11.11.2010 | 00:08
1197 - Hugleiðingar um hitt og þetta
Greinilegt er að fyrirsagnir hafa áhrif. Heimsóknir á síðuna mína voru með meira móti í gær. Eflaust vegna hennar. Fréttatenging og nafn. Getur ekki orðið betra. Svo er kannski ágætt að hafa fyrirsagnirnar bara nógu langar.
Í sívaxandi mæli eru stjórnlagaþingskosningarnar farnar að skipta máli. Vonandi gengur allt vel þar. Vonum líka að á þinginu sjálfu ríki sú eindrægni sem þörf er á ef árangur á að nást. Best færi á að stjórnmálaflokkarnir létu þingið alveg í friði.
Rifrildisefnin í íslensku þjóðlífi eru nægilega mörg. Ekki síst nú í kreppunni miðri og því er nauðsynlegt að forðast þau á stjórnlagaþinginu. Enginn verður minni af því að hlusta á aðra. Því aðeins getur þingið náð góðum árangri að samkomulagið og eindrægnin verði sem mest.
Fésbókin er ágeng úr hófi. En stjórnendur hennar eru hræddir við það neikvæða umtal sem um hana er og spyrja ætíð um leyfi til að fá að gera hitt og þetta. Það er lítill friður fyrir þeim og ég skil vel það fólk sem sökkvir sér í þetta. Ég reyni að standa svolítið á móti þessu en það er erfitt. Flest sem beðið er um er sárasaklaust ef maður hefur engu að leyna. Sala á öllu því gagnamagni sem þarna safnast er þó alveg möguleg.
Auðvitað er líka hægt að nota og misnota þær upplýsingar sem bloggið gefur. Íslenskar bloggveitur eru samt svo smáar í alþjóðlegu samhengi að lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af misnotkun þeirra. Best af öllu er samt að vera meðvitaður um möguleikana sem netið býr yfir og veita aldrei meiri upplýsingar um neitt en manni er alveg sama um þó allir viti.
Fór á bókasöfnin um daginn og tók að láni einar 20 bækur. Veit ekki hvar ég væri staddur ef ekki væru bókasöfn. Get ómögulega sofnað án þess að lesa pínulítið fyrst. Þetta er bara nokkuð sem ég er búinn að venja mig á og mér finnst orðið nauðsynlegt og get ekki án verið.
Það eru blóðpeningar að greiða sektir til bókasafnsins. Þó eru það líklega þær sem þau lifa á. Ef maður gætir þess að skila alltaf á réttum tíma eru það sönn verðmæti sem hægt er að sækja þangað. Með aðgang að ótakmörkuðu magni af bókum og netinu með öllu sínum kostum og göllum eru manni í rauninni allir vegir færir. Erfitt er að skilja hvernig fólk komst af áður fyrr.
Veit vel að hjá flestum er ég í einhverri ákveðinni skúffu. Æ, hann er nú svona og svona kallinn og best að halda bara áfram með sitt." Í þessari skúffu er samt ekkert skemmtilegt að vera.
Stundum reyni ég að brjótast út úr henni og þar hentar bloggið mér best um þessar mundir. Reyni eins og ég get að koma á óvart. En það er erfitt. Ekki skara ég framúr á neinu sviði. Helst í Sæmundarhætti á blogginu. Það er að segja sjálfhverfu án þess að segja eiginlega neitt.
Íslenskt þjóðlíf er að breytast mikið. Um það bera bílastæðaflæmin við Háskólann í Reykjavík glöggt vitni. Veit þetta unga fólk eitthvað meira en við hin? Vonandi. Þannig mun landið þokast áfram. Útrásarvíkingarnir og hrunið er eins og hver önnur loftbóla í hinum þunga straumi tímans.
Finnst Ríkisútvarpið ganga of hart fram stjórnmálalega. Kosningarnar til stjórnlagaþings eru að valda þeim miklum vandræðum. Nú er búið að reka þaðan bæði Láru Hönnu Einarsdóttur og Þórhall Jósefsson. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ástæður Páls eru heldur þunnar og vel getur farið svo að þessar uppsagnir komi illilega í bakið á honum. Ekki vorkenni ég honum það.
Sagt er að allir frambjóðendur til stjórnlagaþings hafi fengið bréf frá þjóðkirkjunni þar sem samband ríkis og kirkju er til umræðu. Kannski hafa fleiri gert þetta eða eiga eftir að gera en mér finnst þetta alls ekki vera til fyrirmyndar. Ekki held ég að uppátækið verði kirkjunni til framdráttar.
Öldruð bygging í Öskjuhlíðinni.
Athugasemdir
Það er mismunandi hvernig hagsmunafélög hafa fengið eða óskað eftir upplýsingum um skoðun frambjóðenda á ákveðnum málefnum. Biskupsstofa var ekki fyrst til að senda mér skilaboð þar sem óskað var upplýsinga um afstöðu mína til ákveðinna mála. Sum hagsmunafélög hafa farið í að finna út hver afstaða frambjóðenda er út frá því sem þeir hafa skrifað og önnur hafa óskað eftir því að frambjóðendur sendi þeim póst að fyrra bragði.
Sjálfur ákvað ég að svara öllum fyrirspurnum sem að mér er beint, en ég ætla ekki að eltast við hagsmunafélög sjálfur til að auglýsa afstöðu mína. Kannski er ég að skjóta mig í fótinn með því en þá verður það svo að vera.
Axel Þór Kolbeinsson, 11.11.2010 kl. 09:34
Mér finnst að frambjóðendur eigi að upplýsa hverjir hafa samband við þá.
Hverjir aðrir en Biskupsstofa hafa t.d. haft samband við þig, Axel?
Sæmundur Bjarnason, 11.11.2010 kl. 10:40
Það var einstaklingur sem hefur verið viðloðandi Siðmennt og mögulega Vantrú sem vildi vita um afstöðu mína til Þjóðkirkjunar. Ég get ekki fullyrt að hann hafi verið á þeirra vegum, en svaraði spurningu hans kurteisislega og benti honum á kynninguna á Svipunni. Einum eða tveim dögum seinna sá ég samantekt Vantrúar.
Aðrir sem hafa sent mér skilaboð varðandi stjórnlagaþingið eru mbl/morgunblaðið og útvarp Saga með tilboð á auglýsingum, DV með tilkynningu um kynningarvef þeirra og Café Haiti að láta vita af opnum hljóðnema fyrir frambjóðendur til að kynna stefnumál sín.
Ég býst sterklega við því að mörg hagsmunasamtök muni óska eftir afstöðu frambjóðenda til einstakra mála, þá sérstaklega trúmála, fullveldisákvæði, eignarhaldi á náttúruauðlindum og jafnvel afstöðu til réttinda samkynhneigðra o.sv.frv.
Axel Þór Kolbeinsson, 11.11.2010 kl. 11:53
Takk Axel.
Mér finnst einhvern vegin að með þessu öllu saman sé verið að auka líkurnar á því að þrætugjörnustu einstaklingarnir meðal frambjóðenda hafi mesta möguleika á að ná kjöri. Eru samtök og félög ekki með þessu að reyna að fá væntanlega fulltrúa á stjórnlagaþinginu til að halda fram sínum málum? Þessar kosningar eru óðum að fá aukið vægi. Flestir eru hættir að hallmæla þeim og reyna í staðinn að hafa áhrif á þær. Interessant.
Sæmundur Bjarnason, 11.11.2010 kl. 12:39
Mjög svo áhugavert. Við munum sjá núna á næstu tveim vikum það sem einkennir persónukjör, en það er lobbýisma effectinn (afsakið sletturnar). Jú, hagsmunahreyfingar munu reyna að hafa áhrif á kosningarnar hvað þær geta svo þeirra mál séu líklegri í gegn. Þú getur rétt ímyndað þér hvað væri mikið af svona lobbýismakosningabaráttu ef við værum að kjósa t.d. forsætisráðherra eða forseta að fransk/BNA fyrirmynd.
Ég hef það á tilfinningunni að einhverjir muni skipta um skoðun varðandi hreint persónukjör eftir þessar kosningar, en blönduð leið hugnast mér best.
Axel Þór Kolbeinsson, 11.11.2010 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.