21.11.2010 | 00:04
1207 - Ofurlítið ofurblogg - a la Svanur Gísli
Hef svolitlar áhyggjur af því að ég er sennilega lítið að bæta mig sem bloggari. Verð að segja það (með grátstafinn í kverkunum og rödd Steingríms Hermannssonar, ef vill). Lesendum mínum fjölgar a.m.k. mjög lítið. Sjálfum finnst mér ég sífellt vera að skána. Kannski eru vinsældir bloggsins yfirhöfuð að minnka og bara gott hjá mér að halda nokkurn vegin sjó.
Auðvitað fyndist mér eðlilegt að blogg mitt yrði sífellt vinsælla og vinsælla en get samt ekki annað en verið ánægður. Man vel eftir þeim tíma þegar ég var að berjast við að fá svona 10 til 20 lesendur á dag. En ég gafst ekki upp. Hélt mínu striki og böðlaðist áfram.
Það er engin furða þó Sigurður Þór láti vel af fésbókinni. Kalli hana jafnvel fasbók (prúð og frjálsleg í fasi, fram nú allir í röð). Það er sama hvað hann skrifar á vegginn sinn hann fær alltaf einhver viðbrögð. Loksins er ég búinn að fatta útaf hverju það er. Fésbókin hentar nefnilega ágætlega ef menn taka sérstöku ástfóstri við ákveðna veggi. Nú er ég farinn að skrifa á vegginn hjá Sigurði (öðru hvoru a.m.k.) og bið lesendur mína að athuga það.
Fyrir allmörgum árum las ég viðtal í einhverju blaði við Ólaf Þórðarson úr Ríó-tríói sem nú liggur þungt haldinn á Borgarspítalanum. Hann hafði þá ekki alls fyrir löngu misst konuna sína og sagði frá því hversu mikil áhrif það hefði haft á sig að halda henni í örmum sér þegar hún dó. Af einhverjum ástæðum sem hugsanlega eru að meira leyti frá skrásetjaranum komin en Ólafi sjálfum er þessi frásögn af dauðanum ein sterkasta minningin um hann sem ég á.
Mér er þessi frásögn eflaust minnisstæðari en ella vegna þess að ég var talsvert mikill aðdáandi Ríó-tríósins meðan það var og hét.
Allt (eða a.m.k. flest) á sér sínar eðlilegu skýringar jafnvel þó manni þyki þær með afbrigðum asnalegar í fyrstu. Hér dettur mér í hug málið með bókina hennar Jónínu Ben. Það getur alveg átt sér sínar eðlegu skýringar að reynt skuli að selja bókina hennar eingöngu og án skilaréttar á bensínsölustöðum en auðvitað býður það heim allskyns ódýrum bröndurum. Það er reyndar einhver önnur bók undir sömu sök seld minnir mig endilega, en get bara ómögulega munað í augnablikinu hver hún er. Þetta er nýjung í bóksölu og alveg hugsanlegt að hún gangi upp.
Man að á sínum tíma voru menn ekki par hrifnir af því að stórmarkaðarnir væru að selja jólabækurnar. Nú er þetta orðið næstum eðlilegt. Minnir að það hafi verið bókabúð Árbæjar (undir stjórn konu sem ég hafði unnið með og var listdansari) sem fann upp á því að bjóða hangikjöt með hverri bók og það þótti fjölmiðlum fyndið. Bóksala er samt ekkert endilega fyndin.
Ríkisútvarpið virðist hafa tekið sig svolítið á í sambandi við stjórnlagaþingið. Held að frambjóðendur flestir hafi sameinast um að átelja það fyrir að reyna að þegja þetta þing í hel.
Veit ekki hverjir geta verið fyrirfram á móti þessari tilraun enda viðurkenna það fáir. Samt sem áður er verið að reyna að telja fólki trú um að það sé svo flókið og viðurhlutamikið að nýta kosningarétt sinn að þessu sinni að best sé að sitja heima.
Það finnst mér rangt. Ég á mér ekki margar óskir heitari einmitt nú en að kjörsóknin um næstu helgi verði góð. Jafnvel mjög góð. Eiginlega finnst mér það skipta meira máli að kjörsóknin verði góð en það hverjir kosnir verða.
Það er engin ástæða til að sniðganga þessar kosningar og eiginlega engin afsökun fyrir því að kjósa ekki. Mér finnst að kjörsóknin ætti að vera meiri að þessu sinni en algengast er í alþingiskosningum og samkvæmt því sem ég las einhvers staðar þarf hún ekki að verða nema 62% til að ná eða fara fram úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Ekki höfðu óánægðu VG-liðarnir erindi sem erfiði. Við því er lítið að gera fyrir þá, en mér finnst lítið leggjast fyrir þá kappa sem allt í einu láta núna eins og sigur hafi unnist en ekki auðmýkjandi tap.
Held að hér sé ekki bannað að taka myndir. A.m.k. er ég ekki hundur.
Athugasemdir
Bloggið er svona eins og marþonhlaup. Það eru þeir þrautseigu sem komast í mark. Fréttabloggararnir fá kannski meiri arhygli dags daglega en ég efast um að þeir eigi fasta lesendur. Varðandi kosningarnar eftir viku þá er ég þeirrar skoðunar að þróa beri örugga aðferð við rafrænar kosningar. Svona persónukosningar eru alltof flóknar til að nota gömlu aðferðina. Hætt er við að margir sitji bara heima. Fyrst okkur er treyst til að skila skattskýrslu á netinu af hverju þá ekki að kjósa á netinu og spara tugi milljóna....Og nei , ég er ekki að tala þessar kosningar niður.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.11.2010 kl. 06:37
Íslendingar vilja alltaf vera með annan fótinn í fortíðinni. Þessar kosningar eru í rauninni ekki rafrænar heldur bara talningin og það er vegna þess að úrvinnslan er svo flókin og yfirgripsmikil. Kosningin er sennilega tímafrek og það er asnalegt að láta fólk þurfa að læra (eða skrifa hjá sér) einhverjar talnarunur. Fullkomlega rafrænar kosningar eru það sem koma skal. Sammála um það.
Sæmundur Bjarnason, 21.11.2010 kl. 09:18
Ég les þig væni, stundum stundum,
stundum uppá grín.
Blogghundana fundum fundum,
fundum vera svín.
Hilmar Þór Hafsteinsson 21.11.2010 kl. 11:33
Skil þig ekki kæri, kæri.
Blogghundur einn beit víst mig.
Vildi að hann væri og færi
en væri bara var um sig.
Sæmundur Bjarnason, 21.11.2010 kl. 12:24
Sæmundur minn bloggar hér á sínu bloggi.
Ör hann sendir ástarskeyti,
atar kroppinn jurtafeiti.
Hilmar Þór Hafsteinsson 21.11.2010 kl. 12:48
Um Hilmar Þór ég hugsa jafnan mikið.
Fer þó bara stundum yfir strikið.
en staðfastlega að honum hér er vikið.
Sæmundur Bjarnason, 21.11.2010 kl. 13:44
Sæmilega Sæmi minn
sæmdur er af vísu.
Ætlar bæði út og inn
uppá næstu skvísu.
Hilmar Þór Hafsteinsson 21.11.2010 kl. 18:17
Hafsteins sonur hugsar sitt.
Hann mjög yrkir vísur.
Einkum gerir alltaf "hitt",
við allar megaskvísur.
Sæmundur Bjarnason, 21.11.2010 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.