1226 - Níumenningarnir o.fl.

Nú eru níumenningarnir aftur komnir á þingpallana. Þessi saga fer að verða langdregin og leiðinleg. Það voru augljós afglöp hjá forsvarsmönnum Alþingis að kæra þá fyrir að trufla störf þingsins. Við því er lágmarksrefsing eins árs fangelsi. Dómstólar landsins munu aldrei þora að dæma níumenningana samkvæmt þeim lagabókstaf. Nær hefði verið að ákæra þá (eða einhverja þeirra) fyrir að valda meiðslum en það var ekki gert.

Mitt blogg virðist svo vinsælt að mönnum finnst taka því að sníkjublogga þar. Það er ný reynsla. Auðvitað var ég ekki að meina það í alvöru að Steini Briem væri að sníkjublogga. (Já, það situr enn í mér)  En hann fældist og ég get ekki gert að því. Gísli hlaupari og þýðandi er ásamt með Páli bróður sínum á meðal þeirra bloggara sem ég dáist mest að. Ég er alltaf að reyna að líkjast þeim. Á samt engan kött, en Gísli notar sinn óspart þegar hann vill vera fyndinn.

Svo er það hún Kristín í Vancouver. Gaman að bloggunum hennar. Annars eru það orðin ákaflega fá blogg sem ég les að staðaldri. Jú, auðvitað les ég það sem konan mín bloggar. Linkur á það er hérna til vinstri. Oft skrifar hún líka á fésbókina en þangað er mínum heimsóknum svolítið að fækka samkvæmt læknisráði. (þ.e.a.s. Jóhanna Magnúsdóttir fyrrum skólastýra ráðlagði mér það.)

Ég er farinn að nota sterkara orðalag en ég er vanur þegar ég ræði um WikiLeaks og þess háttar. Sum atriði í sambandi við frelsi netsins og frelsi stjórnmálabaráttu eru bara þess eðlis að ég get ómögulega gefið afslátt.

Nú er svefntaflan farin að virka á mig og ég tafsa eins og fyllibytta. Stundum er betra að vera aleinn við skrifin útaf tuldrinu. Á alveg eftir að sjá hvort ég get samið fleiri svona örsögur eins og ég gerði í gær. Það var með hálfum huga að ég sendi hana út í eterinn. Hún var nefnilega svo ný. Alveg nýkomin á blað og kannski hefði hún átt eftir að breytast eitthvað og batna við geymslu.

Ef maður stendur með annan fótinn í krapavatni og hinn í sjóðandi vatni líður manni að meðaltali helvíti vel. Þetta er það sem mér datt í hug í sambandi við einhverja meðaltalsfrétt í útvarpinu um tekjur og eyðslu.

Náttbuxurnar hans Gústa - súrrealísk örsaga númer 2.

Hann fann allt í einu að önnur skálmin á náttbuxunum var rennandi blaut.

„Andskotinn," hugsaði hann. „Þá hlýt ég að hafa pissað á mig alveg nýlega." Hann fór í huganum vandlega yfir öll sín síðustu þvaglát.

„Ég hlýt að hafa gert það á meðan ég svaf. Nú verður kerlingarbikkjan á neðri hæðinni alveg snarvitlaus."

Hann fór því úr náttbuxunum og henti þeim útum gluggann. Þetta var á átjándu hæð svo þær svifu fallega til jarðar og Járnmundur spik, sem kom aðvífand í sömu svifum og þær lentu, tók þær strax upp og stakk í vasann.

Af því að þær voru blautar hitnuðu þær eftir svolitla stund og Járnmundi fór að standa.

„Hvar ætli hún Sigríður mélkisa sé? Ég þyrfti endilega á fá mér eitthvað á broddinn núna," hugsaði Járnmundur spik.

En náttbuxurnar voru ekki aldeilis á því. Þær flýttu sér að yfirgefa Járnmund svo þeim yrði ekki kennt um eitthvað ósiðlegt og höfnuðu í rennusteininum.

Þar lágu þær svo alveg þangað til öskukallinn kom og hirti þær.

„Af hverju skyldu þessar náttbuxur liggja hérna?" hugsaði hann með sér. „Þetta eru annars ágætis buxur. Kannski ég gefi Tótu þær. Hún getur kannski gert sér mat úr þeim."

Og öskukallinn tók náttbuxurnar heim með sér. Konu hans og dóttur leist svo vel á buxurnar að þær tóku í sitt hvora skálmina og toguðust á um þær góða stund.

Auðvitað rifnuðu buxurnar að lokum og enduðu svo í ruslafötunni hjá öskukallinum.

Þetta var sagan um náttbuxurnar hans Gústa.

IMG 3881Flott skip.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það eru ýmis mál sem maður getur ekki gefið afsátt af.  Hjá mér er það afstaða mín til frelsis einstaklinga til athafna og vald lýðsins sem æðsti fullveldishafi.  Þegar málum sem maður hefur heitar skoðanir á eru í umræðunni er eðlilegt að sterkari orð falli.

Axel Þór Kolbeinsson, 10.12.2010 kl. 09:04

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt Axel, og mér finnst ekki nærri allir hafa áttað sig á því að tölvurnar og þar með Internetið hafa breytt ýmsu. Fréttamenn virðast t.d. ekki nærri alltaf vanda sig nógu mikið.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2010 kl. 09:55

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég er 100% sammála þér um hroðvirkni fréttamanna, og það var upphafleg ástæða þess að ég byrjaði að blogga; að geta gagnrýnt fréttaflutning.  Varðandi netið og upplýsingaflæði þá verða ríksstjórnir og aðrir sem gagnrýna Wikileaks að átta sig á því að þau munu aldrei geta komið í veg fyrir að slíkir hópar athafni sig.  Ef þau vilja minnka líkurnar á lekum verða þær aðgerðir að gerast hjá þeim sjálfum, eða þá með því að breyta netinu á mjög róttækan hátt sem er ólíklegt að falli góðan jarðveg notenda.

Axel Þór Kolbeinsson, 10.12.2010 kl. 10:02

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt hjá þér Axel. Skilningur á eðli Internetsins er mjög takmarkaður hjá sumum.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband