1284 - Að jónasast og hannesa

Hvað sem ákafir Icesave-andstæðingar segja er það að verða ljóst að flestir sem nálægt þessum málum hafa komið og eytt miklum tíma í að kynna sér samninginn sem allra best (alþingismenn meðtaldir), virðast vera þeirrar skoðunar, að affarasælast sé að samþykkja þau samningsdrög sem fyrir liggja. Auðvitað er einhver áhætta því fylgjandi en einnig fylgir því talsverð áhætta að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. mars.

Sagnir eru stundum kenndar við ákveðna menn. Þannig talaði ég um daginn um að jónasast. Varla hefur það farið framhjá mörgum hvaða Jónas ég átti við. Sögnin að hannesa var líka talsvert kunn fyrir nokkru en sennilega eru flestir hættir að nota hana. Sagnir sem svona eru myndaðar held ég að eigi yfirleitt ekki langt líf fyrir höndum. Þó gæti ég trúað að sögnin að jesúsast eða jesúa sig sé alls ekki nýtilkomin.

Sverrir Agnarsson sem eitt sinn vann með mér á Stöð 2 sagði í silfri Egils í dag að enn væri á lífi Líbýumaðurinn sem sleppt var úr skosku fangelsi vegna þess að hann var sagður eiga mjög fáar vikur eftir ólifaðar. Þetta var eini maðurinn að ég held sem nokkru sinni hefur setið inni fyrir Lockerbie-hryðjuverkið. Annars var margt af því sem Sverrir sagði um Gaddafi og Líbýu athyglisvert í meira lagi.

Tvennt finnst mér mest einkennandi eftir að aldurinn fór svolítið að færast yfir mig. Annað er það hve hlutirnir ganga hægt allir saman. Ég hreyfi mig hægar, hugsa jafnvel svolítið hægar og svo mætti lengi telja. Hitt er að ég er áberandi lengur að jafna mig á byltum og hvers kyns skrokkskjóðum en áður fyrr. Þetta veldur því að maður hlífir sér fremur, við allt mögulegt, því ef illa fer geta afleiðingarnar orðið miklu verri en áður var.

IMG 4647Hvað sem sagt verður um húsið sjálft þá eru hurðirnar fínar og það er númer tuttugu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Nei, Íslendingar eiga aldrei að samþykkja ríkisábyrgð á IceSave. Þá er það sagt.

Það er ein ritvilla hjá þér, Sæmundur: Atkvæðagreiðslan fer ekki fram 9. marz, heldur 9. apríl.

Varðandi Lockerbie sprengjumanninn, þá kemur það engum á óvart, að hann sé á lífi, enda var þessi saga með krabbameinið einskær blekking. Hann var látinn laus eftir að ríkisstjórn Gordons Brown gerði samkomulag við Gaddafi fyrir hönd BP, sem hefur olíuborunarsamning við Líbýu og framlenging á þeim samningi var háð því að Lockerbie-hryðjuverkamaðurinn yrði sleppt úr fangelsi. Þetta með krabbameinið var bara fyrirsláttur. Svona eru stjórnmálamenn: Viðskipti ofar mannslífum.

Vendetta, 28.2.2011 kl. 01:37

2 Smámynd: Vendetta

Leiðrétting á málfræðivillu: "... að Lockerbie-hryðjuverkamanninum yrði sleppt úr fangelsi".

Vendetta, 28.2.2011 kl. 01:39

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Auðvitað er þetta rétt hjá þér Vendetta með mánuðinn. Skil ekkert í sjálfum mér. Man núna að þetta með Lockerbie-lygina hefur svosem komið fram áður þó ég væri búinn að gleyma því.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2011 kl. 08:17

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég mun ekki samþykkja þessar drápsklyfjar á börnin mín og barnabörn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2011 kl. 12:45

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvað er fólk að tala um drápsklifjar? Þetta Icesave er bara skiptimint.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.2.2011 kl. 17:10

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Drápsklyfjar eða ekki drápsklyfjar. Það er verst að við vitum það ekki. Þingmennirnir okkar hafa velt þessu máli mikið fyrir sér og komist að niðurstöðu. Við getur ekki alltaf vantreyst þeim til alls.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2011 kl. 18:57

7 Smámynd: Vendetta

"Þingmennirnir okkar hafa velt þessu máli mikið fyrir sér og komist að niðurstöðu. Við getur ekki alltaf vantreyst þeim til alls."

Þeim er treystandi.

Vendetta, 28.2.2011 kl. 21:42

8 Smámynd: Vendetta

Leiðrétting: Það átti auðvitað að standa: "Þeim er ekki treystandi!". Ekki-takkinn á lyklaborðinu bilaði.

Vendetta, 28.2.2011 kl. 21:44

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en Vendetta. Þeir eru ekki alvitlausir þó því sé oft haldið fram. Auðvitað er þeim ekki treystandi alltaf en stundum má maður til. Sérstaklega þegar maður getur sætt sig við skoðanir þeirra.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2011 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband