1250 - Alþingismenn og bloggarar

Ég legg nokkuð að jöfnu hávaða þann sem er í þingmönnum flestum eða öllum í ræðustól alþingis og bloggurum langflestum. Þetta eru einfaldlega málfundatilburðir og alls ekki fólki til sóma að láta svona. Líklega vinna þingmenn miklu betur þar sem fjölmiðlaljósið skín ekki eins skært á þá og í venjulegum umræðum. Þessu hefur oft verið haldið fram í blaðagreinum og er sennilega rétt. 

Bloggarar langflestir eru líka ágætisfólk þó það missi sig svolítið í predikunarstól bloggsins. Ómar Ragnarsson er einn af þeim fáu sem ég hef orðið var við að stilli sig um stóru orðin. Flestir aðrir virðast halda að því orðljótari sem þeir eru þeim mun meira sé að marka þá.

Virðing alþingis gæti tekið framförum ef hætt væri útsendingum frá þingfundum eða teknar upp útsendingar frá nefndarfundum einnig. Mæli frekar með því síðarnefnda því allt laumuspil er af hinu illa.

Var eitthvað að kvarta yfir því um daginn að fésbókin væri ekki eins og bloggið. Hún er nauðsynleg samt því auðvitað nenna ekki allir að blogga. Margt er hægt að gera á fésbókinni sem ekki er hægt að gera annars staðar. Samt þarf að byrja á því að taka tölvur í sátt og ekki gera allir það. Það kjósa ekki einu sinni allir.

Tók dálítinn þátt í skáklífi forðum daga. Þá vildi þaðhenda að menn urðu bridsinum að bráð. Við því var ekkert að gera. Svipað finnst mér vera með fésbókina. Sumir sem voru góðir í blogginu urðu henni að bráð. Annars er ég að mestu hættur að lesa blogg annarra og er það skaði því þar er mörg gullkornin að finna. Jafnvel fleiri en í svokölluðum fjölmiðlum sem gætu verið miklu betri en þeir eru.

Dreymdi í nótt sem leið að djöflast var á dyrabjöllunni og ég einn heima. Berfættur. Gekk illa að komast í sokkana. Komst ekki nema með góðu móti nema í annan og fór þannig til dyra. Þar voru þá tveir menn frá Orkuveitunni til að rukka mig og sögðust gefa mér einhvern ákveðinn frest til að gera upp mín mál. Ekki voru þetta neinir handrukkarar. Þegar þeir voru farnir skoðaði ég bréfið sem þeir skildu eftir en gat ómögulega komist að því hve mikið ég skuldaði þessu góða fyrirtæki og þótti það slæmt.

IMG 4030Allt er skreytt nútildags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband