1144 - Uppnefni og stuttnefni

Bróðir minn heitir Vignir. Hann er þremur árum yngri en ég. Mér er sagt að þegar ég hafi verið að passa hann og verið spurður að því hvað hann héti hafi ég jafnan sagt: „Guðlaugur Viðar Vignir." Það er samt ekki rétt nafn hans því hann heitir bara Guðlaugur Vignir. Hef ekki hugmynd um hvaðan Viðarsnafnið er komið. Þegar Vignir var lítill var hann oft kallaður Vibbi. Það nafn hafði þá enga aukamerkingu. Ég held að það hafi ekki verið fyrr en löngu seinna sem farið var að tala um að menn væru algjörir vibbar o.þ.h. Þetta er slangur og jafnvel ekkert mjög útbreitt. Hvað veit ég?

Strák man ég eftir sem alltaf var kallaður Dúddi. Man ekki einu sinni hvað hann hét réttu nafni. Þetta var samt fjarri því að vera eitthvert slangur á þeim tíma eða hálfmislukkuð þýðing á enska orðinu dude eins og nú er. Einum strák man ég eftir sem alltaf var kallaður Kútur. Mamma hans kallaði hann það líka. Stundum voru menn kenndir við mæður sínar og föður sinn. Magga Klöru Kalla Magg þekkti ég vel á sínum tíma. Einnig Mumma Gunnu Bjarna Tomm. Sjálfur var ég í þeim stíl stundum kallaður Sæmi Rósu Bjarna Sæm o.s.frv.

Strákur sem var sonur ljósmóðurinnar í Hveragerði var aldrei kallaður annað en Jón bensín. Það var líka nauðsynlegt til aðgreiningar. Veit samt ekki hvaðan bensínnafnið er komið þó sögur hafi verið á kreiki um það. Frank Michelsen var oftast kallaður Kusi. Sú saga er til af tilkomu þess nafns að hann hafi einhverntíma haldið því fram að nafn sitt væri samstofna nafninu Frankus. Já, það þarf ekki alltaf mikið til og börn eru ákaflega miskunnarlaus.

Annars var ekki mikið um uppnefni í Hveragerði þegar ég var að alast þar upp. Strákur sem hét Ingvar Christiansen var samt aldrei kallaður annað en Lilli og Ingi lús var frá bæ í Arnarbælishverfi þar sem lús hafði fundist. Allskyns stuttnefni og kenningarnöfn tíðkuðust þó og uppnefni voru kannski algengari en ég man eftir.

IMG 1126Hér er allt á rúi og stúi en bjart fyrir utan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband