1174 - Tintron

Untitled Scanned 03Um þessa mynd má margt segja. Ég fékk hana hjá Bjössa bróður mínum og eflaust mætti laga hana til og gera hana ögn skárri. Þessi mynd er tekin í hellinum Tintron (eða við hann) líklega um 1990 og er af hópi sem fór á vegum Hjálparsveitar skáta í Hveragerði í leiðangur í hellinn. Í þessari ferð gerðist margt sem vel væri við hæfi að rifja upp. Á myndinni er Bjössi í aftari röð lengst til hægri. Ég er sá gráskeggjaði í aftari röð númer þrjú frá hægri. Það er semsagt einn á milli okkar Bjössa. Benni sonur minn er síðan lengst til hægri í fremri röð og Bjarni Harðarson fyrrverandi þingmaður og frændi minn við hliðina á honum. 

Aðra þekki ég ekki á myndinni en gæti eflaust komist að því hverjir það eru. Vel gæti hafa verið einn til viðbótar í ferðinni og hann hefur þá líklega tekið myndina. Það hef ég ekki athugað. Heimildir um þessa ferð er kannski að finna hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði. Man að við fórum á einum bíl sem sennilega var í eigu svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu.

Þegar við vorum nokkurn vegin nýkomnir af stað en þó langleiðina að Selfossafleggjaranum (eða jafnvel framhjá honum) pípti síminn hjá Bjössa útaf útkalli vegna veiðimanns í Soginu sem straumurinn hafði hrifið með sér og fært á kaf. Við héldum að sjálfsögðu áfram sem leið lá og komun brátt auga á flugvél sem flaug afar lágt yfir Sogið þegar við nálguðumst Sogsbrúna.

Þegar við höfðum síðan farið spölkorn upp eftir Þingvallaveginum sáum við lögreglubíl hjá sumarbústöðum við Álftavatn. Þangað fórum við og lögreglumennirnir sögðu okkur að þeir hefðu séð þúst úti í vatninu og þeir héldu að það kynni að vera veiðimaðurinn sem leitað væri að. Þeir öflugustu í okkar hópi ösluðu þá út í vatnið og í ljós kom að umrædd þúst var líkið af veiðimanninum. Það var sett í líkpoka sem var um borð í lögreglubílnum og við héldum áfram för okkar. Hjálparsveitin frá Selfossi var þá farin að nálgast staðinn á björgunarbát með utanborðsmótor.

Eftir Lyngdalsheiðarveginum gamla fórum við síðan í átt að Tintron. Á leiðinni æfðum við okkur með því að fara í helli í hrauninu við veginn. Sá hellir lá undir Lyngdalsheiðarveginn og komum við upp úr honum norðan við hann en höfðum farið í hellinn sunnanvert við veginn. Niður í Tintron sigum við síðan og komumst þangað allir án erfiðleika. Hellirinn Tintron er merkileg náttúrusmíð og nánast vasaútgáfa af hellinum fræga og stóra við Þríhjúka.

Þegar upp skyldi fara í sömu böndum og við höfðum notað við niðurferðina vandaðist málið svolítið fyrir mér. Mér tókst bærilega að lesa mig upp eftir kaðlinum fyrst í stað en eftir því sem ofar dró minnkaði kraftur minn og spyrnur mínar í fótlykkjuna urðu smátt og smátt ómarkvissari. Hefðu ekki nokkrir sterkir björgunarsveitarmenn verið komnir upp á undan mér og getað aðstoðað mig síðasta spölinn er ekki víst að ég hefði komist alla leið. Aðrir áttu ekki í erfiðleikum svo ég muni. Eiginlega man ég ekki eftir fleiru úr ferðinni en þetta er líka allnokkuð.  Man þó að mér þóttu björgunarsveitarmenn og lögreglan umgangast líkið af veiðimanninum með fullmikilli léttúð.

IMG 3470Skrapp frá. Kem bráðum aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband