1199 - Samtíningur og sitthvað

Finnst eins og ég hafi notað þessa fyrirsögn áður. Nenni samt hvorki að setja númer aftan við né gúgla það. Stundum finnst mér að helgarbloggin mín eigi að vera öðruvísi en önnur. Það séu aðrir (og hugsanlega fleiri) sem lesi þau, en sennilega er það tóm vitleysa.

Alveg er ég grjóthissa á því hvað ég fæ oft mikil viðbrögð við þessum skrifum mínum. Algengast er að menn bregðist lítt eða ekki við því sem þeir lesa. Viðbrögðin eru sennilega vegna þess að ég er farinn að taka það upp sem meginreglu að svara öllum athugasemdum strax. Það sýnir þó að ég les þær að minnsta kosti. Hvort sem þær hafa einhver áhrif á mig eða ekki.

Gnarrinn er að gera allt vitlaust þessa dagana. Í gær voru það skíðamennirnir sem fengu á baukinn. Í dag er það samgöngumiðstöðin sem er slegin af. Hvað verður það á morgun? Hef samt enga trú á að þetta minnki vinsældir hans. Bíð eftir skoðanakönnun. Eru skoðanakannanir skoðanamyndandi? Verða þær kannski slegnar af næst? Nú er gaman að lifa. Ekki er langt þangað til þessir tímar verða afar forvitnilegir. Verst að þá verð ég líklega kominn undir græna torfu. Svo er Jónína Ben. farin að segja allt. Æ, mér leiðist þetta tuð í henni.

DV.is skilst mér að aðstoði við val á frambjóðendum til stjórnlagaþings með því að gefa kost á að svara einhverju magni af pólitískum spurningum og gefa síðan leiðbeiningar um hvaða frambjóðendur skuli kjósa. Skoðanankannanir og ýmislegt annað í sambandi við komandi stjórnlagaþing á áreiðanlega eftir að valda talsverðum deilum. Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af því. Réttast er að kjósa færri en leyfilegt er ef vafi er mikill. Flestir hugsa ég að geti ákveðið strax nokkra frambjóðendur til að kjósa. Þetta er bara tilraun og ekki hægt að ætlast til að allt gangi eins vel og mögulegt er við undirbúning og framkvæmd.

Helgarblaðið „Fréttatíminn" hefur nú borist nokkrum sinnum inn á mitt heimili. Aðalkostur hans er sá að hann er ókeypis. Það er samt oft vel þess virði að fletta honum. Jafnvel rekst maður þar á greinar sem maður vill gjarnan lesa. Hvort maður hefur síðan tíma til þess er undir hælinn lagt. Allt það lesefni sem inná meðalheimili berst nútildags þegar auglýsingar og netið sjálft er meðtalið er beinlínis óskaplegt. Enginn getur lesið það allt. Sú var samt tíðin að hægt var að lesa allt sem barst. Man eftir að hafa jafnvel lesið Búnaðarritið í gamla daga.

IMG 3709Þessum fífli er kalt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er einhver notalegur á förnum vegi tónn í þínum skrifum sem hvíld er í að lesa. Vissulega með tilvísunum og grun um afstöðu þína til hinna ýmsu mál.

Kveðja, Gunnar úr Stykkishólmi.

Gunnar Gunnarsson 13.11.2010 kl. 01:36

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

"aðstoða við val á frambjóðendum" það var vel að orði komist. Minnir mig á gerð skattaskýrslunnar hér áður fyrr

p.s fíflum er alltaf kalt

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.11.2010 kl. 04:07

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gunnar Gunnarsson frá Stykkishólmi, takk fyrir tilskrifið. Ég veit nú lítið um hver þú ert en þrátt fyrir þennan "á förum tón" minn er ég ekkert að hætta að blogga svo ég viti.

Sæmundur Bjarnason, 13.11.2010 kl. 09:17

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, já þessar kosningar verða erfiðar og fyrirhafnarsamar fyrir marga. Skattframtalið var það líka áður fyrr, en er nú orðið lítið mál fyrir flesta.

Sæmundur Bjarnason, 13.11.2010 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband