16.12.2010 | 00:09
1232 - Icesave og ESB
Það er erfitt að komast hjá því að velta Icesave fyrir sér. Flestir vilja að sjálfsögðu losna við það leiðindamál. Alþingi kemst þó ekki hjá því að taka afstöðu til þess og við sem fjölyrðum um þetta mál á bloggi og annars staðar teljum sjálfum okkur líklega trú um að með því séum við að hjálpa til við að mynda það almenningsálit sem þingmennirnir taka mark á.
Sé ekki betur en það sé að miklu leyti sama fólkið sem myndar þann meirihluta sem vill senda Icesave-málið eins og það leggur sig í einhvern dómstól, með þeirri áhættu sem því fylgir, og er einnig algerlega á móti aðild Íslands að ESB án nánari skoðunar. Ef því verður að ósk sinni með það fyrra, sem vel getur orðið með hjálp ÓRG, þá verður erfiðara að ná fram því síðarnefnda. Eða af hverju ætti fólk að setja sig upp á móti ESB-aðild ef Icesave er komð út í hafsauga? Makríllinn gæti meira að segja hjálpað aðildarsinnum.
Icesave-krónurnar skipta að sjálfsögðu máli en aðildin að ESB getur þó orðið afdrifaríkari til lengri tíma litið. Þannig var með EES-málið. Það er einfalt að vera á móti því núna og engin leið að segja neitt til um hvar við værum á vegi stödd ef það hefði aldrei komið til.
Þór Saari og Lilja Mósesdóttir taka stundum að sér að útskýra flókna hluti fyrir fáfróðum fréttamönnum. Oftast eru þau sammála um vesaldóm ríkisstjórnarinnar og vel að sér um marga hluti. Og Lilja er ekki rassgat hrædd við Séra Steingrím og endar sennilega með því að fella ríkisstjórnina með hjálp Ömma frænda.
Einhverntíma heyrði ég þá sögu að ef Kínverjar (eða voru það kannski Indverjar) tækju uppá því allir sem einn að skeina sig með pappír eins og við höfum vanist hér á Vesturlöndum þá mundu allir skógar á jörðinni fljótlega klárast.
Kannski er þetta eitthvað orðum aukið og ekki kann ég að reikna svona dæmi en minnist einnar sögu um listamanninn og reikningshausinn Sölva Helgason.
Einhverntíma sagði hann frá því að hann hefði farið í keppni við frægan franskan reiknimeistara. Sá franski byrjaði á þvi að reikna barn í svertingjastúlku lengst suður í myrkviðum Afríku. Að því loknu tók Sölvu við og reiknaði og reiknaði allt þar til hann hafði reiknað barnið úr henni aftur með mikilli fyrirhöfn og taldist þar með hafa sigrað í þessari viðureign.
Einu sinni var nóg að fylgjast með helstu bloggurum og blogg-gáttinni, auk þess að hlusta vel og vandlega á fréttir í sem flestum miðlum, til að fá hugmynd um hvað væri efst á Baugi (pun intended). Nú hefur maður varla við að kíkja á ný vefsetur. BrusselLeaks.com og T24.is eru bara þau allra nýjustu sem ég hef séð en kannski hundgömul samt. Á uti.is bloggar Sigrún Davíðsdóttir því sem næst daglega. Ég er svo íhaldssamur að ég er enn að flækjast á Moggablogginu þó flestir séu farnir þaðan. Reyni að auki að hafa skoðun á sem flestu. Það er samt að æra óstöðugan því hlutirnir breytast svo ört. Fésbókin er sennilega svarið við því. Þar má setja inn komment eða skrifa á vegginn sinn allan liðlangan daginn. Ég sem blogga yfirleitt bara einu sinni á dag er að dragast mikið afturúr.
Atkvæðagreiðslan stendur yfir. Það er samþykkt." Segir Ásta Ragnheiður hin röggsama óðamála mjög. Ekki tekst samt að ljúka atkvæðagreiðslunni í tæka tíð. Öll sú nútímatækni sem innleidd hefur verið í þingsali dugar ekki til þess. Finnst fólki í alvöru taka því að vera að sjónvarpa beint svona rugli? Jæja, mér er sama. Get svosem slökkt á þessu.
Ef skammdegisþunglyndi kvelur suma Alþingismenn ættu þeir að reyna að laga það með öðrum ráðum en klukkufikts-frumvörpum. Sumartími var afnuminn hér á Íslandi fyrir allmörgum árum og frekara klukkurugl er óþarfi. Mörg ríki eiga enn við sumartíma að stríða og leggja í talsverðan kostnað tvisvar á ári til að viðhalda því rugli. Dagsbirta getur sem best haft áhrif á líðan fólks og starfsgetu en vel er hægt að ráða bót á því án ríkisrugls.
Stjórn Sólheima í Grímsnesi virðist stunda einskonar fjárkúgun og beitir fötluðu fólki fyrir sig. Þetta er mín skoðun og margra annarra.
Er eftirlitsstofnun EFTA yfir-hæstiréttur Íslands? Ég held ekki. Er nægilegt að ESA (EFTA Surveillance Authority) segi að neyðarlögin svokölluðu séu afsakanleg. Kemur engum öðrum það við?
Nú er ég búinn að skrifa næstum heilt blogg án þess að minnast á WikiLeaks eða stjórnlagaþingið og verð bara að geyma þau mál til morguns.
Athugasemdir
Reyndar var sumartíminn ekki afnuminn heldur er hann í gildi allt árið.
Efasemdarfólki um ágæti EES-samningsins hefur fjölgað undanfarin misseri. Ekki er óeðlilegt að heildaráhrif samningsins og annara hliðarsamninga séu skoðuð m.t.t. 15 ára reynslu og samningar mögulega endurskoðaðir í framhaldinu.
Axel Þór Kolbeinsson, 16.12.2010 kl. 09:57
Þetta með sumartímann er alveg rétt hjá þér, Axel. Hringlið er þó hætt og sami tíminn hafður allt árið. Vissulega er hádegi hér í Reykjavík klukkan að verða hálftvö og það er fullmikið frávik en ekki ástæða samt til breytinga finnst mér. Víða er sá tími sem gildir ekki í samræmi við tímann sem ætti að gilda miðað við hnattstöðu. EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi á sínum tíma en aldrei vitað um stuðning þjóðarinnar við hann. Sennilega var hann þó lítill. Lýðræði er ekkert endilega alltaf best peningalega séð.
Sæmundur Bjarnason, 16.12.2010 kl. 10:22
Mér finnst allt í lagi að skoða tilfærslu tímans m.t.t. hnattstöðu þótt rökin séu góð bæði með og á móti. Ég er þó ekki á því að færa okkur yfir á meginlandstíma (UTC+1) eins og Vilhjálmur Egilsson er hrifinn af. Að vera á milli UTC-1½ til UTC±0 er ásættanlegt.
En að taka upp aðskilda sumar- og vetrartíma tel ég vera vitleysu.
Axel Þór Kolbeinsson, 16.12.2010 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.