1247 - Þingrof o.fl.

Í stjórnmálaumræðu er gjarnan reynt að auka viðsjár milli landsbyggðar og þéttbýlis. Einkum er það reynt með því að snúa tölum á haus og leggja saman fjárveitingar á ýmsan hátt til að fá þá útkomu sem óskað er. Þetta er illa gert og þarflaust með öllu. Allir sjá að við eigum að starfa saman og hagur fólks fer ekki aðallega eftir því hvar það býr. Nær er að leita annars staðar að ýmiss konar misrétti og spillingu.

Í kommentakerfinu hjá mér var í gær svolítið rætt um þingrofsheimildir og þess háttar.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ef ríkisstjórnin (í umboði alþingis) ræður ekki hvenær þing er rofið heldur forsetinn þá búum við ekki við þingræði lengur heldur forsetaræði. Að því leyti sem lýðræði kemur þarna við sögu þá er það greinilega ríkisstjórnarmegin því þingrof kallar á alþingiskosningar fljótlega.

Er samt óneitanlega farinn að velta því fyrir mér hvort ÓRG stjórnist eingöngu af vinsældum og hvort hann ætli virkilega að fara í forsetaframboð einu sinni enn. Ýmislegt stangast á í núverandi stjórnarskrá og hlutverk þess stjórnlagaþings sem saman kemur í febrúar er m.a. að ráða bót á því.

„Drífðu þig nú til Nikkolæ og fáðu þér naglalökk". Sennilega hlusta ég meira á Útvarp Sögu en góðu hófi gegnir. Sú hugmynd hefur hvarflað að mér að svo lengi geti aulýsingar hljómað í eyrum fólks að þær fari að hafa öfug áhrif. Eða engin.

Skorað var á mig í gær að skrifa eitthvað um höfundarréttarmál. Það er guðvelkomið en ég er bara með þeim ósköpum gerður að ég er á móti öllum höfundarrétti. Auðvitað skil ég ósköp vel að hann er grundvöllur allrar listsköpunar í því kerfi sem ríkir á Vesturlöndum. Það er samt ekkert sjálfsagt við hann í eðli sínu.

Það má skrifa margar bækur um höfundarréttarmál og færa ýmis rök bæði með honum og á móti en ekkert held ég að fái sannfært mig um að hann sé annað en tæki til að færa til peninga. Eign er þjófnaður segja kommúnistar og óefnisleg eign er það enn frekar.

IMG 3988Háskólinn í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Þótt það standi í §24 í stjórnarskránni, að forseti geti rofið þing, þá gerir hann það undir venjulegum kringumstæðum ekki fyrr en forsætisráðherra hefur tekið ákvörðun um að efna til kosninga eða biðjast lausnar fyrir ríkisstjórnina án undangenginna kosninga. Þannig að á meðan ríkisstjórnin fær ekki vantrauststillögu á sig samþykkta (kemst í minnihluta) þá ræður forsætissráðherfan ein hvenær þing verður rofið. Hins vegar hefur forsetinn þingrofsvald, en það hefur mjög sjaldan verið notað á lýðveldistímanum gegn óskum ríkisstjórnar og þings (og fyrir lýðveldistímann er mjög líklegt að ríkisstjórinn, Sveinn Björnsson, hafi haft það vald). Mig rámar eitthvað í að það hafi verið gert einu sinni í óþökk alþingismanna, en ég man ekki hver stóð að því (einhvern veginn hef ég á tilfinningunni, að Jónas frá Hriflu hafi þá verið forsætisráðherra, en er ekki viss).

Það getur virzt óþingræðislegt að forsætisráðherrann hafi óskorað vald til að kalla fram hugsanlegt þingrof með því að efna til kosninga, en ef Alþingi hefði það vald, þá myndi aldrei vera samstaða um það, og þá myndu sennilega alltaf líða fjögur ár milli alþingiskosninga.  

Vendetta, 31.12.2010 kl. 00:55

2 identicon

"... ég er bara með þeim ósköpum gerður að ég er á móti öllum höfundarrétti". segir þú félagi góður.

Þar með er svarið fengið. Við erum sem sagt sammála í meginatriðum. Ætla bara að nefna eitt dæmi til gamans: 

Upp úr 1970 vann ég á Amtsbókasafninu á Akureyri. Við þurftum iðulega að bera vaskaföt, bala og fötur til að setja þar sem mest lak hverju sinni. Reyndar hafði vatnið þá farið gegnum heilögustu geymsluna - uppi á lofti þar sem ómetanlegar bækur voru geymdar.

Mér var sagt að arkítektinn hefði svarað því til, að hann hefði alltaf gert sér ljóst að "þakið myndi leka".

En það sel ég svo sem ekki dýrar en ég keypti.

Jon Danielsson 31.12.2010 kl. 01:56

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vendetta, mínar hugmyndir um þingrof eru gjörólíkar þínum. Ég tel að þegar þing er rofið falli umboð þingmanna niður og kjósa verði nýtt þing innan ákveðins frests (sem ég man ekki hve langur er - e.t.v. þrír mánuðir) Aldrei held ég að forseti (eða ríkisstjóri og þess vegna konungur) hafi rofið þing í andstöðu við sitjandi ríkisstjórn. Tel líka að hann mætti það ekki. (athugaðu að ríkisstjórnir og ráðherrar hafa ekki setið á Íslandi nema frá 1904.)

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 05:38

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón, það er gott að við erum sammála um kjarna-atriði í þessu flókna máli. Að öðru leyti vil ég helst bíða með að tjá mig nánar um einstök atriði nema tilefni gefist til.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 05:41

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmi, í stjórnarskránni er beinlínis talað um forsetaræði en ekki þingræði. Þess vegna finnst mér rökrétt að stíga skrefið til fulls og taka upp Ameríska kerfið. Að öllu athuguðu finnst mér að við ættum frekar að halla okkur til vesturs heldur en austurs eða suðausturs. Við erum á flekamótum og meirihluti landsins tilheyrir vesturhelmingnum. Það væru þá helst austfirðirnirr og verri parturinn af norðurlandi sem ættu samleið með ESB

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.12.2010 kl. 07:29

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Iss, ég blæs á plötuskilin. Stjórnarskrána höfum við löngum misskilið eða erum að byrja á því nú. Stjórnlagaþingið á að laga það. Við eru Evrópuþjóð og höfum lengi verið. Bandaríkjamenn eru svo hægrisinnaðir að þeir eru að veslast upp.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 09:31

7 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er hefðin sem segir til um það hvernig stjórnsýslan er framkvæmd hér frekar en lagabókstafurinn.  Það er stærsti gallinn á kerfinu.  Hvort ÓRG brjóti aðra hefð og gefi kost á sér í fimmta kjörtímabil er erfitt að spá um, en ég efast samt um það.  Kannski bíður hann fram á síðustu stundu til að sjá hvort einhverjir frambærilegir bjóði sig fram.

Mér sýnist við vera á svipuðum nótum varðandi höfundarrétt.

Axel Þór Kolbeinsson, 31.12.2010 kl. 12:28

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt, Axel. Það er ýmislegt í stjórnarskránni sem stangast á. Það er fyrst og fremst það sem stjórnarskrárþingið á að lagfæra og ég held að góð samstaða verði um það. Hvernig hún er túlkuð og stjórnsýslan framkvæmd er svo breytilegt.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 13:57

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Bretar eiga enga stjórnarskrá og láta hefðirnar ráða. Spurning hvort nokkur þörf sé fyrir stjórnarskrá meðal þjóða sem eiga ríkar hefðir og þeirra sem láta ætíð hentistefnu ráða frekar en einhverja sáttmála.

Svanur Gísli Þorkelsson, 31.12.2010 kl. 17:58

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hefðirnar virðast ekki ráða nema stundum hér á Íslandi. Mikið er horft til Bandaríkjanna sem eiga stjórnarskrá sem farið er eftir. Túlkunin fer samt eftir tímanum þó menn taki ekki eftir því. Kannski þarf góð stjórnarskrá alltaf að vera í endurskoðun. Svo er líka möguleiki að vera alveg án hennar eins og Bretar. Það er samt ekkert lofsvert í sjálfu sér.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 22:27

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gleðilegt nýtt ár

tek undir með þér hér Sæmi : Við eru Evrópuþjóð og höfum lengi verið. Bandaríkjamenn eru svo hægrisinnaðir að þeir eru að veslast upp.

já og á öðrum stöðum líka en þetta fannst mér ástæða til að leggja áherslu á ;)

Óskar Þorkelsson, 31.12.2010 kl. 23:31

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gleðilegt ár, Óskar.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 23:49

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nenni ekki út að horfa á flugeldana. Hef séð þá svo marga um dagana. Þó man ég vel eftir því þegar ég var að alast upp í Hveragerði að maður vissi uppá hár hvaðan úr þorpinu var von á flugeldum og hve mörgum. Reynar fáum.

Gleðilegt ár, öllsömul.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2010 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband