1137 - Axlar-Björn

„Smásaxast nú á limina hans Björns míns" á Steinunn kona Axlar-Björns að hafa sagt þegar hún horfði á mann sinn tekinn af lífi og hendur hans og fætur mölbrotnar á sem sársaukamestan hátt áður en dauðanum var leyft að koma til hans. Sjálf fékk hún að halda lífi þá um sinn því hún var þunguð.

Einn frægasti afbrotamaður Íslandssögunnar er án nokkurs efa Björn Pétursson er bjó að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Sagt er að Pétur faðir hans hafi gefið konu sinni, vegna þrábeiðni hennar, blóð úr sjálfum sér að drekka þegar hún gekk með Björn. Sjálfri þótti henni það boða illt um Björn.

Björn ólst upp hjá Ormi Þorleifssyni ríka á Knerri. Þótti sá harðdrægur og óbilgjarn í viðskiptum og um hann var sagt:

Enginn er verri
en Ormur á Knerri.

Eftir að Björn hóf búskap að Öxl kom fljótlega upp sá kvittur að hann myrti menn til fjár. Þótti mönnum einkum hestar þeir sem hann átti vera margir.

Maður einn norðlenskur gisti hjá Birni. Undir rúminu sem honum var vísað á til að sofa í var dauður maður. Brá þeim norðlenska mjög við að uppgötva þetta eftir að ró var komin á í bænum en skipti samt um stað við þann dauða.

Um miðja nótt kom Björn og lagði til þess sem í rúminu lá.

Steinunn kona Björns segir þá: „Því eru svo lítil eða engin fjörbrot hans?"

Björn svarar: „Í honum krimti, dæstur var hann en ósleitulega til lagt, kerling."

Vegna vináttu Björns við Guðmund Ormsson á Knerri þorði enginn að kæra framferði hans.

Kerling ein að Öxl vildi vara systkini sem þar gistu við hættu þeirri sem yfir þeim vofði og raulaði eftirfarandi við barn sem hún var að svæfa.

Gistir enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð.
Ekur hann þeim í Ígultjörn.
Rennur blóð
eftir slóð
og dilla ég þér jóð.

Pilturinn komst síðan undan Birni við illan leik en stúlkan ekki og var Björn handtekinn af Ingimundi hreppstjóra í Brekkubæ nokkru seinna.

Sumar heimildir segja að Björn hafi framið alls ein átján morð. Fjöldi þeirra er samt á reiki og ekki er víst hve marga hann myrti. Sveinn skotti sonur Björns var einnig tekinn af lífi og sömuleiðis sonur Sveins sem Gísli hrókur var kallaður.

Afkomendur Björns í dag eru taldir um 20 þúsund. Þeir sem það vilja geta athugað í Íslendingabók um skyldleika sinn við hann.

Þau Björn og Steinunn voru bæði dæmd til dauða á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Sagt er að Björn hafi orðið vel og karlmannlega við dauða sínum og er dys hans enn sjáanleg hjá túninu á Laugarbrekku.

IMG 3031Lundi skundi í glugga túrhestaverslunar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú talar greinilega af nokkurri þekkingu um þessi mál Sæmundur. Gísla hrók hef ég aldrei heyrt eða séð nefndan t.d.

Hvar finn ég einhverja samantekt um þá feðga Svein skotta og Gísla hrók?

Auðvitað geri ég ráð fyrir því að flest sé þar með miklum þjóðsagnablæ nema þá dómabækur sem við verðum að gera ráð fyrir að séu skrifaðar nokkuð jafnharðan og mál eru tekin til dóms og dómar felldir.

Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 09:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fyrst notaði ég þjóðsögur Jóns Árnasonar sem eru að miklu leyti á Netútgáfunni og ég tel mig geta notað eins og ég vil því ég stóð að henni með fleirum. Síðan kom Gúgli mér til hjálpar og á Gísla hrók var minnst á einhverri ferðamálasíðu ef ég man rétt. Tengingin við Íslendingabók var líka þar. Setningin í upphafi frásagnarinnar hefur einfaldlega fest sig í minni mínu. Er samt hugsanlega röng.

Sæmundur Bjarnason, 12.9.2010 kl. 10:36

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka Sæmundur. Nákvæmt upphaf þessarar lífseigu ályktunar Steinunnar húsfrúar hefur að ég held aldrei verið skilgreint í þjóðarumræðunni og á þessa lund hef ég bæði heyrt hana og séð.

Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 10:47

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eftir orðum Steinunnar má álykta að útlimirnir hafi verið höggnir af Birni. Svo var ekki samkvæmt frásögnum heldur voru þeir brotnir. Hálshöggvinn var hann þó í lokin og afskornum kynfærum hans hent í kjöltu Steinunnar að sagt er.

Sæmundur Bjarnason, 12.9.2010 kl. 11:43

5 Smámynd: Billi bilaði

Skemmtilegur pistill.

Ekki man ég eftir að hafa heyrt þessa tilvitnun í Steinunni, en pabbi fór iðulega með tilvísun í Björn sjálfan við útlimabrotin: "Sjaldan brotnar bein á huldu, frændi".

Billi bilaði, 19.9.2010 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband