1208 - Nú veit ég hvað ég ætla að skrifa um

Fyrirsagnir og aftur fyrirsagnir. Það eru þær sem trekkja. Ég er viss um að þú lest þetta mest vegna þess að ég segi að þú sjáir ekki eftir því. Svona er ég nú klár. Þessa aðferð get ég að vísu ekki notað mjög oft. Kannski svona tvisvar til þrisvar með svolítið breyttu orðalagi. En kannski luma ég á fleiri aðferðum. Sjáum til.

Já, það má segja að þetta sé ofurlítið auðvaldsblogg. Hef áhyggjur af því að virðast hægrisinnaður mjög. Jú, ég blogga á Moggablogginu og er skyldur Davíð Oddssyni og Bjarna Harðarsyni. Það gerir mig ekki að hægrisinna. Bjarni er meira að segja í vinstri grænum og segist vera vinstrisinnaður. Skrifaði samt á sínum tíma í AMX og ekki ber það vinstrimennsku vitni.

Annars er mér alveg sama hvernig menn eru pólitískt séð. Það er innrætið sem skiptir máli. Pólitíkin er mestmegnis útvortis. 

Svo er margt sinnið sem skinnið. Og skinnin eru mörg. Eins mörg og fólkið sem í þeim er. Og fleiri eru með skinn. Hvar endar þetta? Ég er alltaf á kafi í málsháttum. Reyni að misskilja þá ef hægt er. Oft má saltkjöt liggja. Svo var það hún Bára á Brekkustígnum. Eða var það Brávallagatan? Allavega var það hún Edda Björgvins.

Undarlegt með þessa ESB-umræðu. Það kemst ekki hnífurinn á milli últrahægrisinna og sannfærðra Stalínista þegar kemur að henni. Þá ná þeir saman sem aldrei fyrr. Ekki það að ég haldi að þeir hafi rétt fyrir sér. Held að það sé bara betra að vera einhvers staðar á milli. Og ekkert hættulegt.

Hilmar Þór Hafsteinsson kveður um blogghunda sem eru eins og svín, í athugasemdum við síðasta blogg mitt. Kannski á hann við mig en Moggablogghunda líkar mér yfirleitt vel við. Mér finnst þeir ekkert meiri hundar en aðrir þó margir þeirra hafi kosið að breytast í Eyjuhunda eða eitthvað annað.

Ég er farinn að láta flest flakka á þessu bloggi mínu. Aðallega til að ná sæmilegri lengd á hverjum degi. Finnst að lesendur míni eigi það skilið en veit samt ekkert um hvort þeir kæra sig um það.

Ég fer alltaf svolítið í kross þegar ég sé og heyri minnst á spilið fimbulfamb. Það er nefnilega alveg fyrir hendi að kalla bloggið mitt fimbulfamb. Í hugum flestra er það samt eitthvað neikvætt (eða óskiljanlegt) og auðvitað vil ég ekki að bloggið mitt sé það. Sjálfum finnst mér það jákvæðara en flest annað.

Ég sem ætlaði að skrifa um fyrirsagnir. Sé núna að það hefur alveg farist fyrir. Geri það bara seinna.

Hér gekk heilmikið á í dag. Stórfjölskyldusammenkomst þar sem jólaföndrað var af miklum móð.

Svo skilst mér að Einar Farestveit sé farinn í sveit.

IMG 3767Fossvogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fimmbulfambi = ógnarþrjótur???

Ólafur Sveinsson 22.11.2010 kl. 19:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Orðabók Menningarsjóðs kallar fimbulfamb þvætting, rugl, ráðleysisfálm eða flan. Þar finnst mér neikvæðnin vera yfirgnæfandi. Sjálfum finnst mér orðið ekki endilega vera algjörlega neikvætt eins og það er oftast notað. Mundi t.d. nota orðin uppspuni, orðavaðall, hjal eða eitthvað þannig ekki síður en orðin í Orðabókinni.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2010 kl. 21:55

3 identicon

Fimbulfambi er þá digur,luralegur og klaufskur maður.

Ólafur Sveinsson 22.11.2010 kl. 22:18

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Spilaði Fimulfamb á föstudaginn síðastliðinn. Dóttir mín er "húkt" á því. Hún bíður í mat og síðan er spilað. Galdurinn ,auk þess að geta upp á hvað ehv.  orð þýðir, sem er lesið af spjöldum, að skrifa skýringu sem líklegt er að aðrir spilarar giski á.Ef ehv.giskar á mitt fæ ég 2 stig. Ég er það gömul að ég man sum orðin og græði á því. T.D. kom orðið "Meyjarhland" fyrir á föstud. Þar náði ég í slatta af stigum. Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 22.11.2010 kl. 22:36

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Orðabók Menningarsjóðs segir að fimbulfambi sé erkiheimskingi eða ruglukollur en ég held að það orð sé afar lítið notað.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2010 kl. 23:12

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Spilið fimbulfamb hef ég aldrei spilað. Því hefur samt verið lýst fyrir mér hvernig það er spilað. Held að það sé jafnvel betra að vera með nógu sannfærandi uppspuna, en að þekkja mörg orð.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2010 kl. 23:16

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Það er rétt Sæmundur og gott að montast og miklast af því.

Helga Kristjánsdóttir, 23.11.2010 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband