1204 - Talning atkvæða í stjórnlagaþingskosningum o.fl.

Mér er alls ekki með öllu ljóst hvernig talið verður í komandi stjórnlagaþingskosningum og alls ekki frá því að svo sé ástatt um fleiri. Ég ætla því að reyna að útskýra hvernig þessi mál öll sömul horfa við mér. Verið getur að einhverjir hugsi á svipaðan hátt og hafi gagn af þessu. Ég held semsagt að talningin fari svona fram: 

Fyrst eru samanlögð gild atkvæði talin og deilt í þá tölu með 25. Sú tala sem þá kemur út er sú tala sem þarf til að vera kjörinn.

Sá sem fær flest atkvæði í fyrsta sæti er þá kjörinn í fyrsta sætið. Aðeins er notað það brot af hverju atkvæði sem þarf til að ná kjöri. Semsagt þó hann fái fleiri atkvæði í fyrsta sæti en útkoman úr deilingunni segir til um þá ónýtast atkvæðin ekki því afgangur atkvæðisins fer á þann sem er í öðru sæti á viðkomandi atkvæðaseðli. Ef enginn er þar er ekki unnt að gera neitt við afganginn af atkvæðinu. Þeir sem atkvæði hlutu í fyrsta sætið en náðu ekki kosningu fá í staðinn atkvæði í eitthvert annað sæti. Þeir sem voru í öðru sæti á þeim seðlum sem tekinn var hluti af til að kjósa þann sem var í fyrsta sæti eiga þann hluta sem eftir er til góða í eitthvert annað sæti síðar meir við úthlutun þeirra sæta sem eftir eru. Næst eru talin atkvæði allra aftur nema þess sem er búið að kjósa í fyrsta sæti. Einhver er þar í efsta sæti og hann er því kjörinn einnig. Þannig er haldið áfram þar til 25 sætum hefur verið úthlutað.

Mér skilst að þessi aðferð sé kölluð STV en það skiptir vitanlega engu máli. Þetta virðist vera flókið og illskiljanlegt en tölvur hafa bara gaman af að reikna svona lagað.

Til viðbótar eru svo ákvæði sem tryggja báðum kynjum visst hlutfall sæta. Ef annað kynið er neðan við markið þegar búið er að úthluta 25 sætum er allt reiknað uppá nýtt og sætin höfð 26 en eftir 25 er því kyni sleppt sem er ofan við markið. Síðan er einu sæti bætt við í hvert sinn ef ekki næst sá jöfnuður sem sóst er eftir en þó mega sætin ekki verða fleiri en 31.

Vel getur svo verið að þetta sé allt misskilningur hjá mér og þá kemur vonandi einhver með leiðréttingu.

Hvað eftir annað hrekk ég upp við það að ég hef ekki athugað google-readerinn minn í marga daga. Þegar ég svo kíki á hann eru blogginnleggin þar gjarnan mörg hundruð. Þá er ekki annað að gera en eyða þeim snimmhendis og lofa sjálfum sér bót og betrun. Hún kemur samt sjaldast því mér finnst ég alltaf þurfa að gera svo margt annað en að lesa annarra manna blogg. Sem betur fer hugsa lesendur mínir ekki svona því þá mundu þeir líklega aldrei lesa mitt blogg. Eins og ég vanda mig samt. En tölum ekki meir um það.

Samtök sem nefna sig „Sterkara Ísland", hafa hvað eftir annað reynt að fá mig til að ganga í sig en ég hef þrjóskast við. Mér skilst að þetta séu samtök sem berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB og ég hef nokkrum sinnum fengið bréf frá þeim og er eflaust á einhverjum póstlista þar. Mér líkar það ágætlega því bréfin frá þeim eru allfróðleg og ég tel mig hafa gagn af þeim. Annars mundi ég klikka á tengil sem ávallt er neðst í bréfunum til að ég geti hætt að fá bréf af þessu tagi.

Baggalútur er með þetta. Þetta er þaðan:

Heyrði á tal ungra drengja áðan. Annar sagðist vera með tvær fætur. Í framhaldi sagðist hinn bara vera með einan heila.

Svona er þetta. Ástæðulaust að vera að þessu streði.

IMG 3738Tré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þetta er nægilega rétt hjá þér til að skiljast.  Hægt væri að útskýra þetta ítarlegar en það er þá bara fyrir stærðfræðinga að skilja.

Þorkell Helgason setti þetta svipað upp.

Axel Þór Kolbeinsson, 18.11.2010 kl. 10:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Axel. Gott að þú segir að þetta skiljist. Skil þetta nefnilega varla sjálfur. Og mikil blessun að ég skuli ekki vera að misskilja þetta allt.

Sæmundur Bjarnason, 18.11.2010 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband