17.10.2010 | 00:11
1172 - Matur og drykkur
Mér sýnist að ég sé að verða svo forn í hugsun að ég þurfi að hverfa aftur til forn-Grikkja til að koma hugsunum mínum til skila. Þarna á ég við tveggja manna talið en það er kannski ekkert ættað frá forn-Grikkjum. Jæja, nú eru það Heilsufrömuðurinn og efasemdarmaðurinn sem ræðast við:
H: Helsta heilsuvandamálið nútildags er offitan. Þetta verður aldrei of oft brýnt fyrir okkur Vesturlandabúum.
E: Og af hverju er það?
H: Maturinn er svo góður.
E: Já, hann er svo góður nútildags að það er erfitt að verða ekki feitur.
H: Já, það segja fleiri.
E: Og hverjum er um það að kenna.
H: Ekki bara góður heldur líka svo ódýr að erfiðleikum veldur.
E: Er þá ekki bara hægt að hafa hann dýrari?
H: Markaðurinn leyfir það ekki.
E: Og hann stjórnar öllu?
H: Já, því miður.
E: Þetta er hræðilegt. Velmegunin er þá semsagt að drepa okkur.
H: Já, það má segja það.
E: Matur upp og ofan er semsagt einum of góður?
H: Já og oft því betri sem hann er óhollari.
E: Stóra vandamálið er semsagt að matur er of góður og of ódýr.
H: Já, og svo hreyfum við okkur of lítið miðað við allar kalóríurnar sem við innbyrðum.
E: Í þessum góða mat, semsagt?
H: Einmitt.
E: Hollur matur er hrikalega dýr.
H: Já, það er alveg rétt.
E: En ekkert sérstaklega góður.
H: Jú, jú. Hann er ágætur.
E: Er þá ekki hætta á að borða of mikið af honum.
H: Nei, hann er svo dýr.
E: Nú, þá erum við komnir í hring. Eigum við ekki að reyna smáútúrdúr?
H: Jú, gerum það.
E: Einhverntíma var sagt í þekktum húsgangi:
Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.
Af hverju gera menn ekki allan andskotann" í mannmergð milljónaborganna?
H: Það veit ég ekki. Kannski eru þeir búnir að því og finnst það ekkert gaman.
E: En það eru eflaust margir sem hugsa svona. Ekki síður útlendingar. Kannski það sé bara best að vera eins og allir hinir.
H: Já, ætli það ekki. En af hverju fylgja þá ekki allir okkur heilsupostulunum að málum.
E: Það veit ég ekki. Kannski gera þeir það í hjarta sér en vilja bara ekki viðurkenna það.
H: Gæti verið.
E: En þá væru ekki allir að drepast.
H: Nei, auðvitað ekki.
E: Af hverju í fjáranum högum við okkur alltaf svona vel?
H: Veit það ekki. Sumum finnst að við högum okkar frekar illa.
E: En það er alls ekki rétt.
H: Ja, það fer allt eftir því hvaða mælikvarði er notaður.
E: Og svo borga menn stórfé fyrir að fá að hreyfa sig.
H: Ekki er það nú alveg rétt. Hreyfingin er gjarnan kontróleruð af sérfræðingi.
E: Til þess að hreyfa sig sem minnst, en ná þó sem mestum árangri?
H: Einmitt.
E: Er þá hættulegt að hreyfa sig of mikið án leiðbeininga?
H: Nei, alls ekki.
E: Ætti maður ekki að lifa lengi ef maður borðar sem allra minnst og er sífellt að hreyfa sig?
H: Jú, áreiðanlega.
E: En til hvers ætti maður að lifa svo leiðinlegu lífi sem allra lengst.
H: Góð spurning. Er ekki um að gera að borða sem bestan mat og hreyfa sig sem allra minnst?
E: Það er nú eiginlega ég sem hefði átt að taka svona til orða.
H: Nú.
E: Já, ég efast um allt. Líka að nokkuð gagn sé að ykkur heilsufrömuðum.
H: Það varst þú sem varst að spyrja mig. Ekki öfugt.
E: Vorum við ekki bara að tala saman. Það hélt ég.
H: Mér fannst ég vera í einhvers konar prófi.
E: Það er tóm vitleysa hjá þér.
H: Það er mikið um pólitíska rétthugsun í heilsufræðum.
E: Já, þið talið stundum eins og allir eigi að vera eins. Borða það sama, hreyfa sig á sama hátt, og vera á móti því sama.
H: Það er rétt. Við erum skelfilega ófrumlegir.
E: Áður dóu menn úr ófeiti. Nú er fitan helsti óvinurinn.
H: Já, fitan og kolvetnin.
E: Ég hef aldrei skilið þessa skiptingu á öllu sem ofan í sig er látið. Ég vil bara fá nógu mikinn mat. Ef hann er vondur borða ég bara minna.
H: Það er einmitt flísin sem við rís. Fólk borðar alltof mikið af því að maturinn er svo góður.
E: Nú erum við komnir einn hringinn enn. Eigum við ekki að fara að hætta þessu?
H: Jú, það finnst mér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.