1.3.2011 | 00:33
1285 - Icesave og ESB einu sinni enn
Hér er enn ein vetrarmynd frá Vegamótum. Ég er alveg með dellu fyrir þeim.
Minntist á það um daginn að síminn hefði á sínum tíma ekki náð lengra austur eftir á Suðurlandi en að Eystri-Garðsauka.
Síminn kom til Íslands árið 1906 eins og flestir vita. Hann var tekinn á land við Seyðisfjörð og lagður síðan sem leið lá til Reykjavíkur og farið um landið norðanvert. Landssjóður greiddi þessa símalagningu að fullu. Eftir það áttu þær sveitir sem vildu fá síma að greiða hluta kostnaðarins sjálfar. Þetta þótti Sunnlendingum hið mesta svindl og það var ekki fyrr en 1909 sem sími var lagður austur fyrir fjall. Stjórnin hafði þá náð sínu fram eins og ríkisstjórnir gera jafnan. Þá var síminn lagður um Hellisheiði og Selfoss og allar götur að Eystri-Garðsauka skammt frá Hvolsvelli. Það var svo ekki fyrr en eftir 1920 sem hann komst lengra austur. Fyrst í stað að Vík í Mýrdal en síðan lengra.
Auðvitað væri hægt að skrifa langt mál um hvernig síminn breiddist út um landið en það verður ekki gert hér. Margar bækur hafa verið skrifaðar um það og vísast hér með í þær.
Hlustaði á Pétur Gunnlaugsson á útvarpi Sögu í morgun. Þar var einkum rætt um Icesave. Ef Pétur væri ekki svona æstur er sá möguleiki alveg fyrir hendi að hann gæti sannfært einhverja með málflutningi sínum. Ef þeim upphæðum sem um er deilt væri skipt jafnt milli allra Breta, Íslendinga og Hollendinga yrði hlutur Íslendinga ekki tilfinnanlegur og færa má rök fyrir því að sú lausn væri sanngjörnust.
En hvenær hafa samskipti fólks eða þjóða byggst á sanngirni? Við verðum einfaldlega að reyna að gera okkur í hugarlund hvernig framtíðin verði og haga okkur í samræmi við það. Velja þær leiðir sem við höldum að komi þjóðinni best í framtíðinni. Samvinna við aðrar þjóðir er einfaldlega það sem við verðum að byggja á.
Icesave er fyrir öðrum þjóðum ekkert stórmál og þessvegna er lítil hætta á að hrakspár þeirra rætist sem umfram allt vilja að við samþykkjum sem allra fyrst að borga sem allra mest. Hinsvegar er sú einangrunarstefna og þjóðremba sem andstæðingar ESB og Icesave halda sumir fram, afar hættuleg til lengri tíma litið.
Nú er ég bráðum búinn að blogga 1300 sinnum. Hugsa sér. Ég er líka sífellt að verða hræddari um að ég sé búinn að blogga um hlutina áður. Fréttabloggið er sennilega öruggast en minningabloggið hættulegast hvað þetta snertir. Meðal annars hugsa ég að minningabloggum hjá mér hafi fækkað að undanförnu út af þessu.
Auðvitað á maður ekki að hugsa svona. Það er ekki hundur í hættunni, (eins og stundum er sagt) þó maður bloggi oft um það sama. Mest vorkenni ég þeim sem lesa bloggið mitt reglulega ef þeir þurfa að sæta því að ég sé alltaf að skrifa um það sama. Kannski er hættan lítil sem engin. Fáir taka eftir því þó ég bloggi oft um það sama (á mismunandi hátt - vonandi) og svo er þeim kannski alveg sama.
Ég er ekki að segja að þetta trufli mig verulega. Enn hef ég gaman af að blogga og þess vegna held ég áfram. Kannski er þetta með fækkun minningablogga mest vegna þess að ég er að afsaka það fyrir sjálfum mér hvað þau eru erfið. Það er ekki nóg að muna bara eftir einhverju sem hefur komið fyrir mann. Það þarf að koma því í orð og sem mest án málalenginga. Hvað þarf að útskýra. Hvernig á að útskýra það. Hvernig líður lesandanum. Spurningarnar eru endalausar.
Ég ímynda mér nefnilega að nútímamaðurinn hafi lítið þol gagnvart leiðindaskrifum. Ef málalengingarnar ganga úr hófi hættir hann bara. Nóg er framboðið af lesefni. Munkar á miðöldum hafa kannski átt erfitt með að hugsa sér að svo margar bækur væru til að ekki væri nokkur möguleiki að lesa þær allar.
Yðar hátign, vér lútum yður í auðmýkt.
Athugasemdir
Asíubúar beygja sig alltaf í hnjánum. Kannski vegna þess að þannig var þeim kent að hægja sér.
Gudmundur Bjarnason 1.3.2011 kl. 04:22
Merkilegt, Guðmundur. Þetta eru semsagt ekki asíubúar.
Sæmundur Bjarnason, 1.3.2011 kl. 08:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.