1167 - Um vísur og þessháttar

Er ég að gefast upp fyrir fésbókinni? Nei, aldeilis ekki. Mér finnst skrifin þar bara svo yfirþyrmandi og erfitt að fylgjast með þeim. Öðrum finnst eflaust það sama um bloggskrifin öll. Ég er bara orðinn svo vanur þeim og með því að renna yfir fyrirsagnir og höfunda finnst mér ég fá heilmikla yfirsýn. Yfirsýn sem erfitt er að ná í fésbókinni. Skrifin þar eru samt styttri og hugsanlega hnitmiðaðri ef maður horfir bara á skrif vissra manna. En hvernig finnur maður þessa „vissu menn"? Og hvað um öll hin skrifin sem maður missir þá líklega af? 

Einu sinni þegar ég var í skóla að Bifröst vorum við Kristinn Kristjánsson, Skúli Guðmundsson og ég eitthvað að ljóða hver á annan. Ekki voru vísurnar merkilegar og ekki man ég eftir þeim. Kiddi gekk samt dálitla stund um gólf (á 205 minnir mig) og kom svo með þessa snilldarlegu oddhendu um Skúla:

Yrkir ljóðin ansi góð
okkar fróði maður.
Gerir fljóðin alveg óð
enda sóðagraður.

Í upphafi trúði ég því alls ekki að Kiddi hefði gert þessa vísu. Svo góð er hún og hann gerði ekkert sérlega mikið af því að yrkja. Með þessu gerði hann okkur auðvitað alveg orðlausa og ég held að ekki hafi verið ort meira þann daginn.

Seinna minntist ég þess auðvitað að þegar Kiddi flutti fyrst að Hjarðarbóli og hóf nám í Miðskóla Hveragerðis (líklega í sama bekk og Ingibjörg systir) orti skáldið og listamaðurinn Séra Helgi Sveinsson sem auk alls annars var kennari við skólann eftirfarandi vísu:

Í andríkinu af öllum ber
okkar kæri skóli.
Kraftaskáld er komið hér,
Kiddi á Hjarðarbóli.

Þó yrkingar hafi ekki verið mikið stundaðar á Bifröst áttu talsvert margir þar auðvelt með að ríma. Eftir veruna þar man ég t.d. eftir að hafa verið í ljóðabréfasambandi við Þóri E. Gunnarsson en ætla samt ekkert að rifja upp vísur úr þeim ljóðabréfum því ég held að Þóri sé það á móti skapi.

IMG 3393Strákurinn er búinn að ná fiskinum en þá spýtir hann útúr sér einhverjum óþverra sem stráknum líkar ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband