1225 - Enn um WikiLeaks

Bandaríkjastjórn tókst með klækjabrögðum að fá rússneskan vopnasmyglara framseldan frá Thailandi. Nú dreymir þá um að fá Julian Assange framseldan á svipaðan hátt frá Svíþjóð. Hvernig stendur á því að Salon.com veit um þetta og útvarpar því um alla heimsbyggðina. Nú, það var á WikiLeaks og hefur ekki verið mótmælt. Af hverju getur þetta WikiLeaks ekki farið í burtu og látið okkur í friði er í bænum allra vestrænna sendiráðsstarfsmanna þessa dagana. Skjótum helvítis sendiboðann. Það er vaninn.

Þó ég hafi bæði áhuga á bókum og neti hef ég lítið fylgst með stríði netrisanna Amazon og Google um þær. Allt sem á netinu getur verið verður aðgengilegt þar fyrr eða síðar. Á leiðinni þangað munu einhverjir falla og lítið við því að gera.

Undanfarið hef ég verið í besta stuðinu til að blogga á morgnana og treyst á að geta búið eitthvað til þá. Fyrningar hafa oftast engar verið því ég er svo nýtinn bæði á bloggskrif og annað.

Þegar ég blogga svona snemma morguns læt ég skrifin gerjast allan daginn. Lít á þau öðru hvoru ef ég mögulega má vera að. Stundum breyti ég og bæti eða felli jafnvel niður. Þetta er minn helsti leyndardómur sem bloggara og nú getur WikiLeaks ekki gert sér mat úr honum.

K.S gerir grín að því að ég skuli ræða um eilífðarmálin í einni setningu en Bónuspoka í þeirri næstu. Það er eðlilegt að hann geri það. Það er bara minn stíll að vaða úr einu í annað án þess að taka hlutina alvarlega. Hvað er lífið annað en misheppnað grín?

Svo reynir Svanurinn af koma af stað guðspekilegri sæber-umræðu í athugasemdakerfinu og ég þarf að fylgjast með henni.

Svolítinn lager á ég af myndum dagsins enda eru þær yfirleitt ekki í neinu sambandi við það sem skrifað er um. Heldur ekki hundgamlar.

Mikið er óskapast útaf stjórnlagaþinginu og helst yfir lítilli kjörsókn. Vissulega var hún vonbrigði þeim sem búist höfðu við að hún yrði mikil. Þessi litla kjörsókn getur mögulega haft einhver áhrif á hunsun Alþingis á störfum þingsins en þarf alls ekki að hafa nein áhrif að öðru leyti.

Flestir vonast til og gera ráð fyrir að stjórnlagaþingið standi sig vel en þjóðaratkvæðagreiðslur eru aftur á móti orðnar eitt helsta deiluefni stjórnmálaspekinga. Einkum og sér í lagi þó þær sem ókomnar eru en mögulegar í framtíðinni.

Datt áðan inn í síðari hluta viðtals á sjónvarpsstöðinni N4 við Jóhannes Sigurjónsson fyrrum ritstjóra Víkurfrétta á Húsavík. Hann var þar að tala um blaðaútgáfu úti á landi. Virkilega skemmtilegt viðtal. Minnti mig á tímann þegar við Ásþór og Sigurjón gáfum út Borgarblaðið í Borgarnesi. Veit alltof lítið um sjónvarpsstöðina N4. Vildi gjarnan vita meira. Held hún sé á Akureyri. Akureyringum er sko ekki fisjað saman. Auðvitað er hægt að fara bara beint á n4.is.

Prjónavélin hennar mömmu - súrrealísk örsaga í C-dúr

Prjónavélin hennar mömmu var mikið galdratæki. Það var ekki nóg með að hún prónaði sjálf hvað sem hún var beðin um heldur kunni hún að líka að hella uppá  könnuna og satt að segja var kaffið sem hún gerði virkilega gott. Sennilega var það af því að hún notaði exportið í hófi.

En ég ætlaði nú eiginlega ekkert að tala um prjónavélina heldur kassann sem hún kom í. Það var sko enginn venjulegur kassi. Nei, hann var á fjórum hæðum og á efsta loftinu voru átta herbergi og sérbað með hverju.

En ég ætlaði ekki að tala um kassann heldur girðið sem var strengt utanum hann. Það var svo sterkt að þrír villtir hestar gátu ekki slitið það. Af hverju voru þeir þrír? Það veit ég ekki. En þeir toguðu allir í sömu áttina svo það var ekki von að girðið slitnaði. Hestarnir toguðu og toguðu og á endanum steyptust þeir allir í hafið. Þannig fór um sjóferð þá.

Auðvitað sukku þeir allir til botns. Þar sáu þeir marbendil einn sem spilaði á hörpu úti fyrir kóralkastalanum sínum. Hestarnir fóru þá að gera sig til og á endanum litu þeir ágætlega út. Marbendillinn leit samt ekki við þeim heldur tók hatt sinn og staf og skeiðaði í burtu. Af hverju kunni hann að skeiða? Ætli hestarnir hafi ekki kennt honum það.

Þegar marbendillinn þurfti að anda skaust hann uppá yfirborðið. Þar sá hann fagurlimaða skonnortu. Hún var undir fullum seglum og á leiðinni til Indlands að sækja saffran. Skipstjórinn á skonnortunni átti páfagauk eins og sönnum sjóræningja sæmir. Hann var samt enginn sjóræningi en bara á leiðinni til Indlands að sækja saffran.

Saffrankaupmaðurinn var búinn með allt kryddið sitt en hafði frétt af sölumanni í næstu götu sem seldi talandi prjónavélar. Til hans fór hann og keypti tíu stykki. Þegar skipstjórinn á skonnortunni kom að sækja saffranið sitt taldi kaupmaðurinn hann á að kaupa frekar prjónavélarnar.

Þetta var sagan um prjónavélina hennar mömmu.

IMG 3877Drullupollur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigi skopast ég með eilífðarmál. En blogg þitt er oft ljúflega kímið. Er það góður eiginleiki bloggs og sjaldgæfur meðal íslenskra blogga.

Man ég Passap prjónavél. Góðan grip með langan kjálka og undursamlega mörgum nálum — eða ætli það hafi verið prjónar? Var mér hlýtt í fötum sem gerð voru í þeirri góðu vél og hugsa ég því hlýtt til hennar. Líka til kellinganna sem knúðu vélina til prjónaskaparins því án þeirra lá hún barasta grafkyrr og prjónaði þá ekki svo mikið sem eina lykkju.

K.S. 9.12.2010 kl. 00:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fyrirgefðu K.S.! Ekki ætlaði ég að móðga þig. Tók það bara þannig að þér þætti það verulega skrýtið að ég skyldi fjalla um alvarleg málefni með þessu hætti. Þakka hrósið um bloggið mitt. Þetta með prónavélina var bara skyndileg hugdetta. Sennilega hef ég skrifað þetta sögukríli á svona 10 - 15 mínútum í gærkvöldi. Þurfti lítið að leiðrétta eftirá og ákvað að láta hana flakka svo ég fengi ekki bakþanka.

Sæmundur Bjarnason, 9.12.2010 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband