1235 - Slakað á sultarólinni

Ég er ekki frá því að Íslendingar séu almennt að slaka örlítið á sultarólinni. Nú eru þriðju kreppujólin að nálgast. Erum við ekki að byrja að fjarlægast botninn? Ég held það. Hef aldrei heyrt talað um góðæri fyrr en það hefur verið liðið. Meðan það stendur yfir hef ég alltaf misst af því. Einhverntíma seint á næsta ári kann það að koma í ljós að skýrslur allar þó ófullkomnar séu bendi til þess að við höfum byrjað að rétta svolítið úr kútnum um áramótin sem nú eru yfirvofandi.

Fór aðeins út að labba í morgun (laugardag). Það var um tíuleytið og byrjað að birta og allt. Var með símann minn eins og vanalega en þjónustusvæðið virðist ekki ná útí Nauthólsvík. Nenni ekki að fárast yfir því. Fáir voru á ferli. Aðallega skokkarar og hjólreiðafólk. Mætti þó einum skíðagöngumanni sem var reyndar á hjólaskíðum enda afskaplega lítill snjór.

Icsave-umræðan er mikil þessa dagana. Ég get ekki að því gert að mér finnst málflutningur ríkisstjórnarinnar yfirleitt meira sannfærandi í því máli en málflutningur stjórnarandstöðunnar. Ábyrgðarleysið þar er oft geigvænlegt.

Einhver kom í sjónvarpið um daginn og sagði að lagarök Íslendinga varðandi ábyrgðarsjóð og þess háttar væru sterk. Hinsvegar væru rök varðandi mismunun veik.

Þessu hef ég einmitt alltaf haldið fram. Neyðarlögin svokölluðu voru hrikaleg mistök. Við tryggjum allar innstæður sögðu ráðherrarnir hver um annan þveran og það var samþykkt í neyðarlögunum.

Eftirá kom í ljós að þetta átti ekki að gilda gagnvart Bretum og Hollendingum. Svona mismunun er bara ekki liðin. Við höfum samþykkt að mannréttindasáttmáli Evrópu gildi hérna og þar með viðgengst ekki svona lagað.

Breytingar á röð krafna við gjaldþrot er allt annað mál. Ef inneignir á bankareikningum verða rétthærri en aðrar kröfur getur það leitt til þess að við sleppum betur frá Icesave uppgjörinu en ella ef miðað er við þann samning sem nú er verið að ræða um.

Í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu var séra Eggert Sigfússon í Vogsósum prestur í Selvogi. Þjónaði hann þá vitanlega hinni forríku Strandarkirkju sem þar stendur. Margar sögur eru til um Eggert þennan í Vogsósum og minnist Jón Pálsson talsvert á hann í Austantórum sínum. Hann var einstæðingur og á margan hátt einkennilegur bæði í útliti og háttum en réttsýnn og heiðarlegur svo af bar. Jón Pálsson segir meðal annars frá því þegar hann (Jón) stóð fyrir því að orgel var fengið í Strandarkirkju og er sú frásögn öll hin skemmtilegasta og vel sögð.

Ekki má rugla Eggerti þessum saman við hinn fræga galdraprest sem einnig var kenndur við Vogsósa. Hann fæddist árið 1638 og hét reyndar Eiríkur og var Magnússon.

Þegar ég vann á Stöð 2 var þar starfandi félagsskapur sem fætlingar nefndist. Allir karlmenn gátu orðið fætlingar en kvenfólk ekki. Reynt var að láta þennan félagsskap líta út fyrir að vera afar merkilegan og leyndardómsfullan. Aðeins tvennt var þó einkennilegt við hann. Á fundum urðu allir að vera berfættir á annarri löppinni og þegar einhver var ávarpaður átti að nota eftirnafnið. Fundir voru afar óreglulegir og einkum var þar um vörukynningar að ræða. T.d. man ég eftir að hafa fengið að smakka vín þar. Annars voru fundarsköp og efni fundanna afar laus í reipunum. Ég man varla eftir að hafa farið nema á svona þrjá til fjóra fundi í þessu merka félagi.

Menn verða að vara sig þessa dagana á því að minnast ekki í sínu bloggi á einhverjar ákveðnar (nýútkomnar) bækur eða einhverja hluti sem fást. Þetta gæti haft áhrif á jólapakkainnihald og jafnvel minnkað spenning í einhverjum tilvikum. Ósköp væri desember annars leiðinlegur ef ekki væri jólastandið.

Pælingarnar í athugasemdum síðasta bloggs eru áhugaverðar. Já, ég er að reyna að beina fólki þangað af því þar er hrós um mig og mitt blogg. Þar eru stundum athyglisverðustu hlutirnir og mest hætta á að maður missi af þeim. Í sambandi við skiptingar á bloggum og fólki datt mér í hug að bloggum má gjarnan skipta í flokka eftir því hvort þau eru viðbrögð (jafnvel ósjálfráð taugaviðbrögð) við einhverju áreiti eða bara hugleiðingar bloggarans eitthvað út í loftið.

IMG 3841Garðlist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þú skrifar þinn huga og lætur það duga, það er Sæmundarháttur og takk fyrir það.

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.12.2010 kl. 03:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Svanur Gísli.

Ég hripa minn huga
og hygg muni duga.
Segir hann Svanur
svolítið vanur.

Sæmundur Bjarnason, 19.12.2010 kl. 08:33

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Útum allt í efnisleit
enn á fæti léttur
Á Sæma ellin ekki beit
enda hausinn þéttur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.12.2010 kl. 00:59

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á vísum japlar Jóhannes.
Jólin koma bráðum.
Bloggið mitt hann löngum les
á lúnum Mogga og snjáðum.

Sæmundur Bjarnason, 20.12.2010 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband