7.12.2010 | 00:40
1223 - Bloggskrif og önnur skrif
Skrif eru almennt dálítið deildaskipt hjá mér.
Í fyrsta flokk fara bækur. Þá þarf að vanda sig heil ósköp enda hef ég sjaldan látið slíkt frá mér fara og aldrei undir nafni. Það er ekki öllum gefið að skrifa bækur. Lesa þarf próförk mörgum sinnum, útrýma villum því sem næst alveg, setja greinamerki á hárrétta staði o.s.frv.
Í annan flokk fara greinaskrif í blöð. Slíkt hef ég framið í fáein skipti. Þá þarf að vanda sig töluvert en prófarkalestur og greinarmerkjasetning er á ábyrgð blaðsins. Var það a.m.k. í eina tíð. Flest blöð virðast samt vera hætt slíkri smámunasemi núorðið. Þarna inni eru minningargreinar einnig sem að undanförnu virðast hafa farið í eitthvert undarlegt sendibréfsform að stórum hluta. Fjölyrði ekki mikið um þennan flokk enda er hann ansi víðfeðmur.
Í þriðja flokki eru bloggskrif. Því miður eru margir sem vanda sig lítt við bloggskrif en það finnst mér þurfi að gera.
Næst koma svo athugasemdir við blogg. Það eru skrif augnabliksins. Maður lætur það vaða sem manni dettur fyrst í hug og les það varla yfir. Þarna gætu líka flest fésbókarskrif verið og ekki er annað að sjá en sum fréttaskrif séu það einnig þó þau ættu að vera ofar.
Auðvitað eru margs konar önnur skrif til og allskyns undantekningar frá þessum reglum. Þetta er líka bara það sem mér finnst. Aðrir hafa eflaust aðrar skoðanir. Flest skrif ættu að geta fallið í einhvern þessara flokka eða á milli þeirra.
Ég hef líka skoðanir á því hvernig eigi að koma Moggabloggsteljaranum sem hæst og þar með að verða ofarlega á allskyns listum. Beiti sumum slíkra ráða stundum sjálfur en forðast önnur. Sum er ekki hægt að nota endalaust enda er fólk yfirleitt ekki ofarlega á listunum mjög lengi. Vil samt ekki fjölyrða mikið um þessi ráð eða hvernig þeim er beitt enda eru mörg þeirra mjög persónuleg og jafnvel pólitísk.
Fjölmiðlun öll hér á Íslandi hefur aukist mikið að undanförnu. Skiptir þá ekki máli þó útgefin pappírsdagblöð séu orðin færri eða hvort blogg eru talin fjölmiðlun eða ekki. Um leið og fjölmiðlun hefur aukist hefur hún í mörgum tilfellum orðið óvandaðri. Að mörgu leyti hefur netið valdið þessari byltingu. Breytingarnar eru þó alls ekki netinu að kenna eða þakka. Síminn olli mikilli byltingu á Íslandi fyrir rúmum 100 árum og sú breyting er ekki tilkomin vegna símans. Eðli mannsins veldur að sjálfsögðu mestu um þær breytingar sem verða.
Nú hefur mér tekist að skrifa næstum heilt blogg án þess að segja eiginlega nokkuð. Það er listin. Lesendunum þarf að finnast það vel skrifað og sem hnökralausast sem lesið er. Ekki dugir að hrópa sem hæst þó sumir virðist halda það. Fréttaskýringar allskonar geta verið ágætar en venjulega verða slík skrif óvönduð mjög vegna þess að nauðsynlegt er að flýta sér heil ósköp.
Varðandi fjármál, húsnæðismál og þessháttar sem ég hef lítið vit á, vil ég bara segja þetta: Mér finnst langathyglisverðast að fulltrúi lífeyrissjóða er sagður halda því fram að aðeins séu afskrifaðar óinnheimtanlegar kröfur. Voru þá fundahöldin og allt vesenið vikum og mánuðum saman bara sjónarspil og í raun og veru ekki um neitt?
ESB-málið getur vel orðið jafneldfimt hér á Íslandi og hermálið var á sínum tíma. Tímarnir nú eru afar áhugaverðir ekki síður en tímarnir í byrjun síðustu aldar. Herseta bandaríkjamanna eftir síðustu heimsstyrjöld skipti íslenskri þjóð í tvo hluta og olli miklum vandræðum. Það sama getur orðið uppá teningnum í sambandi við ESB-málið hvort heldur sem af inngöngu verður eða ekki. Ekki er víst að þjóðaratkvæðagreiðslur leysi allan vanda.
Niðurlæging þeirra sem þurf að þiggja matargjafir er öllum ljós. Biðraðirnar eftir þeim eru blettur á íslensku þjóðlífi og leysa lítinn vanda. Ég fer ekki ofan af því að sú aðferð sem notuð er við þessar matargjafir er vegna þess að einhverjir vilja hana. Ekki held ég að það séu þeir sem þiggja, né þeir sem úthluta. Eru það þeir sem gefa? Það held ég varla. Eru það þá stjórnvöld? Líklega. Er það borgin eða ríkið? Aðilar þar virðast henda þessu máli á milli sín og vilja enga ábyrgð bera. Skömm þeirra er mikil.
Bloggin hjá mér eru að verða alltof löng. Ég verð að reyna að hemja mig.
Athugasemdir
Er þetta ekki bloggönd?
Hörður Sigurðsson Diego, 7.12.2010 kl. 01:03
Ef naumt verður á munum fylkinga þegar kemur að þjóðatkvæðagreiðslu er ekki ólíklegt að ESB-málið allt verði tilefni til þætna og jafnvel kýtinga. Það gæti jafnvel orðið eldfimara en NATO og herinn á sínum tíma.
Axel Þór Kolbeinsson, 7.12.2010 kl. 10:06
Jú Hörður, eflaust er svo.
Bloggöndin blívur
sem biksvartur hnífur.
Harður er Hörður
sem hagléla örður.
Sæmundur Bjarnason, 7.12.2010 kl. 11:59
Axel, jú það er einmitt svolítil hætta á þvi að deilur um ESB verði talsverðar. Hermálið og NATO-aðild skipti þjóðinni á sínum tíma í fylkingar en svona eftirá séð finnst mér það ekki hafa verið alvarlegt.
Sæmundur Bjarnason, 7.12.2010 kl. 12:02
Bloggskrifin eiga að vera í fyrsta sæti Sæmundur. Það er miklu meiri pressa á dag-bloggurum að koma einhverju af viti frá sér daglega en að liggja yfir bók í marga vetra og geta skrifað hana þegar þér hentar.
ESb málið verður aldrei neitt svipað og NATO var á sínum tíma. Fólk er alveg hætt að nenna að kynna sér pólitík fyrir utan nokkra fréttabloggara. Almenningur situr bara heima og horfir á sjónvarpið, fer ekki einu sinni a kjörstað til að taka þátt í kosningum lengur.
Af hverju eru þessir sem gefa matinn ekki með heimsendingarþjónustu?
Nei, ég bara segi svona:)
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.12.2010 kl. 18:40
Takk Svanur Gísli. Ég tek bloggskrifin sennilega of alvarlega. Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Kannski er þetta rétt hjá þér með ESB. Mér finnst samt sumir sem um þetta mál predika vera alltof orðljótir. Herinn og samskiptin við hann voru hjá mörgum daglegur veruleiki. Matarbiðraðirnar eru kannski að einhverju leyti auglýsing en opinberir aðilar gætu sem best stöðvað þess ósvinnu.
Sæmundur Bjarnason, 7.12.2010 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.