1134 - Um Villafóbíu, trúmál o.fl.

Skaði hvað bloggarar eru almennt orðljótir og kvikindislegir. Líka hve mikið er bloggað á hverjum degi. Það er engum ætlandi að lesa þessi ósköp. Af hverju hætta ekki allir að blogga nema ég? "Penis með krana", finnst mér fyndnasta fyrirsögnin í keppninni um að ófrægja Færeyingsgreyið sem trúir öllu sem stendur í biblíunni og skilur það með sínum misskilningi. 

Villafóbía mín fer vaxandi. Les bloggið hans Vilhjálms í Kaupmannahöfn samt oft (alltof oft) Kannski er hans predikament svipað. Ég er alltaf að minnast öðru hvoru á hann. Get ekki stillt mig um það. Hann helgaði bölbænum um mig og ímynduð svik mín einu sinni heilt blogg. Gleymi því aldrei.

Jú, það er dálítið erfitt að hugsa sér sjálfan sig dauðan. Einhver hafði orð á þessu annaðhvort á bloggi eða fésbók. Eitt sem maður fer alveg á mis við er að vita hvernig eftirmæli maður fær og hve margir muna eftir manni og hve lengi? Hvaða verk manns lifa og hver ekki? Erum við dálítið í því að reyna að reisa okkur minnisvarða?

Hvers vegna í ósköpunum er maður að rembast við að haga sér almennilega í þessu lífi ef ekkert tekur við? Já, en það gæti nú hugsanlega tekið eitthvað við reynir margur að hugga sig við. Þar að auki líður manni skár ef maður hagar sér ekki illa í lífinu.

Það er þessi síðasta setning sem truflar mig dálítið. Hefur það verið sannað? Getur ekki verið að við séum einmitt siðferðislega á nokkuð góðu róli vegna þess að við væntum hugsanlegs bónusgróða sem gæti falist í eilífu lífi. Kannski væri einmitt ráð að haga sér sem allra verst.

Ein er sú áhyggja sem ég held að margir hafi varðandi úrsögn úr þjóðkirkjunni. „Verð ég þá ekki einu sinni grafinn með skikkanlegum hætti eftir að ég er dauður? Kem ég kannski aðstandendum mínum í vanda með þessu?" Er þetta ekki næstum sama áhyggjan og við gerum sem mest grín að þegar við lesum um fólk sem vildi endilega eiga fyrir útför sinni? Það er ekki þess virði að vera að hugsa um svona lagað. Svo mætti líka bjóða verkið út. Kannski þjóðkirkjan yrði með hagstæðasta tilboðið.

IMG 3053Þessir hafa það nokkuð gott. Kjaftaklöpp í baksýn. (að ég held)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það léttir verulega á manni að uppgötva að maður þarf ekki að hafa margar áhyggjur af sama málinu. Það er auðvitað miklu einfaldara að tækla bara eina áhyggju í einu í stað þess að burðast með þær allar alltaf af öllu í einum graut.

Hólímólí 9.9.2010 kl. 05:30

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er aðeins ein ástæða sem ég hef til að breyta rétt í þessu lífi:

Ég trúi því að ef ég breyti rétt, leggi ég mitt á vogarskálirnar til að bæta líf fólksins í kringum mig, og er börnum mínum og vonandi fleirum góð fyrirmynd um hvernig hægt er að lifa lífinu þegar ég er sjálfur fallinn frá.

Það er nefnilega mikilvægt líf eftir dauðann. Líf þeirra sem erfa mann.

Hrannar Baldursson, 9.9.2010 kl. 05:31

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Hrannar og að með því bæti maður heiminn pínuoggulítið. Skil þig vel og það er dálítið erfitt að hugsa svona. Líka að koma svona hugsunum í orð.

Sæmundur Bjarnason, 9.9.2010 kl. 07:30

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, Sæmundur, og þó manni takist jafnvel ekki að bæta heiminn oggulítið, þá hefur maður að minnsta kosti ekki tekið þátt í að gera hann verri.

Hrannar Baldursson, 9.9.2010 kl. 07:48

5 identicon

Hrannar kemur með einhver skemmtilegustu túlkun framhaldslífs og útfærslu "you'll get pie in the sky when you die" sem ég hef lesið. Fyrirmyndin sem maður gefur nýtist ókomandi kynslóðum. Orðstír manns lifir mann. Hverskonar framhaldslíf er betra en það?

Carlos Ferrer 9.9.2010 kl. 08:28

6 identicon

Hvers vegna ætti ég að gera eitthvað fyrir afkomendur mína? Ekkert hafa þeir gert fyrir mig.

Skúli Pálsson 9.9.2010 kl. 09:00

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en Hrannar kannski er þetta allt saman tóm vitleysa. Kannski erum við með þessu að styrkja niðurrifsöflin í heiminum án þess að vita það eða skilja.
Ferrer og Skúli. Mér sýnist að úr þessu geti orðið meiriháttar trúarbragðarifildi.

Sæmundur Bjarnason, 9.9.2010 kl. 09:08

8 identicon

Mér finnst þetta með afkomendur frekar ómerkilegt framhaldslíf því ég verð ekki hérna til að njóta þess. Ef það er til framhaldslíf vil ég hafa það almennilegt, vil fá verðlaun fyrir það sem ég hef þó gert þokkalega (kökur í himnaríki og tilheyrandi).

Svo finnst mér þetta góð spurning: hefur það verið sannað að manni líði eitthvað skár ef maður hagar sér ekki illa í lífinu? Væri ekki frekar erfitt að sanna það?

Skúli 9.9.2010 kl. 09:32

9 identicon

Well Hrannar... ef þú plöggar trúarbrögðum, þá er þetta oggulitla góða sem þú telur þig standa á bakvið, þá er það húmbúk.

Skúli telur sig ekki skulda neinum neitt... hvað þá mönnum framtíðar.. sem eru börn í dag.. kannski börnin hans.. .
Ertu að taka Mofa á þetta Skúli, Mofa finnst ekkert skipta máli ef hann sjálfur fær ekki eilíft líf í lúxus.. hann sér ekki ástæðu til að myrða ekki,nauðga ekki.. ef Guddi er ekki í geimnum með verðlaunin hans Mofa.

Mannkynið hefur aðeins möguleika á framförum ef við tökum okkur fyrir það sem við erum, dýrategund.... dýrategund sem á bara eitt líf, óendanlega verðmætt líf vegna þess að það er okkar eina...
Trúarbrögðin koma svo inn og segja að við séum ekki það sem við erum.. að það sé galdrakarl í geimnum sem elskar okkur og vilji gefa okkur extra líf í lúxus EF við leggjumst undir trúarpólitík X

Ekkert er ógeðslegra en trúarbrögð....

doctore 9.9.2010 kl. 10:50

10 identicon

Ég er bara að spyrja: Hver er ástæðan fyrir að ég ætti að hugsa um ókomnar kynslóðir?

Ekki bara mín börn heldur annarra börn og þeirra börn og þeirra afkomendur. Eru til góð rök fyrir því?

Skúli 9.9.2010 kl. 12:23

11 identicon

Ef þú getur ekki borið umhyggju fyrir fólki framtíðarinnar... fyrir framtíð barna okkar... þá ertu vesæll maður.

doctore 9.9.2010 kl. 12:39

12 identicon

Ef þér finnst þú ekkert skulda afkomendum þínum (nytsemisrök), þá skaltu gæta þess að búa enga til. Þeir biðja yfirleitt ekki um það að vera fæddir ... en við ráðum hvort við skjótum virkum skotum eða blönkum (skyldurök).

Þú ert ekki verri maður fyrir að vilja ekki sinna afkomendum, nema þú búir þá til og vanrækir þá síðan. Dálítið eins og að fjárfesta í bíl sem þú borgar ekki, klessukeyrir og skemmir eigur annarra án þess að borga fyrir skaðann sem þú veldur.

Carlos Ferrer 9.9.2010 kl. 14:47

13 identicon

Ég er örugglega vesæll maður. Getur einhver gert það góðverk að fræða mig um rök fyrir að velferð ófæddra kynslóða komi mér við?

Skúli 9.9.2010 kl. 15:41

14 identicon

Velferð komandi kynslóða koma þér við á þann hátt að ef þú finnur til ábyrgðar gagnvart þeim þá ertu líklegri til að umgangast þá hluti betur í þínu lífi sem þessar komandi kynslóðir þurfa líka að nota.

Finnir þú ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart þeim kynslóðum sem á eftir þér koma þá ertu líklegri til festast í kærleikslausri eiginhagsmunahyggju en þeir sem axla ábyrgðina.

Hólímólí 9.9.2010 kl. 20:32

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varðandi rökstuðning Hrannars: Hvað með barnlaust fólk sem ekki á neina afkomendur? Menn ættu svo að hugsa út í það að enginn mun muna eftir okkur sem nú lifa eftir 10 þúsund ár. Mannkynið er auk þess hverfult fyrirbæri á jörðunni. Allur rökstuðningur fyrir gildi siðferðislegs lífs verður að miðast við það líf sem hver kynslóð lifir, nánar tiltekið okkar líf, ekki óþekkt líf framtíðarinnar. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.9.2010 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband