1200 - Ýmislegt og fleira

Birti um daginn lista yfir þá sem ég var (og er) að hugsa um að kjósa til stjórnlagaþings. Eflaust hafa fáir lesið þann lista en svona eftir á að hyggja held ég að flestir á honum hafi verið þekktir fyrir í íslensku þjóðlífi. Það er að segja fyrir eitthvað annað en það eitt að vera í framboði til stjórnlagaþings. Þannig held ég að þetta verði. Sé ekki að það þurfi að vera á neinn hátt ókostur. Aðalatriðið er að fólk sé sem ótengdast fjórflokknum.

En hvernig á að ganga úr skugga um það? Það sem ég hef aðallega sem mark og mið í þessu (auk halds míns um stjórnmálaskoðanir fólks í víðum skilningi) er hvað mér sýnist viðkomandi eyða í auglýsingar. Því minni eyðsla þar því meiri líkur eru fyrir mínum stuðningi. Afleiðing af þessu (ef aðrir taka mig til fyrirmyndar) gæti orðið sú að þekkt fólk ætti auðveldari leið á þingið.

Nýlega heyrði ég Jóni Gnarr líkt við Þórberg Þórðarson. Sú samlíking er ef til vill ekki eins mikið út í hött og virðast kann við fyrstu sýn. Að minnsta kosti er því líkast sem báðum sé og hafi verið sama þó öðrum finnist þeir sérkennilegir.

Sjálfur man ég best eftir Jóni Gnarr í gerfi Georgs Bjarnfreðarsonar þar sem hann á sinni eigin bensínstöð tókst á við Hannes Hólmstein Gissurarson sjálfan í eigin persónu. Þar held ég að Jón hafi verið í essinu sínu.

Geri mér grein fyrir að sumir dæma mig einkum fyrir hvað ég skrifa á mitt blogg. (Hafa ekki annað). Auðvitað er ég ekkert frábrugðinn öðrum í því að mér er ekkert sama hvað aðrir hugsa um mig geri þeir það á annað borð. Þessvegna vanda ég mig við skrifin hér sem mest ég má.

Skrítið hvað skrif hérna verða auðveldari eftir því sem maður skrifar meira. Yfirleitt eyðist það sem af er tekið. Það á þó ekki við um skrif sem þessi. Þýðir það að skrifin séu lítilsverð? Það held ég ekki. Líklega er ég bara að verða æfðari og æfðari í að skrifa.

Ef ég skrifa til dæmis um ákveðið efni svosem minningar mætti halda að fækkaði þeim minningum sem ég get skrifað um. Svo er þó ekki. Ég held að þeim fjölgi bara eftir því sem meira er um þær skrifað. Verður þá minna að marka þær? Ekki endilega. Það kemur bara fleira upp í hugann og þar að auki verður með aukinni æfingu auðveldara að skrifa um sumt sem maður hélt að yrði svakalega erfitt að skrifa um.

Varðandi minningar á bloggi er erfiðast að muna hvað maður er búinn að skrifa um áður. Finnst asnalegt að skrifa oft um það sama. Kannski er lítil hætta á því. Kannski eru þeir afar fáir sem taka eftir slíku. Svo má alltaf gúgla. Hef oft orðið hissa á því hvað Gúgli er fljótur til. Kemur hann í heimsókn á hverjum degi? Eru kannski aðsóknartölurnar fyrst og fremst merki um athafnasemi leitarvéla-róbóta?

Af hverju eru allir að fara á fésbókarfjandann? Hvað á þetta að þýða? Það er miklu skemmtilegara að vera á Moggablogginu. Nú eða Eyjunni. Það eru nokkrir ágætis bloggarar þar. Byrjuðu reyndar flestir á Moggablogginu. Aftur á móti eru afar fáir almennilegir á vísisblogginu. Sumir bloggarar eru farnir á Wordpress eða búnir að fá sér sitt eigið lén. Ef þeir passa að skrá sig á blogg-gáttina er mér svosem sama um það. Annars er hætta á að maður missi af þeim.

Sumir eru alveg hættir að blogga nokkuð að ráði en skrifa eins og rófulausir hundar á fésbókina. Hvernig stendur á því? Það eru ekki aðrir en fésbókarvinir þeirra sem sjá það, eða hvað? Jú, ef eitthvað stórkostlegt er skrifað (sem er sjaldan) þá getur verið að einhverjir deili því til sinna vina eða athugasemdist við það sem skrifað er.

Kann ekki að meta svona lagað. Betra er að skrifa allskyns snilld sem allir geta séð ef þeir hafa gáfur til þess. Svo er bara verið að styðja eitt risastórt alþjóðafyrirtæki með því að fésbókast. Þá er nú skárra að styðja Davíð og Moggaskinnið.

Hræddur er ég um að glerperlurnar og allt það drasl standi í Ömma og Co. að lokum. Mér sýnast ESB-andstæðingar vera að fara á taugum svo líklega er skást að segja sem minnst um þetta mál.

IMG 3715Fossvogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýlega hefur heyrst af skoðanakönnun(um?) um stuðning við ESB-aðild sem hefur ekki verið birt.  Ég held að þessi taugaveiklunarviðbrögð Ögmundar, Ásmundar á Lambeyrum og fleiri bendi til þess að þeir viti af því að sveiflan sé byrjuð í hina áttina, þ.e.a.s. að nú fjölgi þeim sem fylgjandi eru aðild.  Hvers vegna annars ætti Ögmundur að vilja hespa viðræðunum af á tveimur mánuðum(!) og leggja málið í dóm kjósenda?  Ögmundur er enginn vitleysingur en þessi tillaga er svo heimskuleg að það hlýtur eitthvað að búa undir.

 

Gísli 14.11.2010 kl. 01:22

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gísli, já það er sennilegt. Mér finnst tillögugerð ESB-andstæðinga öll hafa verið hin undarlegasta undanfarið. Hvort það skýrist með skoðanakönnun sem sé á leiðinni veit ég samt ekki.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2010 kl. 07:36

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir mig og góðann daginn :)

Óskar Þorkelsson, 14.11.2010 kl. 09:53

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég skil ekki hvers vegna þú -- og reyndar fleiri -- fallbeygið ekki nafnið Gnarr. Ef Jón Gunnar Kristinsson hefði ekki breytt lítilsháttar síðara skírnarnafni sínu hefðir þú sagt að þú myndir best eftir Jóni Gunnari í þessu tiltekna hlutverki. Hvers vegna þá ekki Jóni Gnarri?

Sigurður Hreiðar, 14.11.2010 kl. 11:21

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, þetta er áhugavert. Fallbeygingar og forsetningar eru það gjarnan. Hvað akkúrat þetta nafn snertir finnst mér að Jón sjálfur eigi að ráða þessu. Ef litið er á þetta sem einskonar ættarnafn (sem það auðvitað er ekki) finnst mér engin ástæða til að fallbeygja það. Samsetningar verða kannski auðveldari þannig. Hef þó ekki velt þessu fyrir mér sérstaklega.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2010 kl. 12:44

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, takk og góðan daginn. Þú ert meðal þeirra sem oftast kommenta hjá mér. Reyndar svo oft að jafnvel þó ég hafi þá stefnu að svara öllum ef ég mögulega get er ég í vafa um þig.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2010 kl. 12:46

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég les pistlana þína daglega Sæmi, alls ekki alltaf sem ég sset inn komment en einna helst um helgar þegar ég er ekkert að flýta mér til vinnu.. þú ert nefnilega með morgunverðarbloggið mitt :)

Varðanid fallbeygingu á nafninu Gnarr þá skiptir það mig engu máli.. ég kalla hann Gnarrinn :)  og mér skilst að það sé að koma nýtt orð í íslensku sem er "gnarrismi"

Óskar Þorkelsson, 14.11.2010 kl. 15:38

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég hef líka heyrt sögnina að gnarra -- við gnörrum bara málin!

Sigurður Hreiðar, 14.11.2010 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband