1162 - Kiljan o.fl.

Horfði á Kiljuna í sjónvarpinu í gær miðvikudag. Merkilegast þar þótti mér viðtal Egils Helgasonar við Kristínu Jónsdóttur en hún sendi nýlega frá sér ljóðabókina „Bréf til næturinnar". Ég hef aldrei verið sérstaklega gefinn fyrir ljóð og get því ekki margt sagt um bók þá sem einkum var talað um í þættinum. 

Nokkur ljóð úr bókinni voru lesin þar og Egill hrósaði bókinni mikið. Hún hefur víst fengið óvenju góðar viðtökur af ljóðabók að vera og til skýringar sagði Kristín sjálf og hitti ef til vill naglann á höfuðið:

„Fólki finnst hún kannski bara skemmtilega gamaldags."

Einkenni á þeim ljóðum sem lesin voru í þættinum var að í þeim voru rím og stuðlar. Uppáhaldsskáld Kristínar var Guðmundur Böðvarsson og mig minnir að ljóð hans hafi flest verið rímuð. Það voru ljóð Steins Steinars sömuleiðis og hefur hann þó verið kallaður frumkvöðull nýbylgjunnar í ljóðagerð. Kannski var ljóðabálkurinn „Tíminn og vatnið" ekki uppfullur af rími en ljóðin þar voru afar háttbundin ef ég man rétt.

„Við skulum ekki gleyma því, að.....", segja stjórnmálamenn gjarnan þegar þeir vilja gera sem mest úr Íslenskum vandræðum síðustu ára. Enn virðast þeir halda að þeim sé treyst. Af hverju fara þessir svokölluðu Alþingismenn ekki heim til sín að sofa? Þeir hljóta að sjá að þeim er ekki lengur treyst. Mikilvægasta verkefni núverandi ríkisstjórnar er að leggja grunninn að skárri ríkisstjórn. Lífi hennar er lokið. Að minnsta kosti getur hún ekki leyst nein mál ef allir eru á móti henni. Sjálfur tel ég núverandi ríkisstjórn vera þann skásta kost sem við eigum völ á um þessar mundir.

Sennilega eru þetta afar eftirminnilegir tímar sem við lifum núna. Ekki bara hrunið og eftirmálar þess, heldur miklu fremur sú staðreynd að það er að verða vitundarvakning varðandi náttúrufar og heilsu. Sumir ganga að vísu alltof langt í því efni en það er bara eðlilegt. Þegar sagan er skoðuð kemur það mjög á óvart hve fáir hafa haft skilning á því að mannkynið er komið ótrúlega langt með að tortíma sjálfu sér. Þar er bæði um að ræða óhóflega mannfjölgun, vaxandi misskiptingu á gæðum jarðarinnar og blinda neyslu sem ekkert sér nema hagvöxt.

Enginn þorir að gagnrýna mann þó maður sé með undarlegustu tiktúrur þegar maður fer að eldast því allir vita að svona verða þeir einhverntíma sjálfir. Um þessar mundir er það dellan fyrir löngum gönguferðum sem hrjáir mig og myndavélin fær oftast að koma með. Miðað við aldur og fyrri störf tek ég sennilega ágætar myndir svona innan þess ramma sem ég hef sett mér. Svo er það eiginlega einstök iðni að setja bæði blogg og mynd á hverjum degin inn á Moggabloggið. Davíð frændi ætti að verðlauna mig fyrir að hafa staðið mig svona vel og ekki flúið þegar mest gekk á. Finnst ritstjórn hans á Morgunblaðinu samt fjarska léleg.

IMG 3315Hér dansa engar flöskur núna. Annars er þetta vatnsverksmiðja skammt frá Þorlákshöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Af öllu leiðinlegu efni í sjónvarpinu held ég að mér þyki Kiljan hvað leiðinlegust. Dýpra get ég varla í árinni tekið.

Sigurður Hreiðar, 7.10.2010 kl. 22:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst Kiljan aftur á móti með því besta sem sjónvarpið býður uppá. Kannski er oftast lítið og illa fjallað um bókmenntir í sjónvarpi og Egill Helga er ágætur stjórnandi þar en fremur misheppnaður í Silfrinu.

Sæmundur Bjarnason, 7.10.2010 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband