1179 - Nafnleynd og fleira

Les lítið blogg þessa dagana en eflaust snýst umræðan þar einkum um stjórnlagaþing. Þessvegna er ég að hugsa um að fjölyrða ekki um það nú þó merkilegt sé. Margir reyna að tala það niður en ég er ekki í þeim hópi. 

Hef verið að spekúlera í þessu með Egil Helgason og Hannes Hólmstein Gissurarson. Egill hefur ásakað Hannes um að skrifa undir ýmsum nöfnum og vice versa. Ef mér fyndist ég hafa svo margt að segja að ég þyrfti að skrifa undir ýmsum nöfnum þá mundi ég gera það. Held samt að það borgi sig ekki og yfirsýnin bili fyrr eða síðar.

Auðvitað getur verið að mönnum þyki betra að koma ýmsum söguburði á flot undir öðrum nöfnum en sínu eigin, en þá verður bara að taka því. Ef ég þyrfti á einhverju slíku að halda væri ég skíthræddur um að tilbúna nafnið fengi ekki eins marga lesendur og ég sjálfur. Viðhorf þetta kann þó að vera allt annað hjá supervinsælum pennum eins og Agli og Hannesi.

Auðvelt ætti að vera að koma hvers kyns söguburði á flot á fésbókinni. Að minnsta kosti ef maður er nógu vinsæll þar. Enginn vandi er að skrifa þannig að ekki sé hægt að hanka mann. Kannski er ég bara hugarfóstur einhvers Egils eða Hannesar. Hvað veit ég?

Þegar spilað var á spil í gamla daga var aðallega spiluð vist sem var eiginlega alveg eins og félagsvist nema þar var aldrei tromp heldur ýmist spilað grand eða nóló. Forhandargrand jafnvel. Stundum var spilaður manni (kaupamanni t.d.) en hann var eiginlega þriggja manna spil og þar með óæðri. Bridge kunnu fáir. Á aðfangadagskvöld mátti ekki spila en um áramótin alveg útí eitt. Á sumrin mátti ekki spila og ég held bara aldrei í þeim mánuðum þar sem R-ið vantaði.

Oft var sagt þegar spilað var: „Helvítis roðhænsni eru þetta." Þá áttu menn að sjálfsögðu við að spilin væru léleg. Léleg spil voru líka kallaðir hundar. Aldrei höfðu menn orð á því ef þeir fengu góð spil á hendina. Kannski er þetta svona ennþá. Ég spila bara svo sjaldan. En hvað eru roðhænsni eiginlega? Merkingin fer eflaust eftir því hverju fólk hefur vanist. Neikvætt er það allavega.

Vitlaus og vambarlaus, galinn og garnalaus o.s.frv. var líka oft sagt í gamla daga. Þetta var eflaust fyrst og fremst útaf stuðlunum en mér finnst samt alltaf að þessi orð eigi saman.

Þegar ég blogga finnst mér ég ekki vera bundinn neinu eða neinum og það er góð tilfinning. Öðrum finnst ég kannski vera handbendi annarra. Ég held það oft um aðra. Kannski er ég handbendi allra sem ég er sammála.

Fylgist nokkuð með því sem skrifað er um WikiLeaks. Verð að trúa að mestu því sem aðrir fjölmiðlar skrifa um það sem þar er að finna því skjölin á WikiLeaks eru svo mörg og yfirgripsmikil að ég treysti mér ekki til að kynna mér þau almennilega. Augljóst er samt að þeir hafa oft staðið sig vel og verið trúverðugir. Viðurkenni samt þann möguleika að þeim geti skjátlast. Barátta stjórnvalda við þá er sjaldan trúverðug.

IMG 3520Rótarhnyðja dauðans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband