisu Icesave og eilíft líf. Þetta er mér sagt að Bjarni Ben syngi á hverju kvöldi. Það geri ég líka. Þetta með eilífa lífið er kannski svolítið vafasamt en upprisa Icesave er engin blekking. Það er greinilegt að við komum til með að græða einhver ósköp á þessu fyrirbrigði. Ef við hundskumst ekki til að kjósa rétt í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu er eins víst að gróðinn fari til andskotanna í Bretlandi og Hollandi. Slíkt má auðvitað ekki eiga sér stað svo það er eins gott að kjósa rétt. Verkurin er bara að vita hvað er rétt.

Samkvæmt Moggabloggsupplýsingum eru flettingar hjá mér að nálgast hálfa milljón ef frá upphafi er talið. Mér finnst það allmikið en öðrum kannski ekki. Auðvitað hef ég verið lengi að og það eru ekki ákaflega margir sem hingað slæðast á hverjum degi. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þetta er talið en væri þessu breytt í bókareintök væri ég sennilega ríkur maður og hefði líklega ekki staðið mig jafnvel og meðalútrásarvíkingur í að eyða ósköpunum. Ég hefði samt reynt.

IMG 4724Já, þeir stinga þessir kaktusar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þetta Sæmi. Var engin "borg" í pottleiknum?

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.3.2011 kl. 08:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Svanur Gísli. Bara Pottur, en hann var nokkurs konar "borg" líka því auðvitað var hann miðpunktur leiksins.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2011 kl. 11:53

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að þessu, Sæmundur. Það var sem mig grunaði, að Kjöt í pottinn er nokkurn veginn það sama og mig minnir að kallað væri Laus og bundinn. Var t.d. allnokkuð iðkað þann vetur sem ég var á Skógum, ásamt því að Hlaupa í skarðið. Gat verið bara nokkuð skemmtilegt, hvort tveggja. Mig minnir að Sigrún í Norðurhjáleigu og Magga prestsins væru iðnir forkólfar í svona leikjum, gjarnan á tunglbjörtum kvöldum.

Sigurður Hreiðar, 4.3.2011 kl. 12:16

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, á fallegum vorkvöldum var gaman að fara í leiki eins og "kjöt í pottinn" eða "fallin spýtan". Líka var oft farið í "yfir" og boltanum þá hent yfir skúrinn hjá bakaríinu.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2011 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband