1219 - Að standa í hurðinni

Bloggleti hrjáir mig. Eftir mörg tilhlaup til að komast vel að orði í upphafi bloggs er ég hálftómur. Því skyldi ég vera að gaspra um pólitík og fréttir. Ég er ómarktækur þar og langt á eftir öðrum, því ég er svo seinn að hugsa. Fer kannski sæmilega með íslenskt mál en er enginn hæstiréttur þar eins og mér finnst Eiður Guðnason vilja vera. 

Sumar villur fara verr í mig en aðrar. Get bara ekki að því gert. Ein af þeim villum sem fylla mig jafnan hryllingi er þegar ég sé að ekki er gerður greinarmunur á hurð og dyrum. Eftirfarandi var í fréttafrásögn á visir.is nýlega:

„Þá var vinkonu stúlkunnar varnað inngöngu í herbergið þar sem kynmökin fóru fram en einn af mönnunum stóð í hurðinni og meinaði henni að hafa afskipti af vinkonu sinni."

Samkvæmt mínum málskilningi er alveg útilokað að maðurinn hafi staðið í hurðinni. Hurðin hefði eflaust staðið í honum ef hann hefði reynt að éta hana.

Tvennt er mér einkum uppsigað við í íslenskuaðfinnslum Eiðs Guðnasonar. Hann er of smámunasamur og hann er of hrokafullur í orðalagi.

Kosningum til stjórnlagaþings er nú lokið og ekki er hægt að kvarta undan tíðindalitlum stjórnmálum. Mér leiðist samt mjög sá siður bloggara að taka sem allra sterkast til orða og fordæma hástöfum allt sem miður fer.  

Nú er þriðja árið frá Hruninu mikla hafið. Enn eru menn að glíma við afleiðingar þess og ekki er að sjá að hlutirnir gangi vel. Því fer þó fjarri að við Íslendingar séum almennt komnir á vonarvöl þó svo virðist oft vera miðað við fréttaumfjöllun.

Lífskjör okkar eru kannski lakari en við vonuðum en svipað má segja um allan hinn vestræna heim. Sífelld og viðvarandi útþensla þar hefur stöðvast. Kannski er sú þróun engum til góðs en ekkert er við henni að gera. Endurreisn Íslands eftir hrunið mikla hefði kannski gengið betur ef erfiðleikar okkar væru einstæðir í veröldinni. Svarið við þessum erfiðleikum er ekki að fara í fýlu og loka sig af.

Því er haldið fram í fullri alvöru að Bjarni Benediktsson sem sjálfstæðismenn hafa kjörið sér til forystu sé í hjarta sínu ESB-sinni þó andstaða við ESB hafi verið samþykkt á flokksþingi. Formennskan sé þannig í hans huga mikilvægari en sannfæringin. Einnig er því haldið fram að Vinstri grænir muni ekki styðja inngöngu þegar á reynir. Heldur muni þeir leggja sjálfa sig niður eða skipta einu sinni enn um nafn. Þó afstaðan til ESB skipti flokkana miklu máli er ekki sjálfsagt að sú afstaða skipti sköpum á komandi stjórnlagaþingi.

Möðruvellingurinn Ólafur forseti er sífellt að færast lengra og lengra til vinstri segir Torfi Stefánsson. Þetta held ég að sé ekki alveg rétt. Framsóknarflokkurinn er greinilega ekki neinn vinstri flokkur lengur en ég held að Ólafur hafi alltaf verið „afturhaldskommatittur". Hrunið færði þjóðina alla talsvert til vinstri og Ólafur talar bara núna eins og þjóðin ætlast til.

IMG 3854Veðrun að störfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Maður lokar dyrum með hurð. Dyrnar eru því opið sem hurðin er sett í. Hins vegar kveikir maður ljós með slökkvaranum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.12.2010 kl. 17:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Það er margt skrýtið í kýrhausnum en slökkvarinn er nú líka notaður til slökkva með. Með kveikjara slekkur maður ekkert, er það? (kannski nikótínhungrið??) Annars eru uppáhaldsambögur í þessu eins og öðru og fátt alveg öruggt.

Sæmundur Bjarnason, 3.12.2010 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband