1.12.2010 | 00:10
1217 - Krassandi skrif
Jú, það er rétt. Bloggin hjá mér eru aldrei verulega krassandi. Hvernig skyldi standa á því? Ein ástæðan er sú að ég lifi ekkert sérlega krassandi lífi. Ég er heldur ekki að reyna neitt sérstakt til að gera skrif mín sem mest krassandi. Þeir sem eru að leita að slíku verða að fara annað. Ég skrifa bara nokkurn veginn það sem ég hugsa um og mér dettur í hug. Ef einhverjir nenna að lesa það er það bara gott mál.
Samt hef ég lúmskt gaman af að lesa krassandi bækur. Sú sem ég er að lesa núna er gefin út af Almenna bókafélaginu árið 1990, heitir Blóðugur blekkingaleikur" og fjallar um einræðisherrann Ceausescu í Rúmeníu.
Ef ég hefði lesið þessa bók meðan Ceausescu var enn á lífi hefði ég lagt fremur lítinn trúnað á margt sem í henni stendur. Nú trúi ég flestöllu sem þar er að finna þó atburðir séu oft nokkuð færðir í stílinn. Fyrrverandi yfirmaður rúmensku leyniþjónustunnar er skrifaður fyrir bókinni.
Aftaka Ceausescuhjónanna um jólin árið 1989 er með eftirminnilegustu fjölmiðlaatburðum. Aftaka Saddams Hússein er það einnig. Dauðarefsingar sem slíkar eru jafnan áhugaverðar. Aftökur í nafni laga og réttar hafa alltaf verið mér nokkuð hugleiknar. Slíkt fór síðast fram á Íslandi um 1830 þegar Friðrik og Agnes voru tekin af lífi. Um það hefur eflaust oft verið skrifað og ég hef engan áhuga á að endurtaka það.
Einu sinni (í fremur stuttan tíma þó) voru aftökur í Bandaríkjunum meðal minna helstu áhugamála. Um þau efni má víða fræðast á netinu og ég leitaði mér jafnan upplýsinga þar. Mér hefur alltaf þótt þær ljótur blettur á þjóðlífi Bandaríkjanna.
Kexvísindin sem fram komu í athugasemdum við færslu mína í gær eru áhugaverð. Svonalagað get ég sökkt mér í þó ég hafi engan áhuga á ýmsu öðru sem aðrir hafa mikinn áhuga á.
Hjávísindi öll eru mér fremur á móti skapi þó ég hafi á sínum tíma bragðað og jafnvel borðað í einhverju magni Kákasusgerilinn fræga. Blöskraði mjög fréttafrásögn Sjónvarpsins í gær um bókina sem inniheldur viðtöl við framliðna Sunnlendinga. Það á ekki af Selfyssingum að ganga. Held að ekki fái allar bækur svipaða auglýsingu hjá Sjónvarpinu. Fréttaskott átti þetta eflaust að vera og verði menn þýfgaðir nánar um þetta munu þeir áreiðanlega halda því fram að þetta hafi verið í gríni gert.
Jæja, þá liggur fyrir hverjir komast á stjórnlagaþingið. Líst ekkert illa á þann hóp. Vona bara að þau fari ekki að festa sig of mikið eða hengja í ákveðnar skoðanir áður en þingið hefst. Hafa áreiðanlega lítinn frið fyrir fjölmiðlum með það.
Eitt eiga flestir bloggarar sameiginlegt. Þeim finnst allir aðrir vera tröllheimskir. Lesa aldrei stjórnarskrána og gott ef þeir hugsa. Svona hugsar venjulegt fólk líka um bloggara. Báðir aðilar hafa rangt fyrir sér. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að gáfur fólks séu mun meiri en virðist við fyrstu sýn. Reyndar eru allir fremur vel að sér á einhverju ákveðnu sviði. Jafnt bloggarar sem aðrir.
Þeir frambjóðendur sem valdir voru til stjórnlagaþingsetu eru kannski ekkert gáfaðri en þeir aðrir sem hægt hefði verið að velja, en svona er þetta. Það er búið að kjósa og nú er bara að bíða og fylgjast með tveimur þingum nú seinni hluta vetrar.
Athugasemdir
Best að vera bara maður sjálfur Sæmundur og vera krassandi fyrir sjálfan sig eins og þú. Einfalt og heiðarlegt sko...
Gylfi Gylfason 1.12.2010 kl. 01:38
Takk fyrir innlitið, Gylfi. Já, mér fannst uppreisnin í Rúmeníu krassandi á sínum tíma þó mér finnist sjónvarpið yfirleitt ekki mjög krassandi.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 08:07
Þetta með krassandi eða ekki krassandi er dálítið athyglisvert. Sumt er líkt með leyndarhyggju Ceausescu og leyndarhyggju Bandaríkjanna eins og hún birtist í Wikileaks-skjölunum. Breytingar eiga eflaust eftir að verða en fólkið heimtar brauð og leika eins og Rómverjar sögðu forðum.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 08:31
Hjávísindi er ágætis orð. En er hægt að setja trú á fæðubótarefni og trúnað á framhaldslíf undir sama hatt? Eða varstu kannski ekkert að því? Það er dulítið erfitt að henda reiður á inntakinu þegar þú veður svona úr einu í annað.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.12.2010 kl. 09:35
Viðtöl við framliðna íslendinga, hverskonar vitleysingar kaupa slíka bók; Það getur enginn haft slíka bók í sínum húsum án þess að verða eins og auli
doctore 1.12.2010 kl. 13:00
Það er alls ekki ég sem hef fundið upp orðið "hjávísindi". Hvað eigi að falla undir það er auðvitað túlkunaratriði hverju sinni. Ég hef það á tilfinningunni að ég sé vinstrisinnaðri en þú Jóhannes ef ég á að hjálpa þér að henda reiður á inntakinu í því sem ég skrifa.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 13:12
DoktorE, mér datt strax í hug að þú yrðir ekki hrifinn af þessari tilteknu viðtalsbók. Það var Harry Houdini sem bólusetti mig við miðlum og þess háttar rugli. Er samt að hugsa um að taka þessa bók að láni ef ég sé hana á bókasafninu.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 13:17
Það er í fínu lagi að gefa svona bækur út undir réttum formerkjum, að þetta sé einfaldlega skáldskapur settur upp í þessu formi.
Eru slíkir fyrirvarar í bókinni, eða er hún seld eins og þetta hafi allt saman gerst í raunveruleikanum?
DoctorE 1.12.2010 kl. 13:46
Sé núna að líklega ertu að meina Kákasusgerilinn þegar þú ert að tala um fæðubótarefni, Jóhannes. Sum fæðubótarefni álít ég vera tómt húmbúkk en alls ekki öll. Þetta er yfirgripsmikið efni sem ég þekki ekki vel.
DoctorE, ég veit ekkert um fyrirvara í framlífsbókinni en hún komst í fréttirnar á RUV og selst kannski betur þessvegna. Bókasöfnin eru að ég held skyldug til að kaupa allt sem hægt er að kalla bækur.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 15:15
Já Sæmundur, er þetta ekki kallað fæðubótarefni allt saman? Hvort sem um er að ræða Omega 3 eða Hydroxikött og allt þar á milli. Þetta er allt með miklum endemum hvað fólk lætur blekkja sig í leitinni að skyndilausnum. Og verst er hvað við erum varnarlaus. Ef einhver dirfist að tala gegn þessu er honum umsvifalaust hótað málaferlum því þessi iðnaður veltir milljörðum.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.12.2010 kl. 15:32
Á sama hátt og hlýnun jarðar og áhrif mannsins á hana er endalaust deiluefni og oft á tíðum pólitískt, þá finnst mér fæðubótarefnin vera það líka. Sum fæðubótarefni og vítamín og verkun þeirra finnst mér ekki vera nein hjávísindi en margt er það. Það er endalaust vandamál að vita hverju trúa skal. Ekki er hægt að afneita öllu.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 15:58
Sæmi minn, ég rak inn rass.
Raunamæddur las þitt krass
- og kyngi.
Varstu enn að vefja hass?
Vinstristjórnin meldar pass
- á þingi.
Hilmar Þór Hafsteinsson 1.12.2010 kl. 17:53
Í sæberheimi hefur rass
hann sem ekki þolir krass
eða vinstri stefnu.
Aldrei neitt hann hefur hass
né hikar við að segja pass
við frjálshyggjunni gefnu.
Sæmundur Bjarnason, 1.12.2010 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.