27.12.2010 | 00:09
1243 - Annar í jólum
Nú er kominn tími til að undirbúa næstu bloggfærslu. Ég er ekki eins og sumir að skella upp bloggi undireins og mér dettur eitthvað í hug. Safna frekar hugdettum saman í heilan dag ef ég get. Snurfusa þær jafnvel svolítið til áður en ég sendi þær út í eterinn. Verst hvað mér dettur fátt í hug. Jú, mér dettur það í hug að sumar hugdettur eru tímabundnar og þá eiga þær tvímælalaust frekar erindi á fésbókina en í bloggið.
Á íslensku er gefið út tímarit sem gól heitir. (Þó skrifað goal) Þetta tímarit fjallar að mér skilst um knattspyrnu og á það vel við. Okkar eðla ríkisútvarp minntist á þetta fyrirbrigði í hádegisfréttum áðan án þess að blikna. (Hvernig blikna útvarpstæki annars?) Auðvitað er samt eðlilegast fyrir þá sem finnst nafnið skítt að láta vera að minnast á það.
Eitt sinn var Jón Múli Árnason að lesa tilkynningar í útvarp allra landsmanna. Þá voru útvarpsauglýsingar lesnar en ekki leiknar. Hann minntist meðal annars á drykkinn hi sé" en hikaði svolítið því honum fannst nafnið undarlegt. Auglýsandinn hefur líklega vonast til að Jón segði hæ-sí" en þannig var hann ekki.
Internetið og tölvutæknin eru þau fyrirbrigði sem breyta munu heiminum. Tækjasjúkt fólk er víðar til en á Vesturlöndum. Digital-tæknin er að leggja undir sig jólagjafamarkaðinn eins og hann leggur sig og aðra markaði einnig. Bækur halda þó áfram að vera vinsælar jólagjafir og eru löngu hættar að hækka í verði. Í mínum huga eru jólin samt enn hátíð ljósanna fremur en tækjanna einkum vegna þess að vorið er byrjað að nálgast þó í hænufetum sé.
Einu sinni sagði Emil Hannes að ég væri einhver besti miðnæturbloggarinn á Moggablogginu. Þannig skildi ég hann að minnsta kosti og hann getur ekkert hlaupið frá því.
Þessvegna meðal annars bíð ég oftast eftir því að miðnættið komi svo ég geti sett upp bloggið mitt og farið að sofa. Líka er mjög gott að hafa þetta svona ef mér tækist ekki að skrifa neitt. Þá hef ég nefnilega uppá heilan dag að hlaupa án þess að rofni mitt daglega blogg.
Þú tókst kannski eftir því, en ég ákvað að skrifa þessa grein í Sæmundarstíl. Það er allt í lagi að vera ósammála um suma hluti sem skipta máli, það þýðir líklega að forsendur okkar séu ólíkar."
Sagði Don Hrannar í athugasemd á sínu bloggi um daginn. Og kvarnirnar fóru á fullt. Hvað skyldi maðurinn eiga við? Er ekki nóg að ég skuli hafa predikað um Sæmundarhátt í bloggi og reynt að vekja athygli á honum? Þarf ég nú að burðast með eigin stíl að auki? Er hann að hæðast að mér? Getur það verið? Nei, ekki Hrannar.
Fór í mína morgungöngu núna seinni partinn og fylgdist með grámyglunni og náttmyrkrinu leggjast eins og möru yfir borgina. Vindurinn þaut í trjátoppunum og þokusúldin gerði allt blautt og óhrjálegt. Samt eru jól.
Tveir Moggabloggarar (og líklega fleiri) sem ég hef fylgst talsvert með og met mikils þeir Friðrik Hansen Guðmundsson verkfræðingur og Guðbjörn Guðbjörnsson óperusöngvari með meiru (sem bloggar líka heil ósköp á Eyjunni) eru nú í fullum gangi við að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Eins og ég skil málið þá á þessi flokkur að vera einhvernsstaðar milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mælt á hægri-vinstri skala. Þó kannski ívið nær Sjálfstæðisflokknum. Friðrik var áður búinn að stofna Norræna íhaldsflokkinn en nýi flokkurinn á að ég held að heita Norræni borgaraflokkurinn. Annars á þetta með nafngiftirnar eftir að koma betur í ljós.
Vinstri-hægri skalinn er líka ansi óljós fyrir mér og ugglaust ýmsum öðrum. Getur samt hjálpað við greiningu. Hefði haldið að okkur Íslendinga vantaði ýmislegt fremur en nýja stjórnmálaflokka. Þó getur þessi tilraun orðið áhugaverð.
Athugasemdir
Ég held það sé full þörf á stofnun nýrra og óspilltra flokka. Ekki bara til að fylla uppí hugmyndafræðilegt tóm heldur beinlínis til að koma í stað fjórflokksins. En þá komum við að meginmálinu sem er, hverjir skipist þar í forgöngu. Það er nefnilega satt að sá veldur mestu sem upphafinu veldur. Eins og nú er háttað hefur fjórflokkurinn hreiðrað svo rækilega um síg í kerfinu að hann er óhræddur við kjósendur og ný framboð. Stjórnlagaþing nær vonandi að gera breytingar sem duga til lýðræðisumbóta en ég er ekki bjartsýnn á að þingið muni hleypa þeim í gegn
Setti þessa vísu inná bloggið hand Gísla Baldvins í gær. Fékk engin viðbrögð svo ég bara endurnýti hana hér hjá þér
Í Valhöll hreyfist varla haus
og vöngum enginn veltir,
því grasrótin er græskulaus
og Guðbjörn bara geltir
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.12.2010 kl. 04:33
Nýjar flokksstofnanir hafa svo oft verið reyndar. Spillinguna og ýmislegt fleira þarf að uppræta og ef það tekst er vel hugsanlegt að laga megi flokkana innanfrá. Bind eins og þú miklar vonir við stjórnlagaþingið og hef ekki sérstakar áhyggjur af að það sem þaðan kemur verði stöðvað ef samkomulag næst. Margt gott er í fjórflokknum falið og ef það slæma verður hreinsað burt kann það að koma í ljós.
Vísan er góð en vísum verður helst að svara með vísum og þar stendur hnífurinn í kúnni. Reyni samt:
Sjálfstæðis- nú sauðurinn
sönginn tuldrar Bjarna.
Allur þar er auðurinn.
Ömurlegt að tarna.
Sæmundur Bjarnason, 27.12.2010 kl. 10:27
Þú ert sjálfsagt ennþá einhver besti miðnæturbloggarinn. Mig minnir þó að ég hafi kallað þig miðnættisbloggara frekar en miðnæturbloggara. Ég hef þó aldrei verið viss um hvort íslenskan bjóði uppá orðið miðnættis-eitthvað, en mér finnst það lýsa betur því sem skellur á sem næst miðnætti. Trausti Jónsson hefur verið að sækja í veðrið sem miðnæturbloggari eða jafnvel miðnættisbloggari, hann er yfirleitt á ferðinnu uppúr klukkan eitt eftir miðnætti þannig að samkeppnin er farinn að aukast á miðnæturmarkaðnum.
Emil Hannes Valgeirsson, 27.12.2010 kl. 13:54
Já, það getur verið Emil Hannes að samkeppnin á miðnæturmarkaðnum sé að aukast en Moggablogginu fer aftur. Nú virðist ekki þurfa nema um 70 vikuinnlit til að komast á 400 listann. Ég man þá tíð þegar ég var að byrja að það þurfti yfir 300 vikuinnlit til að komast á hann. Ég komst þá ekki á hann nema öðru hvoru en svo var mér lyft upp í stórhausa-statusinn og þá var þetta ekkert vandamál.
Sæmundur Bjarnason, 27.12.2010 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.