1282 - Krumminn á skjánum

Svo virðist sem reynt verði að fá þá sem ekki vilja kafa of djúpt í Icesave-málið til að trúa því að í raun snúist þjóðaratkvæðagreiðslan sem framundan er um aðild að ESB. Líka á að reyna að virkja alla þá andstöðu við stjórnina sem finnanleg er, á hvern hátt sem hún er tilkomin. Þó er alls ekki víst að andstæðingum Icesave takist að fá almenning til að fallast á sínar skýringar, einkum vegna sinnaskipta allmargra sjálfstæðisþingmanna. Svo eru öfgamennirnir þegar búnir að tapa í stjórnlagaþingsmálinu og þannig er ekki útilokað að Jóhanna hafi sitt fram að lokum. Ekki meira um stjórnmál að sinni.

Nú væri upplagt að snúa sér að Colonel Gaddafi ef ekki væri búið að segja flest sem segja þarf um hann. Hann hefur það umfram Hitler að þurfa ekki að láta hermenn sína drepa eigin landsmenn. Málaliðarnir sjá um það. En ég hef þá trú að valt sé að treysta þeim.

Nú er sagt að lóan sé komin. Ég heyrði bara í krumma á morgungöngunni í morgun.

Krumminn á skjánum
kallar hann inn:
„Gef mér bita af borði þínu
bóndi góður minn."
Bóndi svarar býsna reiður:
„Burtu farðu krummi leiður.
Ljótur ertu á tánum.
Krumminn á skjánum."

Þessi þula kom mér þá í hug. Kannski er hún í raun allt öðruvísi en svona man ég hana. Man að mér fannst alltaf simpilt hjá bóndanum að vera að hallmæla krumma vegna tánna.

Já, Sigurður þetta er þunnur þrettándi, en eitthvað verður undan að láta þegar markmiðið er að blogga daglega hvort sem maður hefur eitthvað að segja eða ekki.

IMG 4590Aldan kemur og tekur fólkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill Sæmundur.

Ekki skulum við rífast neitt um pólitík, en mig minnir að fjórða línan hafi verið styttri. Sem sé:

"bóndi minn". (Í minni útgáfu er iiiii, í bóndiiii, sungið gríðarlega lengi).

Þetta gætum við svo gert okkur að sundurlyndi áratugum saman. Mér finnst þó aðallega skemmtilegt að til skuli vera mismunandi útgáfur af svo þjóðþekktum smávísum.

Hlýjar kveðjur - Jón Dan.

Jón Dan 26.2.2011 kl. 00:39

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jón. Skv. stuttlegri og óvísindalegri könnun á youtube er það rétt hjá þér að algenara er að sleppa "góður" í fjórðu línu og þriðja síðasta línan virðist hafa fallið niður "Líst mér af þér lítill heiður". Um þetta má þó eflaust deila.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2011 kl. 08:46

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hef líka rekið mig á að furðulegt er hve margar algengar vísur eru til í mörgum útgáfum.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2011 kl. 08:48

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sigurður? Dálítið vítt ávarp.

Sigurður Hreiðar, 26.2.2011 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband